Karl von Frisch (1886-1982) er þekktastur fyrir rannsóknir sínar á atferli evrópsku hunangsbýflugunnar, Apus mellifera carnica. Á búgarði fjölskyldu hans í Brunnwinkl við Wolfgangsee voru nokkrar býkúpur, og Karl byrjaði að rannsaka þær á unglingsárum sínum. Doktorsritgerð hans fjallaði um það hvernig fiskar breyta um lit eftir aðstæðum og umhverfi. Einna mest mun hann hafa fengist við lítil ferskvatnssíli, straumlalla, Phoxinus, sem skipta litum eftir árstíðum, einkum karlarnir. Á þessum tíma héldu menn að flest dýr önnur en spendýr væru litblind, en með tilraunum, sem studdust við skilyrðingu, líkt og þegar Ivan Pavlov kenndi hundum að bregðast á ákveðinn máta við áreiti, tókst von Frisch að sýna fram á að fiskar greina liti. Hann komst líka að ýmsu um skynjun fiska út frá athugun á skynfærum þeirra; til dæmis uppgötvaði hann ljósnæmt svæði á hvirfli straumlalla sinna, „frumstætt, þriðja auga“, sem skýrði það að blind síli skipta litum með umhverfinu á sama hátt og þau sem sjá með tveimur augum sínum. Einnig sýndi hann fram á að fiskarnir heyra, þótt ekkert í líkamsgerð þeirra svari til ytri eða innri eyrna okkar. Heyrnarskyn fiska tengist rákinni, beggja vegna á síðum þeirra. Kunnir vísindamenn samtímans vefengdu þessar niðurstöður en tókst ekki að hrekja þær. Ekki tók betra við þegar von Frisch sýndi fram á að býflugur skynja liti. Augu skordýra eru sem kunnugt er gerólík augum okkar og annarra hryggdýra, samsett úr fjölda af litlum smáaugum eða augnpípum, sem hver greinir aðeins mjög þröngt sjónsvið. Von Frisch gerði, eins og Charles Darwin, ráð fyrir að skynjun og skynfæri dýra hefðu þróast sem aðlögun að lífsháttum þeirra, og þar með benti litskrúð ýmissa blóma, sem mörg eru háð býflugum um frævun, til þess að býflugurnar hlytu að skynja liti. Von Frisch setti fyrir býflugurnar grunnar glerskálar á mislitu undirlagi og hafði sykurlög í skálum á grunni af tilteknum lit en vatn í hinum. Með þessu komst hann að því að býflugurnar lærðu að rata á gulan, blágrænan og bláan lit. Rautt sáu þær ekki, gátu til dæmis ekki aðgreint skálar á rauðum og svörtum grunni. Síðar kom í ljós að býflugurnar greina auk þess útfjólubláa geisla, sem okkur eru ósýnilegir. Þar sem í rauðu ljósi eru lengstu bylgjur sem við sjáum, og bylgjur útfjólublárra geisla eru styttri en stystu bylgjur sem við getum greint, fjólublátt ljós, er sýnilegu litrófi býflugna hliðrað í átt að styttri bylgjum en við skynjum. Auk þess greina býflugur aðeins þá fjóra aðalliti sem nefndir hafa verið, þar sem við greinum litrófið sem órofa samfellu litbrigða frá fjólubláu yfir í rautt.
- Áttin, sem fljúga skal í, miðað við sól, kemur fram í stefnu flugunnar í beina vaggdansinum. Ef býið vaggar sér á leið beint upp er blómabreiðu að finna í sólarátt. Ef stefna vaggdansins er niður, er blómin að finna í átt beint frá sól, og halli á dansstefnunni út frá lóðlínu gefur til kynna frávik í stefnu miðað við sólarátt.
- Lengdin á vagglínunni, og þar með á lykkjunum og dansinum öllum, gefur til kynna fjarlægðina, sem fljúga skal. Því fyrirferðarmeiri sem dansinn er, þeim mun nær er áfangastaðurinn.
- Vaggið er því ákafara sem blómabreiðan er stærri og þar með meiri mat að hafa. Því meir sem leitarflugan ólmast, þeim mun fleiri býflugur taka sig upp í leit að fæðunni.
- Ýmsar greinar á netinu, svo sem ævisaga Karls von Frisch í Wikipedíu, og sjálfsævisaga, sem hann lagði fram áður en hann tók við Nóbelsverðlaunum 1973.
- Karl von Frisch. Bera bý. Íslensk þýðing eftir Jón O. Edwald með forspjalli eftir Örnólf Thorlacius. Hið íslenska bókmenntafélag 1972. Frumgerð bókarinnar, Bees: Their Vision, Chemical Senses, and Language, kom út á vegum Cornell-háskóla 1971 og er sótt í röð fyrirlestra, sem von Frisch flutti vestanhafs í boði háskólans.
- Nobelprize.org - Karl von Frisch. Sótt 21.7.2011.
- Hringdans og vaggdans: Bellarmine University - Bees and flowers. Texti íslenskaður af ritstjórn. Sótt 27.7.2011.