En viðbrögð slokkna, hverfa, deyja út. Pavlov kallaði það hömlun. Enn fremur er óhjákvæmilegt, að lífvera bregst ekki við öllu því í umhverfinu, sem gæti verkað sem áreiti. Lífveran velur úr. En með þeim hugtökum, sem hér hafa verið nefnd, smíðaði Pavlov kenningu um starf heilans sem gagnkvæm tengsl viðbragða og hömlunar. Lífverur taka við óendanlega fjölbreytilegum áreitum úr nánasta umhverfi. Þetta kallaði Pavlov fyrra merkjakerfið, og það er sameiginlegt mönnum og dýrum. En maðurinn hefur til að bera flóknara og merkingarbærara merkjakerfi. Pavlov kallaði það seinna merkjakerfið. Það hefur orðið til hjá mönnum í rás þróunar tegundarinnar og skilur menn frá dýrum. Seinna merkjakerfið er grunnur málhæfis manna: Hæfileikans til að tjá fjölbreytilegar tilfinningar og hugsanir í táknum máls og mynda. Pavlov reit:
Skynreyndir okkar og skynheildir vísa til heimsins umhverfis okkur. Þær eru hið fyrra merkjakerfi veruleikans, hlutstæð merki, en tungumálið og fyrst og fremst hreyfiáreiti, sem renna til heilabarkarins frá talfærunum, þau eru merki merkjanna, hið annað merkjakerfi.Heilinn annast flókið starf greiningar og samantektar, aðskilnaðar og alhæfingar áreita. Á þessum grunni er hægt að reisa kenningar bæði um starf taugakerfisins og um sálarlíf manna, svo og um tengsl manns við náttúru og umhverfi. Þannig hugðist Pavlov skilgreina endanlega það sem bindur hið huglæga (e. subject) og hið hlutlæga (e. object), hið sálræna og hið lífeðlisfræðilega. Pavlov reisti hús yfir rannsóknir sínar ekki allfjarri St. Pétursborg, þar sem heitir Koltushi. Þar var í miðjunni Þagnarturninn, sem hýsti hunda þá, sem notaðir voru við tilraunir. Það var sovétstjórnin, að fyrirskipan Leníns, sem gerði þetta mögulegt. Pavlov leit með velvild á febrúarbyltinguna 1917, en var ákaflega andsnúinn valdráni bolsévika. Hann lenti og í hremmingum eins og svo margir aðrir á þessum árum, þar var hungursneyð og allsherjarskortur. Árið 1920 bað Pavlov sovétstjórnina leyfis til að flytjast til útlanda, enda hafði honum borist álitleg tilboð frá Stokkhólmi og frá Bretlandi. En hann hætti við að fara í útlegð, þegar Lenín skipaði svo fyrir 1921 að Pavlov skyldi fá allt sem hann þyrfti til rannsókna, kol til að kynda húsið. Enginn hefur getað skýrt, hví Lenín fór þannig með Pavlov, samtímis því að verið var að reka rjóma menntamannastéttar Rússlands ýmist í útlegð eða dauðann. Verið getur að skýringarinnar sé að leita í því, að Lenín hafi haldið að kenning Pavlovs skyti náttúruvísindalegum stoðum undir heimspekikenningu hans sjálfs. En Pavlov leyndi aldrei neikvæðri afstöðu sinni til sovétstjórnarinnar. Á þriðja og fjórða áratug 20. aldar ritaði hann sovéskum yfirvöldum mörg bréf til að mótmæla ofbeldi og gerræði þeirra, svo og bælingu frjálsrar hugsunar. Pavlov hafði mikil áhrif á alla þróun sálfræðinnar. Það væri til dæmis erfitt að hugsa sér hinn volduga skóla atferlishyggjunnar (e. behaviourism) án Pavlovs. Pavlov var kosinn í vísindaakademíu St. Pétursborgar 1907, vísindaakademíu Rússlands 1917, og í vísindaakademíu Sovétríkjanna 1925. Hann vann að rannsóknum sínum alveg til hinsta dags en hann lést árið 1936. Heimildir og myndir:
- Arnór Hannibalsson: „Áhrif kenninga I. P. Pavlovs á sovézka sálarfræði“, Andvari, 1963, bls. 108-118.
- hrono.ru
- П. А. Рудик: Психология, Москва, 1958. (P. A. Rúdík: Psychologia, Moskva, 1958).
- С. Л. Рубинштейн: Бытие и сознание, Москва, 1957. (S. L. Rúbínstein: Tilvist og vitund, Moskva 1957.
- Myndir: Ivan Pavlov á Wikipedia. Sóttar 23. 3. 2011.