Tveimur öldum síðar virðist komin föst byggð í Grímsey. Árið 1222 hrökklaðist Guðmundur biskup Arason þangað með lið sitt eftir að menn hans höfðu drepið Tuma, son Sighvats Sturlusonar, héraðshöfðingja í Eyjafirði. Sighvatur og Sturla sonur hans sóttu biskup í eyna og sigruðu menn hans í bardaga. Í tengslum við þá atburði er talað um kirkju og kirkjugarð í Grímsey. Í sögu Arons Hjörleifssonar, eins af fylgdarmönnum biskups, segir frá manni sem Gnúpur hét, „er þá bjó í Grímseyju ok var inn mesti maðr at mannvirðingu af bóndum.“ Tveimur áratugum síðar börðust „Ketill Gnúpsson ok þeir Grímseyingar“ með Kolbeini unga Arnórssyni í Flóabardaga og „höfðu enn mikit skip“. Á 19. öld var skráð sögn um hvernig byggð hófst í Grímsey. Þar segir að lengi hafi engum verið leyft að setjast þar að vegna þess að eyjan hafi þótt svo gagnsöm til eggjatekju og annarra hlunninda. Svo hafi hópur Þingeyinga sest þar að í leyfisleysi og byggt sér bæi. Þegar vermenn komu þangað úr Eyjafirði vörnuðu eyjarskeggjar þeim landgöngu og felldu þá alla í bardaga. Ómögulegt er að dæma um sannleiksgildi þessarar sögu. En ásókn fólks að hefja fasta búsetu í Grímsey hefur vafalaust aukist eftir því sem fólki fjölgaði í landinu og minna varð um jarðnæði. Af þessu fara engar áreiðanlegar sögur, og því getur hver og einn ályktað það sem honum þykir sennilegast. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Hvað er búið á mörgum eyjum við Ísland? eftir EDS
- Hver er stærsta eyjan við Ísland? eftir Emilíu Dagnýju Sveinbjörnsdóttur
- Grímsey og Grímseyingar. Íbúar og saga. Ritstjóri: Helgi Daníelsson. Akranesi, Akrafjallsútgáfan, 2003.
- Íslenzk fornrit I. Íslendingabók. Landnámabók. Jakob Benediktsson gaf út. Reykjavík, Fornritafélag, 1968.
- Íslenzk fornrit X. Eyfirðinga sögur. Jónas Kristjánsson gaf út. Reykjavík, Fornritafélag, 1956.
- Íslenzk fornrit X. Ljósvetninga saga. Björn Sigfússon gaf út. Reykjavík, Fornritafélag, 1940.
- Pétur Sigurgeirsson: Grímsey. Byggð við Norðurheimskautsbaug. Reykjavík, Leiftur, 1971.
- Sturlunga saga. Jón Jóhannesson, Magnús Finnbogason og Kristján Eldjárn sáu um útgáfuna. I–II. Reykjavík, Sturlunguútgáfan, 1946.
- Mats: Íslandsmyndasafn © Mats Wibe Lund. Notuð með góðfúslegu leyfi.