Sólin Sólin Rís 09:06 • sest 17:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 06:24 • Sest 16:46 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:17 • Síðdegis: 17:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:24 • Síðdegis: 23:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 09:06 • sest 17:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 06:24 • Sest 16:46 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:17 • Síðdegis: 17:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:24 • Síðdegis: 23:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað eru til margar tegundir sela í heiminum?

Jón Már Halldórsson

Til eru tvær ættir sela, eiginlegir selir (Phocidae) og eyrnaselir (Otariidae). Eyrnaselir greinast í tvær undirættir, loðseli (Arctocephalinae) og sæljón (Otariinae). Af eiginlegum selum eru þekktar 19 tegundir, þar af er ein úttdauð, en 16 tegundir tilheyra eyrnaselum, þar af ein útdauð. Alls eru tegundir núlifandi sela því 33.

Helsti munurinn á þessum tveimur ættum er að eyrnaselir eru með áberandi ytri eyru en þau eru hins vegar ekki til staðar hjá eiginlegum selum. Eyrnaselir eru jafnframt mun færari en eiginlegir selir að hreyfa sig á landi, en þeir geta fært afturhreifana sem gerir þeim auðveldara um vik að hreyfa sig á landi. Eiginlegir selir eru hins vegar afar klunnalegir á landi og færa sig aðeins áfram með framhreifunum. Á sundi er þessu hins vegar öfugt farið og eru eiginlegir selir þar mun þokkafyllri í hreyfingum en eyrnaselir.

Eiginlegir selir

Hinar 18 tegundir eiginlegra sela greinast í 13 ættkvíslir.

Munkselir (Monachus)

Til eru tvær tegundir af munkselum og lifa þær báðar í heitum sjó. Þetta eru afar sjaldgæfar tegundir og er munkselur (Monachus monachus) til dæmis meðal sjaldgæfustu hryggdýra í heiminum, telur aðeins um 600 dýr. Sandvíkurselurinn (Neomonachus schauinslandi) er einnig afar sjaldgæfur og telur aðeins um 1.400 dýr. Þriðja tegund munksela var karíbaselur (Monachus tropicalis) sem talinn er hafa dáið út rétt eftir miðja 20. öld. Það er því ljóst að mikil hætta steðjar að þessari ættkvísl sela.

Sæfílar (Mirounga)

Sæfílar eru stærstir allra hreifadýra en þeir geta orðið allt að 4 tonn að þyngd. Þeir greinast í tvær tegundir, norðlæga sæfílinn eða skerjasæfílinn (Mirounga angustirostris) og suðlæga sæfílinn eða kóngasæfílinn (Mirounga leonina). Eins og nöfnin gefa til kynna finnast þessar tegundir hvor á sínu heimshvelinu.

Átuselur (Lobodon)

Aðeins ein tegund tilheyrir ættkvísl átusela, Lobodon arcinophagus, og finnst hún undan ströndum Suðurskautslandsins. Átuselurinn lifir nær eingöngu á suðurhafsljósátu (Euphausia superba) og er stofnstærð hans gríðarlega mikil. Hann er talinn vera annað algengasta „stóra“ spendýrið á eftir manninum, en stofnstærðin er talin vera allt að 50 milljón dýr.

Weddell-selur (Leptonychotes)

Aðeins ein tegund telst til weddell-sela (Leptonychotes weddellii) en hann er suðurhafsselur líkt og átuselurinn. Weddell-selurinn er þó mun meiri tækifærissinni í fæðuvali og einskorðar sig ekki eins mikið við ákveðnar tegundir fæðu.

Pardusselur (Hydrurga)

Pardusselurinn (Hydrurga leptonyx) er eina tegund ættkvíslarinnar. Nafnið hæfir honum vel en hann er skætt rándýr í hafinu undan ströndum Suðurskautslandsins. Þar veiðir hann meðal annars mörgæsir og aðra seli svo sem átusel og weddell-sel.

Ross-selur (Ommatophoca)

Ross-selurinn (Ommatophoca rossii) lifir við strendur Suðurskautslandsins og er hann sjaldgæfasta selategundin þar. Ross-selurinn hefur hlutfallslega stór augu en hluti latneska heiti selsins er ommato sem þýðir auga.

Kampselur (Erighnatus)

Kampselurinn (Erignathus barbadus) er norrænn selur sem flækist reglulega hingað til lands. Hann er mikilvæg fæða bæði fyrir inúíta og hvítabirni (Ursus maritimus). Nafnið dregur hann af áberandi veiðihárum sínum sem minna að einhverju leyti á tignarlegt yfirvaraskegg.

Phoca-ættkvíslin

Til Phoca-ættkvíslarinnar teljast tvær tegundir sela en áður voru þær sjö tegundir. Hinar fimm tegundirnar hafa verið flokkaðar upp á nýtt og teljast nú til þriggja annarra ættkvísla: Pusa, Pagophilus og Histriophoca. Um þær verður fjallað síðar í svarinu en allar sjö tegundirnar finnast víða á norðurhveli jarðar.

Landselur (Phoca Vitulina) telst til Phoca-ættkvíslarinnar en hann finnst hér við land. Hin tegundin er blettanóri (Phoca largha) en hann finnst í norðanverðu Kyrrahafi við strendur Chukotka-skaga við Alaska og í Okhotsk-hafi og allt suður til Japanshafs.

Pusa-ættkvíslin

Þrjár tegundir tilheyra ættkvíslinni en það er hringanóri (Pusa hispida), bajkalselurinn (Pusa sibirica) og kaspíaselur (Pusa caspica). Hringanóri lifir í Íshafi og er algengur flækingur við Ísland. Bajkalselurinn, eða Norpa eins og hann er kallaður á máli heimamanna, er sennilega sú tegund sela sem hefur athyglisverðustu útbreiðsluna. Hann er einungis að finna í Bajkalvatni í Síberíu sem liggur þúsundir kílómetra frá sjó. Hinn smái kaspíaselur lifir eins og nafnið gefur til kynna í Kaspíahafinu. Hann finnst þó einnig í nokkrum stórfljótum Rússlands, svo sem Volgu.

Pagophilus-ættkvíslin

Einungis vöðuselurinn (Pagophilus groenlandicus) telst til ættkvíslarinnar. Hann er algengur flækingur hér við land en kæpir venjulega við vesturströnd Kanada og austurströnd Grænlands, allt norður í Íshafið.

Histriophoca-ættkvíslin

Beltanóri (Histriophoca fasciata) er norðurheimskautstegund sem finnst í Norður-Kyrrahafi og á Beringssundi allt suður til Okhotsk-hafs við Kamtchatka-skaga.

Útselur (Halichoerus)

Útselurinn (Halichoerus grypus) er eina tegund ættkvíslarinnar. Hann finnst meðal annars hér við land en einnig í Eystrasalti, við Bretlandseyjar og í Barentshafi. Deilitegund hans er einnig að finna undan ströndum Bandaríkjanna og Kanada.

Blöðruselur (Cystophora)

Blöðruselur (Cystophora cristata) finnst einkum í köldum sjó og flækjast reglulega hingað til lands líkt og hringanóri, vöðuselur og kampselur.

Eyrnaselir

Eyrnaselir greinast í loðseli annars vegar og sæljón hins vegar. Loðselir skiptast í tvær ættkvíslir, Callorhinus eða sæbirni og Arctocephalus. Tegundir þessara ættkvísla lifa fjarri Íslandsströndum og eru því lítt þekktar hér á landi. Til fyrrnefndu ættkvíslarinnar tilheyrir aðeins ein tegund Callorhinus ursinus en hann nefnist alaskaloðselur eða sæbjörn á íslensku. Hann minnir nokkuð á fjarskylda ættingja sína á landi, brúnbirnina, og lifir helst undan ströndum Alaska.

Hin ættkvíslin er öllu tegundaríkari en til hennar teljast átta tegundir. Þær hafa allar takmarkaða útbreiðslu á suðurhveli jarðar, til dæmis undan ströndum Suður-Ameríku, Eyjaálfu og Suðurhluta Afríku.

Sæljón greinast í fimm ættkvíslir og er aðeins ein tegund sem tilheyrir hverri ættkvísl að einni ættvísl undanskilinni þar sem er að finna tvær tegundir. Þetta eru stellarssæljón (Eumetopias jubatus) sem finnst í norðanverðu Kyrrahafi. Maorísæljón (Phocarctos hookeri) sem lifir undan ströndum Nýja-Sjálands. Kaliforníusæljón (Zalophus californianus) halda til undan ströndum vesturhluta Bandaríkjanna. Galapagossæljón (Zalophus wollebaeki) sem lifir eins og nafnið gefur til kynna við Galapagos-eyjar. Patagóníusæljón (Otaria flavescens) lifa í sjónum við suðurhluta Suður-Ameríku, Chile, Perú og Argentínu. Kengúrusæljón (Neophoca cinerea) finnst svo við strendur Ástralíu.


Athugasemd ritstjórnar: Þetta svar var uppfært 1. maí 2017 en þá var annars vegar umfjöllun um ross-sel bætt við og hins vegar var fimm af sjö tegundum sem áður tilheyrðu Phoca-ættkvíslinni færðar undir þrjár aðrar ættkvíslir, það er Pusa-, Pagophilus- og Histriophoca-ættkvíslirnar.

Höfundur

Jón Már Halldórsson

líffræðingur

Útgáfudagur

18.9.2007

Síðast uppfært

30.11.2023

Spyrjandi

Guðrún Hafþórs

Tilvísun

Jón Már Halldórsson. „Hvað eru til margar tegundir sela í heiminum?“ Vísindavefurinn, 18. september 2007, sótt 30. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=6806.

Jón Már Halldórsson. (2007, 18. september). Hvað eru til margar tegundir sela í heiminum? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=6806

Jón Már Halldórsson. „Hvað eru til margar tegundir sela í heiminum?“ Vísindavefurinn. 18. sep. 2007. Vefsíða. 30. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=6806>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað eru til margar tegundir sela í heiminum?
Til eru tvær ættir sela, eiginlegir selir (Phocidae) og eyrnaselir (Otariidae). Eyrnaselir greinast í tvær undirættir, loðseli (Arctocephalinae) og sæljón (Otariinae). Af eiginlegum selum eru þekktar 19 tegundir, þar af er ein úttdauð, en 16 tegundir tilheyra eyrnaselum, þar af ein útdauð. Alls eru tegundir núlifandi sela því 33.

Helsti munurinn á þessum tveimur ættum er að eyrnaselir eru með áberandi ytri eyru en þau eru hins vegar ekki til staðar hjá eiginlegum selum. Eyrnaselir eru jafnframt mun færari en eiginlegir selir að hreyfa sig á landi, en þeir geta fært afturhreifana sem gerir þeim auðveldara um vik að hreyfa sig á landi. Eiginlegir selir eru hins vegar afar klunnalegir á landi og færa sig aðeins áfram með framhreifunum. Á sundi er þessu hins vegar öfugt farið og eru eiginlegir selir þar mun þokkafyllri í hreyfingum en eyrnaselir.

Eiginlegir selir

Hinar 18 tegundir eiginlegra sela greinast í 13 ættkvíslir.

Munkselir (Monachus)

Til eru tvær tegundir af munkselum og lifa þær báðar í heitum sjó. Þetta eru afar sjaldgæfar tegundir og er munkselur (Monachus monachus) til dæmis meðal sjaldgæfustu hryggdýra í heiminum, telur aðeins um 600 dýr. Sandvíkurselurinn (Neomonachus schauinslandi) er einnig afar sjaldgæfur og telur aðeins um 1.400 dýr. Þriðja tegund munksela var karíbaselur (Monachus tropicalis) sem talinn er hafa dáið út rétt eftir miðja 20. öld. Það er því ljóst að mikil hætta steðjar að þessari ættkvísl sela.

Sæfílar (Mirounga)

Sæfílar eru stærstir allra hreifadýra en þeir geta orðið allt að 4 tonn að þyngd. Þeir greinast í tvær tegundir, norðlæga sæfílinn eða skerjasæfílinn (Mirounga angustirostris) og suðlæga sæfílinn eða kóngasæfílinn (Mirounga leonina). Eins og nöfnin gefa til kynna finnast þessar tegundir hvor á sínu heimshvelinu.

Átuselur (Lobodon)

Aðeins ein tegund tilheyrir ættkvísl átusela, Lobodon arcinophagus, og finnst hún undan ströndum Suðurskautslandsins. Átuselurinn lifir nær eingöngu á suðurhafsljósátu (Euphausia superba) og er stofnstærð hans gríðarlega mikil. Hann er talinn vera annað algengasta „stóra“ spendýrið á eftir manninum, en stofnstærðin er talin vera allt að 50 milljón dýr.

Weddell-selur (Leptonychotes)

Aðeins ein tegund telst til weddell-sela (Leptonychotes weddellii) en hann er suðurhafsselur líkt og átuselurinn. Weddell-selurinn er þó mun meiri tækifærissinni í fæðuvali og einskorðar sig ekki eins mikið við ákveðnar tegundir fæðu.

Pardusselur (Hydrurga)

Pardusselurinn (Hydrurga leptonyx) er eina tegund ættkvíslarinnar. Nafnið hæfir honum vel en hann er skætt rándýr í hafinu undan ströndum Suðurskautslandsins. Þar veiðir hann meðal annars mörgæsir og aðra seli svo sem átusel og weddell-sel.

Ross-selur (Ommatophoca)

Ross-selurinn (Ommatophoca rossii) lifir við strendur Suðurskautslandsins og er hann sjaldgæfasta selategundin þar. Ross-selurinn hefur hlutfallslega stór augu en hluti latneska heiti selsins er ommato sem þýðir auga.

Kampselur (Erighnatus)

Kampselurinn (Erignathus barbadus) er norrænn selur sem flækist reglulega hingað til lands. Hann er mikilvæg fæða bæði fyrir inúíta og hvítabirni (Ursus maritimus). Nafnið dregur hann af áberandi veiðihárum sínum sem minna að einhverju leyti á tignarlegt yfirvaraskegg.

Phoca-ættkvíslin

Til Phoca-ættkvíslarinnar teljast tvær tegundir sela en áður voru þær sjö tegundir. Hinar fimm tegundirnar hafa verið flokkaðar upp á nýtt og teljast nú til þriggja annarra ættkvísla: Pusa, Pagophilus og Histriophoca. Um þær verður fjallað síðar í svarinu en allar sjö tegundirnar finnast víða á norðurhveli jarðar.

Landselur (Phoca Vitulina) telst til Phoca-ættkvíslarinnar en hann finnst hér við land. Hin tegundin er blettanóri (Phoca largha) en hann finnst í norðanverðu Kyrrahafi við strendur Chukotka-skaga við Alaska og í Okhotsk-hafi og allt suður til Japanshafs.

Pusa-ættkvíslin

Þrjár tegundir tilheyra ættkvíslinni en það er hringanóri (Pusa hispida), bajkalselurinn (Pusa sibirica) og kaspíaselur (Pusa caspica). Hringanóri lifir í Íshafi og er algengur flækingur við Ísland. Bajkalselurinn, eða Norpa eins og hann er kallaður á máli heimamanna, er sennilega sú tegund sela sem hefur athyglisverðustu útbreiðsluna. Hann er einungis að finna í Bajkalvatni í Síberíu sem liggur þúsundir kílómetra frá sjó. Hinn smái kaspíaselur lifir eins og nafnið gefur til kynna í Kaspíahafinu. Hann finnst þó einnig í nokkrum stórfljótum Rússlands, svo sem Volgu.

Pagophilus-ættkvíslin

Einungis vöðuselurinn (Pagophilus groenlandicus) telst til ættkvíslarinnar. Hann er algengur flækingur hér við land en kæpir venjulega við vesturströnd Kanada og austurströnd Grænlands, allt norður í Íshafið.

Histriophoca-ættkvíslin

Beltanóri (Histriophoca fasciata) er norðurheimskautstegund sem finnst í Norður-Kyrrahafi og á Beringssundi allt suður til Okhotsk-hafs við Kamtchatka-skaga.

Útselur (Halichoerus)

Útselurinn (Halichoerus grypus) er eina tegund ættkvíslarinnar. Hann finnst meðal annars hér við land en einnig í Eystrasalti, við Bretlandseyjar og í Barentshafi. Deilitegund hans er einnig að finna undan ströndum Bandaríkjanna og Kanada.

Blöðruselur (Cystophora)

Blöðruselur (Cystophora cristata) finnst einkum í köldum sjó og flækjast reglulega hingað til lands líkt og hringanóri, vöðuselur og kampselur.

Eyrnaselir

Eyrnaselir greinast í loðseli annars vegar og sæljón hins vegar. Loðselir skiptast í tvær ættkvíslir, Callorhinus eða sæbirni og Arctocephalus. Tegundir þessara ættkvísla lifa fjarri Íslandsströndum og eru því lítt þekktar hér á landi. Til fyrrnefndu ættkvíslarinnar tilheyrir aðeins ein tegund Callorhinus ursinus en hann nefnist alaskaloðselur eða sæbjörn á íslensku. Hann minnir nokkuð á fjarskylda ættingja sína á landi, brúnbirnina, og lifir helst undan ströndum Alaska.

Hin ættkvíslin er öllu tegundaríkari en til hennar teljast átta tegundir. Þær hafa allar takmarkaða útbreiðslu á suðurhveli jarðar, til dæmis undan ströndum Suður-Ameríku, Eyjaálfu og Suðurhluta Afríku.

Sæljón greinast í fimm ættkvíslir og er aðeins ein tegund sem tilheyrir hverri ættkvísl að einni ættvísl undanskilinni þar sem er að finna tvær tegundir. Þetta eru stellarssæljón (Eumetopias jubatus) sem finnst í norðanverðu Kyrrahafi. Maorísæljón (Phocarctos hookeri) sem lifir undan ströndum Nýja-Sjálands. Kaliforníusæljón (Zalophus californianus) halda til undan ströndum vesturhluta Bandaríkjanna. Galapagossæljón (Zalophus wollebaeki) sem lifir eins og nafnið gefur til kynna við Galapagos-eyjar. Patagóníusæljón (Otaria flavescens) lifa í sjónum við suðurhluta Suður-Ameríku, Chile, Perú og Argentínu. Kengúrusæljón (Neophoca cinerea) finnst svo við strendur Ástralíu.


Athugasemd ritstjórnar: Þetta svar var uppfært 1. maí 2017 en þá var annars vegar umfjöllun um ross-sel bætt við og hins vegar var fimm af sjö tegundum sem áður tilheyrðu Phoca-ættkvíslinni færðar undir þrjár aðrar ættkvíslir, það er Pusa-, Pagophilus- og Histriophoca-ættkvíslirnar....