Sólin Sólin Rís 09:06 • sest 17:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 06:24 • Sest 16:46 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:17 • Síðdegis: 17:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:24 • Síðdegis: 23:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 09:06 • sest 17:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 06:24 • Sest 16:46 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:17 • Síðdegis: 17:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:24 • Síðdegis: 23:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað getið þið sagt mér um höfrunga?

Jón Már Halldórsson

Höfrungar (Delphinidae) eru ein af fimm ættum tannhvala (Odontoceti). Hinar fjórar eru vatnahöfrungar (Platanistidae), nefjungar (Ziphiidae), hvíthveli (Monodontidae) og búrhveli (Physeteridae). Höfrungar eru fjölskipaðasta ættin, í dag eru þekktar 32 tegundir höfrunga innan 17 ættkvísla.

Flestir höfrungar eru smáir að vexti í samanburði við aðra hvali eða innan við þrír metrar á lengd. Háhyrningar (Orchinus orca) sem eru langstærstir höfrunga geta þó orðið 10 metrar á lengd og vegið rúmlega 7 tonn.



Commerson höfrungurinn (Cephalorhynchus commersoni) er ein minnsta höfrungategundin, aðeins um 1,5 metrar á lengd. Hér sést hann í samanburði við manneskju.

Höfrungar finnast á öllum hafsvæðum heims, í ósum stórfljóta og jafnvel í ám. Þeir eru algengastir í grunnum sjó eða við yfirborð sjávar en stunda ekki mikla djúpköfun líkt og reyðarhvalir eða aðrir hópar tannhvala. Þeir eru afar hraðsyndir og geta því elt uppi hraðfara sjávarlífverur eins og fiska og smokkfiska. Háhyrningar lifa einnig á ýmsum sjávarspendýrum svo sem selum og öðrum hvölum, til dæmis öðrum höfrungum.

Flestar tegundir höfrunga eru félagslyndar og sjást oft í stórum hópum, jafnvel þúsundir dýra. Þeir virðast vera greindar skepnur og samvinna á milli þeirra er oft mikil svo sem við veiðar. Þekkt er meðal höfrunga að þegar einn meðlimur hópsins særist eða veikist þá fær hann hjálp frá öðrum í hópnum. Leikgleði er einnig lýsandi fyrir höfrunga til dæmis þegar þeir fylgja eftir skipum og „fíflast“ meðal kafara. Höfrungar aðlagast breytingum afar vel og hafa sýnt einstakan sveigjanleika gagnvart breytingum í umhverfi sínu.

Hér á eftir verður fjallað um flestar ættkvíslir höfrunga en farið hratt yfir sögu sökum takmarkaðs rýmis.

Höfrungur eða hundfiskur (Delphinus-ættkvíslin)

Svokölluð frumtegund höfrunga eða hinn eiginlegi höfrungur er Delphinus delphis sem tilheyrir Delphinus-ættkvíslinni. Hann er enn tiltölulega algengur í Miðjarðarhafi þó svo að heildarstofnstærðin þar hafi minnkað um helming á síðustu 40 árum. Hann finnst einnig í Atlantshafi. Grikkir til forna mátu hann svo mikils að hann var talinn ímynd guðsins Apollons. Höfrungar af þessari ættkvísl eru um 2,3-2,6 metrar á lengd og geta orðið allt að 135 kg að þyngd.



Nefhöfrungur (Steno-ættkvíslin)

Aðeins ein tegund tilheyrir þessari ættkvísl, það er nefhöfrungur (Steno bredaensis). Nefhöfrungar eru á bilinu 1,75-2,75 m á lengd og lifa í hlýjum sjó um allan heim. Þeir eru algengir við Hawaii þar sem vöður hundraða dýra sjást stöku sinnum.

Kroppinbakur (Sousa-ættkvíslin)

Tvær tegundir hlýsjávarhöfrunga tilheyra ættkvísl kroppinbaka, kryppuhöfrungur (Sousa chinensis) sem finnst á stórum svæðum á Indlandshafi og hnúðhöfrungur (Sousa teuzii) sem lifir undan ströndum Vestur-Afríku og í Gíneuflóa. Báðar þessar tegundir eru um 2,5 m á lengd og vega um 150 kg. Bæði kryppuhöfrungur og hnúðhöfrungur eru algengastir í grunnum strandsjó, í árósum og nærri leiruviðarfenjum. Kryppuhöfrungar eru einstakir að því leyti að þeir geta farið yfir þurrt land án þess að fara sér að voða þegar þeir velta sér yfir sandeyrar.

Flóðahöfrungur (Sotalia-ættkvíslin)

Til þessarar ættkvíslar telst ein tegund sem á íslensku er kölluð flóðahöfrungur (Sotalia fluviatilis). Hann er léttastur allra hvala eða aðeins um 30 kg að þyngd og 1,9 m á lengd. Flóðahöfrungur finnst við Vestur–Indíur, meðfram allri strönd Panama og norðurströnd Suður-Ameríku. Hann sækir mjög í árósa og ferskvötn en finnst einnig í stórfljótum álfunnar.

Skoppari (Stenella-ættkvíslin)

Fimm tegundir höfrunga tilheyra svokölluðum skoppurum eða Stenella-ættkvíslinni. Þeir draga nafn sitt af endalausum stökkum upp úr sjónum og er sérstaklega skemmtilegt að sjá þá stökkva lóðrétt upp í loftið. Þetta atferli hefur gefið þeim viðurnefnið 'spinners' (skopparar) í Bandaríkjunum.

Skopparar eru algengir í hitabeltis- og heittempruðum sjó og geta vöður þeirra verið gríðarlega stórar. Skopparar fylgja oft túnfisktorfum en það getur verið þeim dýrkeypt þar sem þúsundir þeirra drepast árlega í túnfisknetum. Mikill tími bandarískra túnfiskveiðimanna fer í að losa og fleygja útbyrðis hræjum skoppara sem flækst hafa í netum og drepist. Þrátt fyrir að tugir þúsunda höfrunga drepist af þessum völdum hafa bandarísk yfirvöld verið andsnúin skynsamlegri nýtingu hvala svo sem kunnugt er.



Trjónuskoppari (Stenella longirostris) er sennilega sú tegund skoppara sem er útbreiddust. Hann lifir í hlýsjónum í Atlantshafi, Kyrrahafi og Indlandshafi og greinist í fjölda deilitegunda. Heildarstofnstærð hans er líklega á bilinu 1,5-2 milljónir einstaklinga. Trjónuskopparar eru 1,3-2,1 metri á lengd og 45-75 kg að þyngd.

Malajahöfrungur (Lagenodolphis-ættkvíslin)

Ein tegund tilheyrir Langenodolphis-ættkvíslinni en það er hinn felugjarni malajahöfrungur (Lagenodolphis hosei). Seint á 19. öld fannst hauskúpa af malajahöfrungi á strönd í Borneó en áratugi á eftir var næsta lítið vitað um höfrunga af þessa tegund enda leggja þeir yfirleitt á flótta verði þeir varir við báta. Tegundinni var ekki lýst fyrr en 1956. Vitneskja jókst þó nokkuð þegar nokkur dýr voru handsömuð og færð í sædýrasafn árið 1971. Nú er vitað að þessi höfrungur er frekar algengur í hlýjum sjó allt í kringum jörðina. Malajahöfrungar eru 2-2,65 metrar á lengd og geta vegið allt að 200 kg.

Hnýðhöfrungur (Lagenorhynchus-ættkvíslin)

Sex tegundir kulsækinna höfrunga tilheyra þessari ættkvísl og eru tvær þeirra algengar á hafsvæðinu kringum Ísland, það eru hnýðingur (Lagenorhynchus albirostris) og leiftur (Lagenorhynchus acutus). Hinar fjórar tegundirnar eru skelluhnýðir (Lagenorhynchus obliquidens) sem er algengur nyrst í Kyrrahafi og minnir um margt á leifturinn og hefur svipaða stöðu í vistkerfinu, dökkvahnýðir (Lagenorhynchus obscurus), ránarhnýðir (Lagenorhynchus australis) og Lagenorhynchus cruciger. Þrjár síðastnefndu tegundirnar lifa á suðurhveli jarðar og virðast ekki vera eins fjölskipaðar og norrænu tegundirnar.

Hnýðhöfrungar eru ólíkir flestum öðrum höfrungum þar sem þeir hafa ekki ílanga trjónu fremst heldur er „nef“ þeirra hnúðlaga. Þeir eru 1,6-3 metrar á lengd og er þyngd þeirra mjög breytileg eftir tegundum, frá því innan við 100 kg upp í tæplega 300 kg.

Tunglhyrningur (Feresa-ættkvíslin)

Aðeins ein tegund tilheyrir Feresa-ættkvíslinni en það er Feresa attenuata sem nefnd hefur verið litli háhyrningur á íslensku. Þetta eru afar árásargjarnir höfrungar sem eru til mikilla vandræða í sædýrasöfnum þar sem þeir eru frægir fyrir að reyna að bíta bæði starfsmenn slíkra garða og aðra höfrunga. Þeir eru um 2,7 m á lengd og finnast í stórum vöðum í hlýsjó allt í kringum jörðina en þó aðallega við Hawaii og Japanseyjar.

Háhyrningsbróðir (Pseudorca-ættkvíslin)

Aðeins ein tegund er í þessari ættkvísl, Pseudorca crassidens eða háhyrningsbróðir. Tarfar tegundarinnar verða 6 metrar á lengd og eru því aðeins minni en háhyrningar. Þetta eru úthafsdýr sem éta einkum fisk og smokkfisk en vel þekkt er að þeir hópast að túnfiskveiðibátum þegar verið er að kasta dauðum höfrungum fyrir borð. Af því má ætla að lifandi höfrungar séu einnig á matseðli þeirra.

Háhyrningur (Orchinus orca)

Þegar hefur verið fjallað um háhyrninga í nokkrum svörum á Vísindavefnum og geta lesendur kynnt sér þau með því að smella hér.

Grindhvalur (Globicephala-ættkvíslin)

Tvær tegundir tilheyra ættkvísl grindhvala. Segja má að tegundin Globicephala melaena sé hinn eiginlegi grindhvalur en hann heitir öðru nafni marsvín á íslensku. Þessi tegund er algeng í Norður-Atlantshafi, meðal annars í kringum Ísland, en teygir útbreiðslu sína suður í höf. Hin tegundin hefur verið köllum flipagrind (Globicephala macrorhynchus) og lifir aðallega í hitabeltissjó. Hinn eiginlegi grindhvalur er sennilega næststærstur höfrunga en hann getur orðið um 8 metrar á lengd og þá litlu minni en háhyrningur.

Hnísa (Phocoena-ættkvíslin)

Dýrafræðinga greinir á um hvort hnísur eiga heima í ætt höfrunga eða í sérstakri ætt, hnísuætt (Phocoenidae). Þau rök sem vega þyngst eru þau að tanngerð hnísa eru annars eðlis en höfrunga þar sem tanngerð þeirra síðarnefndu er keilulaga og oddhvöss en tennur hnísa eru spaðalaga og fletjast út við oddinn. Hnísur eru 1,5-2 metrar á lengd og vega á bilinu 55-70 kg. Þær eru algengar hér við land og fara gjarnan saman í hópum þó stundum megi rekast á einstök dýr.

Aðrar ættkvíslir höfrunga sem ekki er rúm til að fjalla um hér eru flekkjahöfrungur (Cephalorhynchus-ættkvíslin), berbakur (Lissodelphis-ættkvíslin), grámi (Grampus-ættkvíslin), melónukollur (Pepanocephala-ættkvíslin) og irravaddíhöfrungur (Orcaella-ættkvíslin). Vilji lesendur Vísindavefsins fræðast frekar um þessa höfrunga eða nánar um þá sem fjallað er um hér að framan er þeim velkomið að senda inn fyrirspurnir.

Heimildir og myndir:

Höfundur

Jón Már Halldórsson

líffræðingur

Útgáfudagur

17.1.2005

Spyrjandi

Erling Reynisson, f. 1989

Tilvísun

Jón Már Halldórsson. „Hvað getið þið sagt mér um höfrunga?“ Vísindavefurinn, 17. janúar 2005, sótt 30. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=4716.

Jón Már Halldórsson. (2005, 17. janúar). Hvað getið þið sagt mér um höfrunga? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=4716

Jón Már Halldórsson. „Hvað getið þið sagt mér um höfrunga?“ Vísindavefurinn. 17. jan. 2005. Vefsíða. 30. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=4716>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað getið þið sagt mér um höfrunga?
Höfrungar (Delphinidae) eru ein af fimm ættum tannhvala (Odontoceti). Hinar fjórar eru vatnahöfrungar (Platanistidae), nefjungar (Ziphiidae), hvíthveli (Monodontidae) og búrhveli (Physeteridae). Höfrungar eru fjölskipaðasta ættin, í dag eru þekktar 32 tegundir höfrunga innan 17 ættkvísla.

Flestir höfrungar eru smáir að vexti í samanburði við aðra hvali eða innan við þrír metrar á lengd. Háhyrningar (Orchinus orca) sem eru langstærstir höfrunga geta þó orðið 10 metrar á lengd og vegið rúmlega 7 tonn.



Commerson höfrungurinn (Cephalorhynchus commersoni) er ein minnsta höfrungategundin, aðeins um 1,5 metrar á lengd. Hér sést hann í samanburði við manneskju.

Höfrungar finnast á öllum hafsvæðum heims, í ósum stórfljóta og jafnvel í ám. Þeir eru algengastir í grunnum sjó eða við yfirborð sjávar en stunda ekki mikla djúpköfun líkt og reyðarhvalir eða aðrir hópar tannhvala. Þeir eru afar hraðsyndir og geta því elt uppi hraðfara sjávarlífverur eins og fiska og smokkfiska. Háhyrningar lifa einnig á ýmsum sjávarspendýrum svo sem selum og öðrum hvölum, til dæmis öðrum höfrungum.

Flestar tegundir höfrunga eru félagslyndar og sjást oft í stórum hópum, jafnvel þúsundir dýra. Þeir virðast vera greindar skepnur og samvinna á milli þeirra er oft mikil svo sem við veiðar. Þekkt er meðal höfrunga að þegar einn meðlimur hópsins særist eða veikist þá fær hann hjálp frá öðrum í hópnum. Leikgleði er einnig lýsandi fyrir höfrunga til dæmis þegar þeir fylgja eftir skipum og „fíflast“ meðal kafara. Höfrungar aðlagast breytingum afar vel og hafa sýnt einstakan sveigjanleika gagnvart breytingum í umhverfi sínu.

Hér á eftir verður fjallað um flestar ættkvíslir höfrunga en farið hratt yfir sögu sökum takmarkaðs rýmis.

Höfrungur eða hundfiskur (Delphinus-ættkvíslin)

Svokölluð frumtegund höfrunga eða hinn eiginlegi höfrungur er Delphinus delphis sem tilheyrir Delphinus-ættkvíslinni. Hann er enn tiltölulega algengur í Miðjarðarhafi þó svo að heildarstofnstærðin þar hafi minnkað um helming á síðustu 40 árum. Hann finnst einnig í Atlantshafi. Grikkir til forna mátu hann svo mikils að hann var talinn ímynd guðsins Apollons. Höfrungar af þessari ættkvísl eru um 2,3-2,6 metrar á lengd og geta orðið allt að 135 kg að þyngd.



Nefhöfrungur (Steno-ættkvíslin)

Aðeins ein tegund tilheyrir þessari ættkvísl, það er nefhöfrungur (Steno bredaensis). Nefhöfrungar eru á bilinu 1,75-2,75 m á lengd og lifa í hlýjum sjó um allan heim. Þeir eru algengir við Hawaii þar sem vöður hundraða dýra sjást stöku sinnum.

Kroppinbakur (Sousa-ættkvíslin)

Tvær tegundir hlýsjávarhöfrunga tilheyra ættkvísl kroppinbaka, kryppuhöfrungur (Sousa chinensis) sem finnst á stórum svæðum á Indlandshafi og hnúðhöfrungur (Sousa teuzii) sem lifir undan ströndum Vestur-Afríku og í Gíneuflóa. Báðar þessar tegundir eru um 2,5 m á lengd og vega um 150 kg. Bæði kryppuhöfrungur og hnúðhöfrungur eru algengastir í grunnum strandsjó, í árósum og nærri leiruviðarfenjum. Kryppuhöfrungar eru einstakir að því leyti að þeir geta farið yfir þurrt land án þess að fara sér að voða þegar þeir velta sér yfir sandeyrar.

Flóðahöfrungur (Sotalia-ættkvíslin)

Til þessarar ættkvíslar telst ein tegund sem á íslensku er kölluð flóðahöfrungur (Sotalia fluviatilis). Hann er léttastur allra hvala eða aðeins um 30 kg að þyngd og 1,9 m á lengd. Flóðahöfrungur finnst við Vestur–Indíur, meðfram allri strönd Panama og norðurströnd Suður-Ameríku. Hann sækir mjög í árósa og ferskvötn en finnst einnig í stórfljótum álfunnar.

Skoppari (Stenella-ættkvíslin)

Fimm tegundir höfrunga tilheyra svokölluðum skoppurum eða Stenella-ættkvíslinni. Þeir draga nafn sitt af endalausum stökkum upp úr sjónum og er sérstaklega skemmtilegt að sjá þá stökkva lóðrétt upp í loftið. Þetta atferli hefur gefið þeim viðurnefnið 'spinners' (skopparar) í Bandaríkjunum.

Skopparar eru algengir í hitabeltis- og heittempruðum sjó og geta vöður þeirra verið gríðarlega stórar. Skopparar fylgja oft túnfisktorfum en það getur verið þeim dýrkeypt þar sem þúsundir þeirra drepast árlega í túnfisknetum. Mikill tími bandarískra túnfiskveiðimanna fer í að losa og fleygja útbyrðis hræjum skoppara sem flækst hafa í netum og drepist. Þrátt fyrir að tugir þúsunda höfrunga drepist af þessum völdum hafa bandarísk yfirvöld verið andsnúin skynsamlegri nýtingu hvala svo sem kunnugt er.



Trjónuskoppari (Stenella longirostris) er sennilega sú tegund skoppara sem er útbreiddust. Hann lifir í hlýsjónum í Atlantshafi, Kyrrahafi og Indlandshafi og greinist í fjölda deilitegunda. Heildarstofnstærð hans er líklega á bilinu 1,5-2 milljónir einstaklinga. Trjónuskopparar eru 1,3-2,1 metri á lengd og 45-75 kg að þyngd.

Malajahöfrungur (Lagenodolphis-ættkvíslin)

Ein tegund tilheyrir Langenodolphis-ættkvíslinni en það er hinn felugjarni malajahöfrungur (Lagenodolphis hosei). Seint á 19. öld fannst hauskúpa af malajahöfrungi á strönd í Borneó en áratugi á eftir var næsta lítið vitað um höfrunga af þessa tegund enda leggja þeir yfirleitt á flótta verði þeir varir við báta. Tegundinni var ekki lýst fyrr en 1956. Vitneskja jókst þó nokkuð þegar nokkur dýr voru handsömuð og færð í sædýrasafn árið 1971. Nú er vitað að þessi höfrungur er frekar algengur í hlýjum sjó allt í kringum jörðina. Malajahöfrungar eru 2-2,65 metrar á lengd og geta vegið allt að 200 kg.

Hnýðhöfrungur (Lagenorhynchus-ættkvíslin)

Sex tegundir kulsækinna höfrunga tilheyra þessari ættkvísl og eru tvær þeirra algengar á hafsvæðinu kringum Ísland, það eru hnýðingur (Lagenorhynchus albirostris) og leiftur (Lagenorhynchus acutus). Hinar fjórar tegundirnar eru skelluhnýðir (Lagenorhynchus obliquidens) sem er algengur nyrst í Kyrrahafi og minnir um margt á leifturinn og hefur svipaða stöðu í vistkerfinu, dökkvahnýðir (Lagenorhynchus obscurus), ránarhnýðir (Lagenorhynchus australis) og Lagenorhynchus cruciger. Þrjár síðastnefndu tegundirnar lifa á suðurhveli jarðar og virðast ekki vera eins fjölskipaðar og norrænu tegundirnar.

Hnýðhöfrungar eru ólíkir flestum öðrum höfrungum þar sem þeir hafa ekki ílanga trjónu fremst heldur er „nef“ þeirra hnúðlaga. Þeir eru 1,6-3 metrar á lengd og er þyngd þeirra mjög breytileg eftir tegundum, frá því innan við 100 kg upp í tæplega 300 kg.

Tunglhyrningur (Feresa-ættkvíslin)

Aðeins ein tegund tilheyrir Feresa-ættkvíslinni en það er Feresa attenuata sem nefnd hefur verið litli háhyrningur á íslensku. Þetta eru afar árásargjarnir höfrungar sem eru til mikilla vandræða í sædýrasöfnum þar sem þeir eru frægir fyrir að reyna að bíta bæði starfsmenn slíkra garða og aðra höfrunga. Þeir eru um 2,7 m á lengd og finnast í stórum vöðum í hlýsjó allt í kringum jörðina en þó aðallega við Hawaii og Japanseyjar.

Háhyrningsbróðir (Pseudorca-ættkvíslin)

Aðeins ein tegund er í þessari ættkvísl, Pseudorca crassidens eða háhyrningsbróðir. Tarfar tegundarinnar verða 6 metrar á lengd og eru því aðeins minni en háhyrningar. Þetta eru úthafsdýr sem éta einkum fisk og smokkfisk en vel þekkt er að þeir hópast að túnfiskveiðibátum þegar verið er að kasta dauðum höfrungum fyrir borð. Af því má ætla að lifandi höfrungar séu einnig á matseðli þeirra.

Háhyrningur (Orchinus orca)

Þegar hefur verið fjallað um háhyrninga í nokkrum svörum á Vísindavefnum og geta lesendur kynnt sér þau með því að smella hér.

Grindhvalur (Globicephala-ættkvíslin)

Tvær tegundir tilheyra ættkvísl grindhvala. Segja má að tegundin Globicephala melaena sé hinn eiginlegi grindhvalur en hann heitir öðru nafni marsvín á íslensku. Þessi tegund er algeng í Norður-Atlantshafi, meðal annars í kringum Ísland, en teygir útbreiðslu sína suður í höf. Hin tegundin hefur verið köllum flipagrind (Globicephala macrorhynchus) og lifir aðallega í hitabeltissjó. Hinn eiginlegi grindhvalur er sennilega næststærstur höfrunga en hann getur orðið um 8 metrar á lengd og þá litlu minni en háhyrningur.

Hnísa (Phocoena-ættkvíslin)

Dýrafræðinga greinir á um hvort hnísur eiga heima í ætt höfrunga eða í sérstakri ætt, hnísuætt (Phocoenidae). Þau rök sem vega þyngst eru þau að tanngerð hnísa eru annars eðlis en höfrunga þar sem tanngerð þeirra síðarnefndu er keilulaga og oddhvöss en tennur hnísa eru spaðalaga og fletjast út við oddinn. Hnísur eru 1,5-2 metrar á lengd og vega á bilinu 55-70 kg. Þær eru algengar hér við land og fara gjarnan saman í hópum þó stundum megi rekast á einstök dýr.

Aðrar ættkvíslir höfrunga sem ekki er rúm til að fjalla um hér eru flekkjahöfrungur (Cephalorhynchus-ættkvíslin), berbakur (Lissodelphis-ættkvíslin), grámi (Grampus-ættkvíslin), melónukollur (Pepanocephala-ættkvíslin) og irravaddíhöfrungur (Orcaella-ættkvíslin). Vilji lesendur Vísindavefsins fræðast frekar um þessa höfrunga eða nánar um þá sem fjallað er um hér að framan er þeim velkomið að senda inn fyrirspurnir.

Heimildir og myndir:...