Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvernig er hægt að vita að eldgos sé yfirvofandi?

Freysteinn Sigmundsson, Magnús Tumi Guðmundsson og Sigurður Steinþórsson

Upprunalegu spurningarnar hljóðuðu svona:
Hvaða ár kemur næst eldgos? Eru væntanleg eldgos á Íslandi?

Eldgos gera oft og tíðum boð á undan sér. Aukin jarðskjálftavirkni, landris og breytingar á jarðhita og gasútstreymi eru alltíðir fyrirboðar eldgosa. Ekkert er þó algilt í því efni.

Sum eldfjöll gjósa án merkjanlegs langvarandi aðdraganda. Fyrirboðar tengjast gjarna söfnun kviku í kvikuhólf. Slíkt getur varað í nokkur ár eða jafnvel miklu lengur, áður en eldgos verður. Með vaxand þrýstingi getur svo kvikuhólfið brostið. Rás eða gangur myndast í jarðskorpunni sem kvika streymir um, og gos hefst ef slík rás nær til yfirborðs. Það getur gerst á nokkrum tugum mínútna eða klukkustundum.

Mikil jarðskjáftavirkni ásamt færslum og aflögun jarðskorpunnar verður samfara myndun ganga í efsta hluta hennar. Virknin greinist oft vel með síritandi mælitækjum. Það má kalla skammtímafyrirboða eldgoss. Ef vel tekst til við mælingu og túlkun á slíkri atburðarás, má vara við yfirvofandi eldgosi.

Aukin skjálftavirkni í Bárðarbungu var einn fyrirboða eldgossins í Holuhrauni síðla sumars 2014.

Verði langvarandi kvikusöfnun undir eldfjalli áður en kvikuhólf brestur, er hins vegar rætt um langtímafyrirboða. Talað er um óróleika í eldfjöllum þegar óvenjuleg hegðun kemur fram, eins og aukin jarðskjálftavirkni. Ljóst er að réttur skilningur á slíkum óróleika getur skipt sköpum við mat á aðstæðum.

Það eykur vanda jarðvísindamanna, sem vilja vara við yfirvofandi eldgosi, að atburðarás sem líkist slíkum fyrirboða, endar oft án þess að gjósi. Þannig getur til dæmis farið svo að kvikustreymi að neðan inn í kvikuhólf hætti. Þá eykst þrýstingur ekki frekar. Mikil spenna getur verið í rótum eldstöðvarinnar, þótt hún nægi ekki til að koma af stað eldgosi.

Nákvæmar mælingar á hegðun eldfjalla eru forsenda þess að greina aðdraganda eldgos. Hér á landi skiptir mælakerfi Veðurstofu Íslands mestu. Veðurstofan rekur net jarðskjáftamæla sem geta numið jarðskjálfta alls staðar á landinu, en þó með mismunandi næmi eftir fjarlægð næstu mæla frá upptökum. Einnig rekur Veðurstofan net þenslumæla á Suðurlandi sem fylgjast með aflögun jarðskorpunnar, og í samvinnu við fleiri stofnanir stjórnar Veðurstofan rekstri á neti GPS-landmælingatækja sem skrá gögn samfellt.

Veðurstofan vaktar einnig vatnsrennsli frá jöklum landsins og hefur sett upp allmarga sjálfvirka mæla sem senda upplýsingar um vatnshæð, vatnshita og rafleiðni. Þessar mælingar eru einkum mikilvægar umhverfis Kötlu, í Skeiðará og Jökulsá á Fjöllum. Þá sinnir Jarðvísindastofnun Háskólans umfangsmiklum mælingum og rannsóknum á jarðskorpuhreyfingum og jarðskjálftum. Stofnunin sér að auki um eftirlit með yfirborði Mýrdalsjökuls í samvinnu við Flugmálastjórn og heimamenn í Mýrdal til að fylgjast með breytingum á sigkötlum sem eru vísbendingar um jarðhitabreytingar.

Mynd:


Þetta svar er úr bókinni Náttúruvá á Íslandi: Eldgos og jarðskjálftar og birt með góðfúslegu leyfi.

Höfundar

Freysteinn Sigmundsson

Norræna eldfjallasetrinu, Jarðvísindastofnun Háskólans

Magnús Tumi Guðmundsson

prófessor í jarðeðlisfræði við HÍ

Sigurður Steinþórsson

prófessor emeritus

Útgáfudagur

3.10.2014

Spyrjandi

Harpa Marín Þórarinsdóttir, Reynir Hans Reynisson

Tilvísun

Freysteinn Sigmundsson, Magnús Tumi Guðmundsson og Sigurður Steinþórsson. „Hvernig er hægt að vita að eldgos sé yfirvofandi?“ Vísindavefurinn, 3. október 2014, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=68164.

Freysteinn Sigmundsson, Magnús Tumi Guðmundsson og Sigurður Steinþórsson. (2014, 3. október). Hvernig er hægt að vita að eldgos sé yfirvofandi? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=68164

Freysteinn Sigmundsson, Magnús Tumi Guðmundsson og Sigurður Steinþórsson. „Hvernig er hægt að vita að eldgos sé yfirvofandi?“ Vísindavefurinn. 3. okt. 2014. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=68164>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvernig er hægt að vita að eldgos sé yfirvofandi?
Upprunalegu spurningarnar hljóðuðu svona:

Hvaða ár kemur næst eldgos? Eru væntanleg eldgos á Íslandi?

Eldgos gera oft og tíðum boð á undan sér. Aukin jarðskjálftavirkni, landris og breytingar á jarðhita og gasútstreymi eru alltíðir fyrirboðar eldgosa. Ekkert er þó algilt í því efni.

Sum eldfjöll gjósa án merkjanlegs langvarandi aðdraganda. Fyrirboðar tengjast gjarna söfnun kviku í kvikuhólf. Slíkt getur varað í nokkur ár eða jafnvel miklu lengur, áður en eldgos verður. Með vaxand þrýstingi getur svo kvikuhólfið brostið. Rás eða gangur myndast í jarðskorpunni sem kvika streymir um, og gos hefst ef slík rás nær til yfirborðs. Það getur gerst á nokkrum tugum mínútna eða klukkustundum.

Mikil jarðskjáftavirkni ásamt færslum og aflögun jarðskorpunnar verður samfara myndun ganga í efsta hluta hennar. Virknin greinist oft vel með síritandi mælitækjum. Það má kalla skammtímafyrirboða eldgoss. Ef vel tekst til við mælingu og túlkun á slíkri atburðarás, má vara við yfirvofandi eldgosi.

Aukin skjálftavirkni í Bárðarbungu var einn fyrirboða eldgossins í Holuhrauni síðla sumars 2014.

Verði langvarandi kvikusöfnun undir eldfjalli áður en kvikuhólf brestur, er hins vegar rætt um langtímafyrirboða. Talað er um óróleika í eldfjöllum þegar óvenjuleg hegðun kemur fram, eins og aukin jarðskjálftavirkni. Ljóst er að réttur skilningur á slíkum óróleika getur skipt sköpum við mat á aðstæðum.

Það eykur vanda jarðvísindamanna, sem vilja vara við yfirvofandi eldgosi, að atburðarás sem líkist slíkum fyrirboða, endar oft án þess að gjósi. Þannig getur til dæmis farið svo að kvikustreymi að neðan inn í kvikuhólf hætti. Þá eykst þrýstingur ekki frekar. Mikil spenna getur verið í rótum eldstöðvarinnar, þótt hún nægi ekki til að koma af stað eldgosi.

Nákvæmar mælingar á hegðun eldfjalla eru forsenda þess að greina aðdraganda eldgos. Hér á landi skiptir mælakerfi Veðurstofu Íslands mestu. Veðurstofan rekur net jarðskjáftamæla sem geta numið jarðskjálfta alls staðar á landinu, en þó með mismunandi næmi eftir fjarlægð næstu mæla frá upptökum. Einnig rekur Veðurstofan net þenslumæla á Suðurlandi sem fylgjast með aflögun jarðskorpunnar, og í samvinnu við fleiri stofnanir stjórnar Veðurstofan rekstri á neti GPS-landmælingatækja sem skrá gögn samfellt.

Veðurstofan vaktar einnig vatnsrennsli frá jöklum landsins og hefur sett upp allmarga sjálfvirka mæla sem senda upplýsingar um vatnshæð, vatnshita og rafleiðni. Þessar mælingar eru einkum mikilvægar umhverfis Kötlu, í Skeiðará og Jökulsá á Fjöllum. Þá sinnir Jarðvísindastofnun Háskólans umfangsmiklum mælingum og rannsóknum á jarðskorpuhreyfingum og jarðskjálftum. Stofnunin sér að auki um eftirlit með yfirborði Mýrdalsjökuls í samvinnu við Flugmálastjórn og heimamenn í Mýrdal til að fylgjast með breytingum á sigkötlum sem eru vísbendingar um jarðhitabreytingar.

Mynd:


Þetta svar er úr bókinni Náttúruvá á Íslandi: Eldgos og jarðskjálftar og birt með góðfúslegu leyfi.

...