Eftir að Rómaveldi klofnaði í Vestrómverska ríkið og Býsansríkið eða Austrómverska ríkið, breikkaði bilið milli patríarkanna í Róm og Konstantínópel, en Konstantínópel var höfuðborg Austrómverska ríkisins. Fylgdu þeir sitt hvorum keisaranum og töldu sig óháða hvorir öðrum. Svo fór að kirkjan klofnaði á 11. öld í rómversk-kaþólsku og grísk-kaþólsku eða orþodox kirkjuna. Orþodox þýðir hin hreina, sú sem varðveitir hina réttu kenningu. Þaðan er dregið nafnið rétttrúnaðarkirkjan. Klofning kirkjunnar má kannski fyrst og fremst rekja til þess að patríarkinn í Konstantínópel vildi ekki lúta patríarkanum í Róm, páfanum, og öfugt. Einnig deildu menn í austri og vestri um guðfræðileg atriði, þó þau kunni ekki að þykja stórvægileg nú. Kjarni þeirra var skilningurinn á þrenningu Guðs. Báðar kirkjudeildir játa að Guð sé einn og að hann birtist sem þrenning, faðir, sonur og andi. Rómversk-kaþólskir segja að faðirinn og sonurinn hafi sent andann í heiminn eftir upprisu Jesú. Því fylgja lútersku kirkjurnar. Rétttrúnaðarkirkjan segir að einungis faðirinn hefði sent soninn og andann. Fleira greinir kirkjurnar að. Rétttrúnaðarkirkjan hefur fleiri sakramenti en sú rómverska og aðrar vestrænar kirkjur. Rétttrúnaðarkirkjan fylgir líka eldra tímatali og heldur því jól 6. janúar, sem reyndar er elsta fæðingarhátíð kristninnar. Rétttrúnaðarkirkjan leggur mikla áherslu á dulúð, messan er með allt öðru sniði en gerist í vestrænum kirkjum, upplifun og tilfinning skipta meira máli en kenningar. Því skipa íkonar eða helgimyndir veglegan sess í rétttrúnaðarkirkjunni. Þær eru töluvert notaðar í tilbeiðslu og yfir þeim hvílir mikil helgi. Íkoninn hér til hægri, Guðsmóðirin frá Vladimir, er frá 12. öld og einn virtasti íkoninn í Rússlandi. Gríska, serbneska, rúmenska og rússneska kirkjan eru þekktustu deildir rétttrúnaðarkirkjunnar, en hún hefur vígi sitt um alla Austur-Evrópu og er einnig fjölmenn í Bandaríkjunum. Enginn einn yfirmaður er yfir rétttrúnaðarkirkjunni, hvert land hefur sinn patríarka, en patríarkinn í Ístanbúl (Konstantínópel) er talinn fremstur meðal jafningja. Nokkur hundruð manna eru í Rétttrúnaðarkirkjunni hér á landi og eru tvö trúfélög starfrækt á hennar vegum. Annað kallast Söfnuður Moskvu-patríarkatsins í Reykjavík, hinn heitir Serbneska rétttrúnaðarkirkjan - fæðing heilagrar guðsmóður. Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:
- Hvenær ríktu Rómverjar? eftir Geir Þ. Þórarinsson
- Hvers vegna klofnaði Rómverska keisaradæmið í austur- og vesturhluta? eftir Geir Þ. Þórarinsson
- Hagia Sophia: Daily Istanbul Tours. Sótt 3. 9. 2010.
- Íkon: Theotokos of Vladimir á Wikipedia. Sótt 3. 9. 2010.
- Hvað getið þið sagt mér um grísku rétttrúnaðarkirkjuna?
- Er rétttrúnaðarkirkja á Íslandi?
- Hvað trúir fólkið í réttrúnaðarkirkjunni á?
Þetta svar er fengið af vefnum trú.is og birt með góðfúslegu leyfi höfundar.