Hve mörgum sinnum er Grænland stærra en Ísland?Á landakortum virðist Grænland oft vera mjög stórt, jafnvel stærra en Ástalía sem þó er talin heimsálfa á meðan Grænland er eyja. Það kemur því kannski einhverjum á óvart að flatarmál Grænland er „aðeins“ 2.166.086 km2 sem er um 0,42% af heildarflatarmáli jarðar og 1,45% af þurrlendi jarðar.
Ástæðan fyrir því hversu stórt Grænland (og reyndar Ísland líka) virðist vera á kortum er sú að þegar hvelft yfirborð jarðar er yfirfært á sléttan flöt koma alltaf fram einhverjar skekkjur í flatarmáli, fjarlægðum eða hornum á kortinu. Algengt er að heimskort sýni svæðin lengst frá miðbaug óeðlilega stór, þar með talið Grænland. Hnattlíkön (og reyndar sum landakort) sýna hins vegar rétt stærðarhlutföll. Þó Grænland sé ekki eins stórt og það er gjarnan sýnt á kortum þá er það gríðarstórt í samanburði við næsta nágranna þess í austri, litla Ísland. Flatarmál Íslands er um 103.000 km2 og því er Grænland rúmlega 21 sinni stærra. Skoðið einnig: Mynd: Theodora.com