Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Dýralíf á Spáni er mjög fjölbreytt enda er landið stórt. Á Spáni er löng strandlengja, þar er hálendi, skógar og síðast en ekki síst mikið fjalllendi. Sennilega hefur dýralíf í árdaga verið mun ríkulegra þar en í dag. Rúmlega tvö þúsund ára borgarsamfélag á Spáni og umtalsverður landbúnaður sem þar hefur verið stundaður hefur vissulega sett mark sitt á dýralíf landsins.
Suðræn fjallagemsa af deilitegundinni Rupicapra pyrenaica parva. Myndina tók Juan Lacruz.
Spendýr:
Talið er að 115 tegundir spendýra finnist á Spáni. Í fjalllendum héruðum Spánar, svo sem í Pýreneafjöllum og Kandabríufjöllum (spæ. Cordillera Cantábrica) á suðræna fjallagemsan (Rubicapra pyrenaica) sér sterk vígi. Tegundinni er skipt upp í tvær deilitegundir, þeirri sem kennd er við Pýreneafjallgarðinn, R. p. pyrenaica og R. p. parva sem finnst í Kandabríufjöllum og á aðliggjandi svæðum. Á útbreiðslusvæðum hennar á Spáni er þéttleikinn nokkur, frá 6-21 einstaklingi á ferkílómetra. Fjallagemsan er vinsælt sportveiðidýr og prýða uppstoppaðir hausar hennar heimili margra sportveiðimanna. Strangt eftirlit er með veiðum og stofnstærð þessara deilitegunda. Á síðasta áratug 20. aldar var stofnstærðin um 16 þúsund einstaklingar í Kandabríuhéraði á milli Reservas de Saja og Muniellos. Tæplega 40 þúsund einstaklingar voru á sama tíma í Pýreneafjöllum.
Annað stórt klaufdýr lifir í Pýreneafjöllum. Það er spánski íbexinn (Capra pyrenaica) eða spænska fjallageitin. Hún finnst í fjalllendi á austanverðum skaganum. Upphaflega voru fjórar deilitegundir þessarar tegundar en nú eru þær tvær. Önnur útdauða deilitegundin er kennd við Pýreneafjallgarðinn en hún hvarf úr villtri náttúru árið 2000. Hin var kennd við Portúgal og hvarf seint á 19. öld.
Spænska fjallageitin, ungt karldýr.
Af rándýrum (Carnivora) má nefna birni (Ursus arctos) en smáir stofnar finnast í Kantabríu og Pýreneafjöllum. Rauðrefur (Vulpes vulpes) er nokkuð algengur um allan Íberíuskagann og úlfurinn (Canis lupus) á sér nokkuð sterkt vígi í norðvesturhluta landsins. Einnig finnast smáir stofnar sunnar í landinu.
Talið er að fjöldi úlfa á Spáni sé um 2.000 til 2.500 einstaklingar sem er nærri 30% af heildarstofnstærð úlfa í Evrópu, utan fyrrum Sovétríkjanna. Líkt og annars staðar voru úlfar ofsóttir af svo miklum krafti að þeir hurfu af stórum hluta útbreiðslusvæðis síns. Úlfurinn hefur náð að rétta verulega úr kútnum á Spáni, líkt og víða í Evrópu. Skýringin kann að vera fjölþætt. Meginskýringin er líklega aukinn flutningur fólks úr sveitum í borgir og bæi. Svæði hafa lagst í eyði og villt náttúra endurheimt fyrri svæði. Villisvínum (Sus scrofa) og rádýrum (Capreolus capreolus) hefur fjölgað gríðarlega en bæði þessi dýr eru mikilvæg bráð úlfa og hefur það vafalaust stuðlað að fjölgun úlfa, sérstaklega á svæðunum í Galisíu.
Ein sjaldgæfasta kattategund heims er íberíugaupan (Lynx pardinus). Hún er smávaxnari en norðlægari frænkur hennar og lifir dreift í vesturhluta Spánar. Þessi gaupa er í verulegri útrýmingarhættu og nánast á heljarþröm. Frá árinu 2005, þegar um 100 dýr voru eftir, hefur tegundinni þó fjölgað lítið eitt en árið 2007 töldust dýrin 235. Helsta skýringin á bágbornu ástandi gaupunnar er stofnhrun hjá helstu bráð hennar, evrópsku kanínunni (Oryctolagus cuniculus), vegna svepps sem lagðist á hana, auk þess sem hún hefur verið ofsótt af manninum. Þess má geta að ef íberíugaupan deyr út þá verður það í fyrsta sinn sem kattategund hlýtur þau örlög frá því að sverðkötturinnSmilodin fatalis dó út undir lok síðustu ísaldar, að því er talið er.
Íberíugaupan er í mikilli útrýmingarhættu!
Á Spáni finnst fjöldi smærri rándýra, til dæmis minkur, víslur og tvær tegundir villikatta, önnur heitir Felix sylvestris og hin er smávaxinn fjallaköttur sem finnst á eyjunni Mallorca.
Fuglar:
Fuglalíf á Spáni er geysilega fjölbreytt og ríkulegt. Spánn liggur í farleið farfugla frá vetrarstöðum þeirra sem verpa í norðurhluta Evrópu. Varpfuglar eru fjölmargir í landinu en þeir telja rúmlega 400 tegundir í fjölbreytilegum búsvæðum, skóglendi, fjalllendi, votlendi og hálfeyðimerkum.
Af ránfuglum má helst nefna bonelli-örninn (Aquila fasciata) sem er einkennisörn Miðjarðarhafslandanna. Bonelli-örninn telst ekki vera í útrýmingarhættu og á Spáni lifa 750 pör í austurhluta landsins. Flestir eru fuglarnir í Andalúsíu eða um 340 pör og 108 í Valencia-héraði.
Lambagammurinn.
Á Spáni eru tveir stórvaxnir gammar. Lambagammurinn (Gypaetus barbatus) telst vera stærsti ránfugl Evrópu og getur vænghaf hans verið rúmir 3 metrar. Sterkasta vígi hans á Spáni er í Aragoníuhluta Pýreneafjalla en þar lifir allt að 70% stofnsins. Annars finnst hann víða í fjalllendi landsins. Stofninn er ekki stór og er helsta skýringin á því að hann leitar í eitruð hræ sem lögð eru fyrir refi. Það stóð íslenska arnarstofninum fyrir þrifum hér áður fyrr.
Lambagammurinn eða bonebreaker eins og hann hefur verið kallaður á ensku er kunnur fyrir að fljúga upp með bein og sleppa því úr mikilli hæð til að brjóta það. Þetta gerir hann til að reyna að komast í beinmerginn. Annar gammur sem finnst á Spáni er hinn sjaldgæfi egypski gammur (Neophron percnopterus). Aðrar ránfuglategundir sem finnast í landinu eru meðal annars förufálki (Falco peregrinus) og keisaraörn (Aquila adalberti) sem hefur með ströngum friðunarákvæðum náð að rétta úr kútnum í landinu. Gjóð (Pandion haliaetus) var útrýmt á meginlandinu fyrir rúmum 60 árum en hóf varp að nýju í Los Alcornocales-þjóðgarðinum árið 2003 og hefur varpstofninn eitthvað stækkað.
Víða í landinu verpir storkur (Ciconia ciconia). Flestir eru þeir í Extramadura-héraði eða um 11 þúsund pör sem er rúmlega 30% stofnsins. Af öðrum fuglum má nefna fjölda tegunda spörfugla sem finnast á fjölbreytilegum búsvæðum víða í skóglendi og í borgum.
Skriðdýr:
Þekktar eru 45 tegundir skriðdýra á Spáni. Samanborið við önnur ríki Evrópu er heilbrigði stofna þessa hóps hryggdýra nokkuð gott, en samt sem áður er um helmingi tegundanna ógnað í einhverjum mæli, svo sem vegna búsvæðaröskunar. Staðbundin útrýming er nokkuð algeng víða í landinu.
Á Spáni eru hættulegir snákar sem ber að varast þegar ferðast er um óröskuð svæði, svo sem í fjalllendi eða í skóglendi. Talið er að árlega deyi um 50 manns í Evrópu vegna snákabita, þar af fimm á Spáni og að jafnaði einn til þrír í Katalóníu. Á Spáni eru þekktar 13 tegundir snáka en fimm þeirra teljast lífshættulegar. Sú hættulegasta er sennilega naðra sem nefnist seoane-naðran (Vipera seoanei). Hún finnst í Galisíu, Leon, í Baskalandi og á Kantabríuströnd. Annar hættulegur snákur er lataste-naðran. Hún finnst um allt meginland Spánar þó hún teljist hvergi vera algeng. Hún er grá að lit og algeng lengd er um 50 cm. Lataste-naðran finnst venjulega á þurrum og klettóttum svæðum. Nauðsynlegt er að fara varlega á slíkum svæðum og varast ber að stinga hendinni í glufur eða holur þar sem þær geta hafist við.
Seoane-naðran getur verið skeinuhætt.
Einnig má nefna evrópska höggorminn sem getur verið banvænn. Hann finnst víða um sunnanverða Evrópu en á Spáni er hann bundinn við Pýreneafjöllin. Evrópski höggormurinn er annars kunnur fyrir að hafa banað Kleópötru drottningu Egyptalands skömmu fyrir Kristsburð. Að lokum má nefna hinn eiginlega höggorm (Vipera berus) sem finnst nánast um alla Evrópu. Þessi höggormur er ekki banvænn en að sjálfsögðu ber að varast hann eins og aðrar slöngur.
Froskdýr:
Alls hafa fundist 25 froskdýr á Spáni. Ástand þeirra er frekar aumt nú um mundir, sérstaklega vegna skerðingu á búsvæðum vegna virkjana, þurrkunar votlendis og notkunar á skordýraeitri sem fer mjög illa í froskdýr. Einnig hafa veðurfarsbreytingar og aukin tíðni hitabylgja á meginlandi Spánar haft skelfilegar afleiðingar fyrir froskdýr. Nýjar ágjarnar tegundir hafa borist til Spánar en þar mætti nefna ameríska krabbann (Procambarus clarkii), sem hefur reynst skæður afræningi halakarta, og ameríska nautfroskinn (Rana catesbeiana), sem hefur raskað vistkerfinu og haft betur í samkeppni við innlendar tegundir.
Heimildir:
A Field Guide to Reptiles and Amphibians of Britain and Europe, E. N. Arnold, J A Burton, D. W. Ovenden, Collins 1978: 2nd edition 2002, reprinted with corrections 2004.
Jón Már Halldórsson. „Hvernig er dýralífið á Spáni?“ Vísindavefurinn, 10. febrúar 2012, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=60289.
Jón Már Halldórsson. (2012, 10. febrúar). Hvernig er dýralífið á Spáni? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=60289
Jón Már Halldórsson. „Hvernig er dýralífið á Spáni?“ Vísindavefurinn. 10. feb. 2012. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=60289>.