Líkt og önnur landdýr eiga skordýr uppruna sinn í sjó. Fyrir um 350 milljónum ára námu áar skordýranna land og hafa þau náð að aðlagast nær öllum búsvæðagerðum þurrlendisins, allt frá eyðimörkum til heimskauta og háfjalla. Fyrir leikmenn kann að vera snúið að greina skordýr frá öðrum landhryggleysingjum og oft gætir misskilnings hvaða dýr eru skordýr og hver ekki. Hér að neðan verður fjallað um nokkur af helstu einkennum skordýra og atriði sem skilja á milli þeirra og annarra hrygglausra smádýra. Eitt augljósasta einkenni skordýra, sem greinir þau frá öðrum smádýrum, er að skordýr hafa sex fætur og þrískiptan búk sem greinist í höfuð, frambol og afturbol. Köngulær eru til dæmis ekki skordýr. Þær hafa átta fætur og tvískiptan líkama og tilheyra undirfylkingu klóskera.
Líkt og önnur skordýr hefur röndótta ástarbjallan (Eudicella gralli) sex fætur og þrískiptan búk.
Einn af mest einkennandi eiginleikum margra skordýra er flugið og má færa rök fyrir því að það sé einn helsti þátturinn á bak við velgengni þeirra. Flugið hefur gert þeim kleift að dreifast víða um jörðina og nema ný og framandi búsvæði. Fjölmörg skordýr sýna ótrúlega flughæfileika. Randafluga (Syrphidae) getur til dæmis hangið nánast kyrr í loftinu og skotist svo leiftursnöggt til hliðar. Flest vængjuð skordýr hafa tvö pör af vængjum, en einn ættbálkur, tvívængjur, hefur aðeins eitt par. Hjá þeim má þó finna leifar af vængjum á afturlið frambolsins sem kölluð eru kólfar. Kólfar þessir virðist gegna mikilvægu hlutverki við flug tvívængja því þeir sveiflast í takt við vængjaslátt flugnanna. Þegar flugan flýgur beint áfram sveiflast kólfarnir í plani eða sléttu hornrétt á flugstefnuna. Ef kólfarnir eru fjarlægðir getur flugan ekki flogið. Myndbreytingar
Eitt af þeim einkennum sem eru sérstæð fyrir skordýr er myndbreyting (e. metamorphosis). Hjá skordýrum sem ganga í gegnum myndbreytingu er ungviðið frábrugðið fullorðnum einstaklingum í útliti. Við myndbreytingu hverfa einkenni ungviðisins og þau taka á sig mynd fullþroska dýra. Ekki ganga þó öll skordýr í gegnum slíkan þroskunarferil. Sum skordýr ganga ekki í gegnum neina myndbreytingu en önnur eru með svokallaða ófullkomna myndbreytingu.
Lirfa sem við myndbreytingu verður að keisarafiðrildi
- Hvert er stærsta skordýr í heimi? eftir Gísla Má Gíslason
- Finna skordýr til? eftir Loga Jónsson
- Sofa skordýr? Ef svo er hversu marga klukkutíma á sólarhring? eftir Jón Má Halldórsson
- Er til bók um íslensk skordýr? eftir Jón Má Halldórsson
- Evans, H.E. (ritstj.) 1984. Insect biology. A textbook of entomology. Addison – Wesley Publishing company, Reading, Massachusetts.
- Wikimedia Commons