Getið þið lýst líffræði augans?Eins og önnur líffæri er augað gert úr mörgum mismunandi vefjum. Augað sjálft er knöttur úr þremur lögum og er um 2,5 cm í þvermál.
Ysta lagið er trefjahjúpur (e. fibrous tunic) sem er gerður úr glæru (e. cornea) að framan og hvítu (e. sclera) að aftan. Hvítan er hjúpur úr þéttum bandvef sem þekur allan augnknöttinn nema glæruna. Hún gefur augnknettinum lögun sína, gerir hann stinnan og verndar innri hluta hans. Glæran, sem er einnig nefnd hornhimna, er gegnsær trefjahjúpur sem þekur litu eða lithimnu augans (e. iris). Í glærunni eru engar æðar. Ytra borð hennar er þakið táru (e. conjunctiva) sem er þekjuvefur sem klæðir einnig auglokið að innan. Glæran brýtur ljósgeisla sem berast inn í augað og beinir þeim á réttan stað á augnbotni. Við það verður myndin skýr. Sé glæran ekki sveigð á réttan hátt verður mynd ekki stillt á það svæði augans þar sem sjónin er skörpust og sjónin verður óskýr. Hægt er að fjarlægja gallaða glæru og setja aðra með svipað þvermál í staðinn frá vefjagjafa. Þetta kallast glæruígræðsla (e. corneal transplant) og er árangursríkasta ígræðslan sem framkvæmd er þar sem engar æðar eru í glærunni og því lítil hætta á að ónæmiskerfi líkamans hafni henni. Fyrir innan trefjahjúp augans er lag sem samanstendur af æðu (e. choroid), brárbaug (e. ciliary body) og litu. Æðan er þunn, dökkbrún himna sem þekur mestalla hvítuna að innan. Hún inniheldur æðar og mikið af litarefni. Æðan gleypir ljósgeisla svo að þeir endurkastist ekki innan augnknattarins og blóð í henni nærir sjónu augans (e. retina), þar sem fyrsta stig sjónskynjunar fer fram. Framan á auganu verður æðan að brárbaug sem er gerður úr brárklökkum (e. ciliary processes) og brárvöðva. Háræðar í brárklökkum seyta vatnskenndum vökva, augnvökva (e. aqueous humor), en brárvöðvi er sléttur vöðvi sem breytir lögun augasteins í samræmi við fjarlægð þess sem horft er á. Litan er hringlaga himna framan á auganu. Hún er gerð úr sléttum vöðvaþráðum, hringlaga og geislóttum. Gatið í miðju litu er sjáaldrið, sem er ljósop augans og hleypir ljósgeislum inn í það. Litan stjórnar ljósmagninu sem berst inn í augað. Í mikilli birtu dragast hringlaga vöðvaþræðirnir saman og þrengja ljósopið, en þegar birtan minnkar dragast geislóttu vöðvaþræðirnir saman og víkka ljósopið. Sjálfvirka taugakerfið stjórnar þessum vöðvum.
Litan eða lithimnan ræður augnlit fólks.
- Hvað ræður augnalit okkar? eftir Þuríði Þorbjarnardóttur
- Er hægt að fæðast án lithimnu? eftir EDS
- Af hverju blikkar maður augunum og hversu oft blikkar maður að meðaltali á mínútu? eftir Jóhannes Kára Kristinsson
- Hvað er vitað um hraða sjónskynjunar? eftir Jóhannes Kára Kristjánsson
- Hvað er sjónblekking? eftir Heiðu Maríu Sigurðardóttur
- Hvernig verka skilningarvitin fimm? eftir Heiðu Maríu Sigurðardóttur
- Hvað er náttblinda og hvað veldur henni? eftir Þórdísi Kristinsdóttur
- Gerard J. Tortora. 1997. Introduction to the Human Body - The Essentials of Anatomy and Physiology. 4. útg., Biological Science Textbooks, Inc.
- Skýringarmynd af auga: Image Gallery á heimasíðu Paul Avery.
- Ljósmynd af auga: image*after.