
Germönskum málum er skipt í þrjár greinar: norðurgermönsk mál, vesturgermönsk mál og austurgermönsk mál. Norðurgermönsk mál eru: íslenska, færeyska, norska, danska, sænska. Vesturgermönsk mál eru: enska, þýska, hollenska, frísneska. Til austurgermanskra mála telst aðeins gotneska sem hvergi er töluð nú. Rómönsk mál teljast undirgrein einnar af þremur greinum ítalískra mála, og rekja rætur sínar til latínu á sögulegum tíma. Hinar tvær greinarnar eru oskíska og umbríska. Til rómanskra mála teljast: franska, spænska, portúgalska, ítalska, retórómanska, katalanska, rúmenska. Slavneskum málum er skipt í þrjá flokka: vesturslavnesk mál, suðurslavnesk mál og austurslavnesk mál. Vesturslavnesk mál eru: tékkneska, slóvakíska, pólska, sorbneska. Suðurslavnesk mál eru: slóveníska, serbó-króatíska, makedónska, búlgarska. Austurslavnesk mál eru: rússneska og úkraínska. Sjá einnig svar sama höfundar við spurningunni Hvað skiptast indó-evrópsk tungumál í marga flokka?