Meltingarvegurinn nær allt frá munni til endaþarms og er nokkurra metra langur. Fæðan berst frá munni og allt niður í ristil og hefst mislengi við á hverjum stað. Þannig er hún fremur stutt í munninum eftir því hversu vel við tyggjum hana áður en kyngt er, oft aðeins nokkrar sekúndur. Eftir kyngingu er fæðan 5-6 sekúndur að flytjast niður vélindað frá koki til maga. Þar er hún mun lengur eða 2-4 klukkutíma áður en hún berst áfram í skeifugörnina sem er efsti hluti smáþarma. Í smáþörmum fara fram lokaskref efnameltingar og upptaka meltra næringarefna. Oftast er fæðan þar í 5-6 klukkutíma. Að lokum berst fæðan í ristilinn þar sem upptaka vatns og steinefna fer fram og saur er myndaður úr ómeltanlegu efni. Það líða yfirleitt á bilinu 12 til 24 klukkutímar áður en við losum hægðir sem verða til í kjölfarið um endaþarminn. Tíminn sem fæðan er í ristlinum getur þó verið enn lengri. Heildartíminn sem fæðan er að fara í gegnum meltingarveginn er þannig 20-35 klukkustundir og er þá átt við vel samsetta máltíð sem inniheldur bæði meltanlegar sykrur og ómeltanlegar (trefjaefni), fitu, prótín og fleira. Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:
- Hvað gerir maginn? eftir Þuríði Þorbjarnardóttur
- Hvaða hlutverki gegnir ristillinn? eftir Þuríði Þorbjarnardóttur
- Hvaða hlutverk hefur gallblaðran og hvaða áhrif hefur það á líkamann ef hún er tekin? eftir Bjarna Þjóðleifsson
- Af hverju melta meltingarfærin ekki sjálf sig um leið og þau melta fæðu? eftir Þuríði Þorbjarnardóttur
- Hvernig starfa líffæri meltingakerfisins saman og hvaða efnaskipti fara þar fram? eftir Þuríði Þorbjarnardóttur
- Hvernig brennir maður prótíni, kolvetni og fitu? eftir Þuríði Þorbjarnardóttur