Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Páll Einarsson er prófessor emeritus við jarðvísindadeild Háskóla Íslands og hefur rannsóknaraðstöðu við Jarðvísindastofnun Háskólans.
Rannsóknir Páls eru á sviði jarðvísinda og fjalla um jarðskorpuhreyfingar, jarðskjálfta, eðlisfræði eldgosa og kvikuhreyfinga, innri gerð eldstöðva og gerð jarðskorpunnar í heild. Í greinum sínum hefur hann meðal annars fjallað um jarðskjálfta og flekahreyfingar á Íslandi, jarðskjálfta á Atlantshafshryggnum, Kröfluumbrotin, eldgos í Heklu, kvikuhólf Kröflu, gerð jarðskorpunnar undir Heklu og Eyjafjallajökli, upptakamisgengi skjálfta á Suðurlandsundirlendi, umbrotin í Eyjafjallajökli 1994-2010, umbrotin í Bárðarbungu 1996-2015, eldstöðvakerfi undir Vatnajökli, Grímsvatnagos, skjálftavirkni Kötlu, sprungusveima íslenskra eldstöðvakerfa, og margt fleira. Mörg þessara viðfangsefna eru unnin í samvinnu stórra vinnuhópa vísindamanna, bæði innlendra og erlendra.
GPS-mælt á Norðurlandi.
Páll á að baki langan kennsluferil í Háskóla Íslands. Hann hefur kennt námskeið í eðlisfræði, almennri jarðeðlisfræði, jarðskjálftafræði, eldfjallafræði og tektóník. Síðustu tvo áratugina hefur stór hluti kennslunnar verið í námskeiðum fyrir erlenda skiptinema sem koma til Háskóla Íslands í eitt til tvö kennslumisseri. Auk kennslu í grunnnámi hefur hann verið leiðbeinandi nemenda í framhaldsnámi, bæði meistara- og doktorsnema.
Páll fæddist 1947 í Reykjavík og stundaði hefðbundið nám í Melaskóla, Hagaskóla og Menntaskólanum í Reykjavík, og tónlistarnám í Tónlistarskólanum í Reykjavík. Hann tók síðan fyrrihlutapróf í eðlisfræði í Háskólanum í Göttingen í Þýskalandi 1970. Þaðan lá leiðin til Columbia-háskólans í New York en þar tók hann MPhil-próf 1974 og PhD-próf 1975. Að námi loknu hóf hann störf við Raunvísindastofnun Háskólans og snerist starf hans þar einkum um að setja upp og reka net skjálftamæla um landið, svokallað Landsnet skjálftamæla. Það var notað til eftirlits með umbrotum á landinu þar til fullkomnara stafrænt skjálftamælanet tók við eftir 1990 og er rekið af Veðurstofu Íslands. Páll varð prófessor í jarðeðlisfræði 1994-1997 og aftur 1999 þar til hann fór á eftirlaun 2017.
Hallamælt við Heklu.
Páll er tíður viðmælandi fréttamanna, bæði innlendra og erlendra, einkum þegar eitthvað bjátar á í jarðskorpunni á Íslandi. Hann var sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu 2015 fyrir rannsóknir og fræðslu á sviði íslenskra jarðvísinda, og hlaut norrænu jarðvísindaverðlaunin 2018 fyrir árangur í vísindum og miðlun þekkingar til stjórnvalda og almennings.
Myndir:
Ritstjórn Vísindavefsins og Vísindafélag Íslands. „Hvað hefur vísindamaðurinn Páll Einarsson rannsakað?“ Vísindavefurinn, 7. apríl 2018, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=75615.
Ritstjórn Vísindavefsins og Vísindafélag Íslands. (2018, 7. apríl). Hvað hefur vísindamaðurinn Páll Einarsson rannsakað? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=75615
Ritstjórn Vísindavefsins og Vísindafélag Íslands. „Hvað hefur vísindamaðurinn Páll Einarsson rannsakað?“ Vísindavefurinn. 7. apr. 2018. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=75615>.