Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvernig eru orðin prófessor emeritus og emerita notuð?

Geir Þ. Þórarinsson

Latneska orðið emeritus er notað um þann sem lokið hefur störfum. Orðið er í raun lýsingarháttur þátíðar af sögninni emereo sem þýðir að gegna einhverri þjónustu til enda, til að mynda herþjónustu eða embættissetu. Í nútímasamhengi er það oftast notað til að gefa til kynna að prófessor hafi lokið störfum við háskóla og sé kominn á eftirlaun. Þegar um konur er að ræða er stundum skrifað professor emerita.

Í klassískri latínu var ekki til kvenkyns útgáfa af orðinu professor enda var samfélag fornmanna þannig að varla var gert ráð fyrir því að konur væru sérfræðingar og kennarar. Hugsanlega er kvenkyns útgáfa til í nýlatínu en mér er ekki kunnugt um það. Í einhverjum rómönsku málanna er til orðið professora (og þá professora emerita en professor emeritus) en rómönsku málin eru auðvitað orðin önnur tungumál. Latneski titillinn professor er notaður í karlkyni jafnt um karla og konur, ekki ósvipað og orðið ráðherra á íslensku.

Rússneski stærðfræðingurinn Sofia Kovalevskaja (1850–1891) var ein fyrsta konan í Evrópu sem lauk doktorsprófi og varð fullgildur prófessor. Henni auðnaðist þó ekki að verða prófessor emerita, því hún lést af völdum inflúensu og lungnabólgu í kjölfar hennar, þegar hún stóð á hátindi getu sinnar og orðstírs.

Kvenkynið emerita er samt ekki í málfræðilegu samræmi við karlkynsorðið professor. Sú notkun er sem sagt eins og nota kvenkyns lýsingarorð með orðinu ráðherra á íslensku ef ráðherrann er kona. Til dæmis, „Ráðherrann er snjöll“. Þetta er í mælskulist kallað constructio ad sensum og fornmálin eru almennt og yfirleitt móttækilegri fyrir þessu stílbragði en íslenskan.

Fleirtalan af emerita er emeritae en fleirtalan af karlkyninu emeritus er emeriti og er hún notuð bæði um karla og fyrir bæði kynin saman í fleirtölu.

Mynd:

Höfundur

Geir Þ. Þórarinsson

aðjúnkt í grísku og latínu við Háskóla Íslands

Útgáfudagur

2.3.2015

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Geir Þ. Þórarinsson. „Hvernig eru orðin prófessor emeritus og emerita notuð?“ Vísindavefurinn, 2. mars 2015, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=68676.

Geir Þ. Þórarinsson. (2015, 2. mars). Hvernig eru orðin prófessor emeritus og emerita notuð? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=68676

Geir Þ. Þórarinsson. „Hvernig eru orðin prófessor emeritus og emerita notuð?“ Vísindavefurinn. 2. mar. 2015. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=68676>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvernig eru orðin prófessor emeritus og emerita notuð?
Latneska orðið emeritus er notað um þann sem lokið hefur störfum. Orðið er í raun lýsingarháttur þátíðar af sögninni emereo sem þýðir að gegna einhverri þjónustu til enda, til að mynda herþjónustu eða embættissetu. Í nútímasamhengi er það oftast notað til að gefa til kynna að prófessor hafi lokið störfum við háskóla og sé kominn á eftirlaun. Þegar um konur er að ræða er stundum skrifað professor emerita.

Í klassískri latínu var ekki til kvenkyns útgáfa af orðinu professor enda var samfélag fornmanna þannig að varla var gert ráð fyrir því að konur væru sérfræðingar og kennarar. Hugsanlega er kvenkyns útgáfa til í nýlatínu en mér er ekki kunnugt um það. Í einhverjum rómönsku málanna er til orðið professora (og þá professora emerita en professor emeritus) en rómönsku málin eru auðvitað orðin önnur tungumál. Latneski titillinn professor er notaður í karlkyni jafnt um karla og konur, ekki ósvipað og orðið ráðherra á íslensku.

Rússneski stærðfræðingurinn Sofia Kovalevskaja (1850–1891) var ein fyrsta konan í Evrópu sem lauk doktorsprófi og varð fullgildur prófessor. Henni auðnaðist þó ekki að verða prófessor emerita, því hún lést af völdum inflúensu og lungnabólgu í kjölfar hennar, þegar hún stóð á hátindi getu sinnar og orðstírs.

Kvenkynið emerita er samt ekki í málfræðilegu samræmi við karlkynsorðið professor. Sú notkun er sem sagt eins og nota kvenkyns lýsingarorð með orðinu ráðherra á íslensku ef ráðherrann er kona. Til dæmis, „Ráðherrann er snjöll“. Þetta er í mælskulist kallað constructio ad sensum og fornmálin eru almennt og yfirleitt móttækilegri fyrir þessu stílbragði en íslenskan.

Fleirtalan af emerita er emeritae en fleirtalan af karlkyninu emeritus er emeriti og er hún notuð bæði um karla og fyrir bæði kynin saman í fleirtölu.

Mynd:

...