Rétt er að þær tegundir sem tilheyra ættkvíslinni Trichechus (eiginlegar sækýr; enska manatee) eiga það meðal annars sameiginlegt að sjón þeirra er ekki vel þróuð. Því er ekki auðsvarað hvers vegna svo er en sennilega má rekja það til aðlögunar að umhverfinu. Það er einkum tvennt sem gæti skýrt að ekki reynir á góða sjónskynjun hjá sækúm og hún hafi því ekki þróast hjá þeim:
- Sækýr eiga sér enga náttúrulega óvini (fyrir utan manninn).
- Á vatna- og strandsvæðum þar sem sækýr finnast í dag er skyggnið í vatninu ekki mikið. Góð sjón hefði þannig ekki nýst mjög vel við fæðuöflun og öflun annarra upplýsinga sem skynfærin veita lífverum til þess að komast af. Þess í stað hafa sækýr þróað með sér gott þefskyn og ágæta heyrn.