- Hvað er það sem greinir eyju frá landi?
- Hver er skilgreining á eyju? Af hverju er t.d. Grænland eyja en ekki heimsálfa?
- Af hverju er Ástralía ekki eyja?
- Er Ástralía heimsálfa eða er hún eyja?
Fyrir utan stærð þá er hægt að skoða jarðskorpuna til þess að hjálpa okkur að skilja hver er munurinn á eyju og meginlandi. Jarðskorpan er tvenns konar: meginlandsskorpa sem er 20-70 km þykk og myndar meginlöndin, og úthafsskorpa sem er að meðaltali um 10 km þykk og myndar hafsbotninn. Efnasamsetning þessara tveggja jarðskorpugerða er ekki alveg sú sama þar sem hafsbotninn er úr talsvert þyngra og málmríkara efni en meginlöndin og því eðlisþyngri. Þar sem flestar eyjar eru gerðar úr úthafsskorpu má segja að gerð jarðskorpunnar sé eitt af því sem greinir að meginland og eyju. Þetta er þó ekki án undantekninga þar sem sumar eyjar eru gerðar úr meginlandsskorpu og ættu þá samkvæmt því að teljast meginlönd. Sem dæmi má nefna Grænland, Bretland, Írland og Borgundarhólm. Fáum dettur þó sjálfsagt í hug að kalla þessar eyjar meginlönd nema þá ef vera skildi Grænland. Einnig hefur verið stungið upp á því að nota mætti svokallaða jarðskorpufleka til þess að skipta þurrlendi jarðar upp í meginlönd (og þar af leiðandi skilgreina hvaða landsvæði skuli kallast meginlönd og hver ekki). Þá er miðað við að hvert meginland tilheyri sérstökum fleka. Að sumu leyti passar ágætlega að nota flekana til þess að afmarka meginlönd. Til dæmis væri ekki hægt að skilgreina Grænland sem meginland ef þetta viðmið er notað þar sem það er ekki sér fleki heldur tilheyrir Ameríkuflekanum. Hins vegar eru ákveðin vandamál við að nota jarðskorpuflekana sem viðmið þar sem til dæmis Síbería og Alaska tilheyra sama flekanum en við tölum ekki um þessi svæði sem sama meginlandið. Fleira hefur verið nefnt til sögunnar til þess að greina á milli meginlands og eyju, til dæmis dýralíf og gróðurfar og þá rökstutt þannig að vegna lífræðilegrar eingangrunar hafi gjarnan þróast einsök flóra og fána á eyju á meðan fjölbreytileikinn sé meiri á meginlöndunum og sömu tegundir sé jafnvel að finna á fleiri en einu meginlandi. Þetta viðmið setur okkur þó í vanda þar sem dýra- og plöntulíf í Ástralíu er mjög einkennandi og því ætti Ástralía að flokkast sem eyja samkvæmt þessu. Landslag er enn einn þáttur sem nefndur hefur verið til þess að aðgreina eyju frá meginlandi. Rökin þar eru þau að meginlönd hafi mun fjölbreyttara landslag en eyjur, svo sem fjallgarða, stórar og miklar ár, sléttur og svo framvegis. Þessi aðgreining styður það að kalla Ástralíu heimsálfu og Grænland eyju þar sem landslag er óneitanlega mun fjölbreytilegra í Ástralíu. Á sama hátt hefur verið bent á menningu þegar rætt er um hvers vegna hægt er að kalla Ástralíu meginland en ekki Grænland. Í Ástralíu þróaðist mjög sérstök menning í árþúsundir en menning Grænlendinga er á ýmsan hátt svipuð menningu á heimskautasvæðum Norður-Ameríku. Af þessu má sjá að ýmislegt má nota til þess að rökstyðja hvers vegna Ástralía er meginland en Grænland eyja en það er hins vegar engin ein algild skilgreining sem hægt er að nota nema ef vera skildi stærð. Í rauninni eru hugmyndir okkar um það hvað er meginland og hvað er eyja mikið til byggðar á huglægum mælikvarða þar sem stærð skilur á milli í bland við jarðfræðilegar staðreyndir og jafnvel aðra þætti eins og náttúrfar og menningu. Heimildir og mynd:
- MadSci Network: Earth Sciences
- MadSci Network: Science History
- Earth & Sky
- Island information
- Íslensk orðabók í ritstjórn Árna Böðvarssonar. Reykjavík, Bókaútgáfa Menningarsjóðs, 1988
- The Student Zone