Hvernig fer landrek fram? Jarðvísindamaður staddur við Holuhraun fullyrti að hægt væri að mæla landrek út frá núverandi eldsumbrotum?Landrek skýrist af flekareki en samkvæmt flekakenningunni skiptist ysta skurn jarðarinnar, stinnhvolfið, í allmarga fleka sem eru á sífelldri hreyfingu hver með tilliti til hinna. Löndin eru hlutar flekanna og hreyfast því með þeim. Flekarekið kemur fram á ýmsa vegu og má mæla það og meta á margan hátt. Í upphafi kom flekakenningin fram til að skýra nýjar mæliniðurstöður á segulsviði yfir úthöfunum og einnig bentu skjálftamælingar eindregið til þess að flekar væru til og hreyfðust. Kenningin varð til við samtúlkun þessara gagna. Hreyfingarstefnur flekanna og hraði þeirra fékkst út úr mælingunum. Fylgifiskur hreyfinganna er eldvirkni á flekaskilunum en ekki er beint hægt að nota hana til að ákvarða hraða eða hreyfingarstefnur flekanna. Eldvirkni getur líka orðið þar sem ekki eru flekaskil. Nýleg eldgos á Grænhöfðaeyjum og Galapagoseyjum eru dæmi um það.
- Árnadóttir, Th., B. Lund, W. Jiang, and H. Geirsson, H. Björnsson, P. Einarsson and T. Sigurdsson, Glacial rebound and plate spreading: Results from the first countrywide GPS observations in Iceland, Geophys. J. Int., 177(2), 691-716, doi.org/10.1111/j.1365-246X.2008.04059.x, 2009.