Á nóttunni getum við ekki séð sólina vegna þess að hún er í hvarfi bak við jörðina. Þá berst ekkert ljós til okkar frá henni og þess vegna er myrkur fyrir utan götuljósin, stjörnurnar sem lýsa á himninum og tunglið ef það er á lofti. Þegar okkur finnst hálfdimmt á daginn er það vegna þess að það er skýjað. Þá gleypa skýin ljósið frá sólinni svo að okkur finnst vera dimmt. Svo vitum við líka að við getum framkallað myrkur um miðjan dag til dæmis með því að myrkva herbergið sem við erum í, draga vandlega fyrir alla glugga og svo framvegis. Nauðsynlegt er að vanda sig við það vegna þess að augað lagar sig annars að þeirri litlu birtu sem kemur inn og okkur finnst þá ekki vera myrkur inni. Eins getum við auðvitað farið niður í dimman kjallara eða göng þar sem dagsljósið nær ekki inn. En við skulum taka vel eftir því hvernig mannsaugað lagar sig að birtunni eða skortinum á henni. Ef við slökkvum ljósið snögglega á dimmu vetrarkvöldi finnst okkur fyrst vera svartamyrkur inni en svo líður smástund og við byrjum að sjá móta fyrir ýmsum hlutum. Það er vegna þess að ljósop augans stækkar og aðrar breytingar gerast í auganu til að laga sig að myrkrinu. Um þetta má lesa svolítið nánar í svari TÞ við spurningunni Af hverju eru augun í fólki oft rauð á ljósmyndum?
Mynd: Fourmilab