Hvers vegna býr maður á Íslandi en í Hollandi, á Ítalíu og í Ástralíu? Og hvers vegna í Ólafsvík en á Hólmavík?Algeng málvenja er að nota á um stærri eyjar en í um lönd. Til dæmis er sagt á Íslandi, á Grænlandi, á Bretlandseyjum, á Korsíku, á Sikiley, á Borgundarhólmi, en í Danmörku, í Noregi, í Þýskalandi, í Hollandi, í Belgíu, í Frakklandi, í Grikklandi, í Tyrklandi, í Egyptalandi. Ekki er þessi regla þó algild þar sem sagt er til dæmis í Færeyjum en á Ítalíu. Hér innanlands er það almenn málvenja að nota í með heitum eyja. Sagt er í Viðey, í Papey, í Þerney, í Grímsey, í Vestmannaeyjum, í Flatey.
Varðandi kaupstaði og bæi fer það nokkuð eftir landshlutum hvað tíðkast. Á Suður- og Vesturlandi er í algengast, til dæmis í Hveragerði, í Grindavík, í Sandgerði, í Garði, í Keflavík, í Hafnarfirði, í Kópavogi, í Reykjavík, í Borgarnesi, í Stykkishólmi, í Ólafsvík. Undantekning er á Akranesi. Á Norðvestur- og Norðurlandi er á algengast, til dæmis á Ísafirði, á Hólmavík, á Sauðárkróki, á Blönduósi, á Akureyri, á Dalvík. Hins vegar er sagt í Bolungarvík og í Súðavík. Engar reglur af þessu tagi eru án undantekninga. Almenn málvenja skapast og ræður hún mestu um notkun forsetninganna. Frekara lesefni á Vísindavefnum eftir sama höfund:
- Hvenær á að nota í og hvenær á með staðanöfnum?
- Á að segja: „Að leggja að velli“/„að leggja af velli“; „að gefnu tilefni“/„af gefnu tilefni“; „að leggja að mörkum“/„að leggja af mörkum“?
- Hvort segir maður: „Ég keyrði í hliðina á bílnum,“ eða: „Ég keyrði á hliðina á bílnum?“
- Grunnur frá Landmælingum Íslands.