Hlutverk skeifugarnar er því að taka við fæðumauki úr maganum og hlutleysa það. Auk þess tekur hún við galli og brissafa og blandar við fæðumaukið. Enn fremur myndar hún þarmasafa eins og aðrir hlutar smáþarma. Melting helstu fæðusameinda fer því fram í skeifugörn eins og í öðrum hlutum smáþarma. Að lokum byrjar upptaka efna í gegnum þarmavegginn að einhverju leyti í skeifugörninni. Til þess að upptaka gerist hratt og vel er innra yfirborð þarmanna mjög stórt. Alls eru þeir um sjö metrar á lengd í fullorðnum manni og 2,5-3 cm í þvermál. Ef innra yfirborðið væri slétt myndi það samsvara um hálfs fermetra yfirborðsflatarmáli sem er ekki mikið yfirborð fyrir upptöku næringarefna. Í raun liggja smáþarmarnir í fellingum, fellingarnar eru enn fremur þaktar þarmatotum og himnur totufrumnanna liggja einnig í fellingum. Alls er innra yfirborð smáþarmanna af þessum sökum um 250 fermetrar sem er um 500-falt meira en ef það væri alveg slétt! Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:
- Hvað tekur líkamann langan tíma að melta fæðu?
- Af hverju melta meltingarfærin ekki sjálf sig um leið og þau melta fæðu?
- Af hverju heyrist garnagaul?
- Hvað veldur vindgangi?
- Small intestine á Wikipedia. Skoðað 24. 9. 2009.
Hér er einnig svarað spurningunum:
- Hvað gera garnirnar?
- Hvað er smágirni?
- Hvað eru þarmarnir langir?