Frægustu dýr eyjanna eru án efa risaskjaldbökurnar sem eru stærstu skjaldbökur í heimi. Þær geta orðið meira en 200 kg að þyngd og meira en metri á lengd. Þær geta líka orðið fjörgamlar. Sú elsta sem vitað er um með vissu varð 152 ára en sennilega hafa sumar orðið enn eldri. Risaskjaldbakan er það dýr sem lengst lifir á jörðinni. Skjaldbökurnar eru þó mun færri nú en þær voru þegar mennirnir komu fyrst til eyjanna. Þá voru um 250 þúsund skjaldbökur á eyjunum en í dag eru þær aðeins um 15 þúsund. Ástæður þess að skjaldbökum hefur fækkað eru nokkrar. Á nítjándu öld voru til dæmis eyjarnar oft heimsóttar af áhöfnum skipa sem þótti skjaldbökukjöt mjög gott. Skjaldbökur eru líka þeim kostum búnar að geta lifað án matar og drykkjar í langan tíma. Því voru þær oft veiddar, lagðar á bakið í skipunum og síðan slátrað eftir þörfum. Þannig gátu skipverjar gætt sér á fersku kjöti hvenær sem var úti á sjó. Með mannfólkinu komu einnig til eyjanna ýmis dýr sem ógnuðu risaskjaldbökunum eins og hundar, kettir og rottur sem gjarnan éta egg skjaldbakanna. Þá éta geitur oft þann gróður sem skjaldbökurnar lifa á. Stjórnvöld í Ekvador hafa gert tilraunir til þess að bjarga dýralífinu á Galapagoseyjunum og meðal annars breytt stórum hluta eyjanna í þjóðgarð. Auk þess er stranglega bannað að flytja skjaldbökur og egg þeirra af eyjunum. Þar sem Galapagoseyjar eru ekki síst frægar fyrir rannsóknir Charles Darwins á náttúrufari þeirra er ekki úr vegi að heyra að lokum hvernig hann lýsir þeim:
Galapagos-eyjaklasinn er um 800-1000 km undan ströndum Suður-Ameríku. Samt ber allt sem myndast hefur á landi eða í vatni óvefengjanlegt svipmót hins ameríska meginlands. Þarna eru 26 mismunandi landfuglar og af þeim flokkast 21 eða kannski 23 sem sérstakar tegundir, þannig að flestir mundu gera ráð fyrir því að þeir hefðu verið skapaðir hér. Samt sem áður eru þessir fuglar mjög líkir amerískum tegundum og birtist það í öllum einkennum þeirra, í venjum, látbragði og hljóðfalli. Sama máli gegnir um önnur dýr og næstum allar jurtir ... Þegar náttúrufræðingurinn virðir fyrir sér íbúa þessara eldfjallaeyja á miðju Kyrrahafi, mörg hundruð kílómetra frá meginlandinu, finnst honum að hann sé staddur í sjálfri Ameríku. Hvers vegna skyldi þetta vera svo? Hvers vegna skyldu tegundir, sem menn telja skapaðar á Galapagos-eyjum og hvergi annars staðar, bera svo sterkt svipmót tegunda sem hafa verið skapaðar í Ameríku? Hvað snertir lífsskilyrði, jarðfræðilega staðhætti, hæð eða loftslag á Galapagos-eyjum líkjast þær í engu ströndum Suður-Ameríku: í raun og veru eru staðirnir mjög ólíkir. Á hinn bóginn líkjast Galapagos-eyjar mjög Grænhöfðaeyjum (Cabo Verde-eyjum) að því er tekur til jarðvegs frá eldfjöllum, loftslags, hæðar og stærðar: en hvílíkur reginmunur á íbúum! Lífríki Grænhöfðaeyja er skylt lífinu í Afríku á sama hátt og líf á Galapagos-eyjum er skylt lífinu í Ameríku. Staðreyndir af þessu tagi verða að mínu áliti alls ekki skýrðar út frá hinni viðteknu kenningu um óháða sköpun. Hins vegar gefur auga leið, samkvæmt þeirri kenningu sem hér er haldið fram (það er um náttúruval), að öll líkindi standa til þess að landnemar berist frá Ameríku til Galapagos-eyja og frá Afríku til Grænhöfðaeyja, hvort sem það hefur gerst með tilviljanakenndum flutningum eða með landbrú áður fyrr. Slíkir landnemar mundu geta tekið breytingum en vegna erfðalögmálsins leynir sér samt ekki hvaðan þeir eru komnir. (Charles Darwin, On the Origin of Species, ljóspr. 1. útg.; Cambridge, Mass.: Harvard University Press, 1964, 397-9.Sjá einnig svör við skyldum spurningum:
- Hve lengi lifir risaskjaldbakan?
- Hvað eru til margar tegundir af þróunarkenningum og hvað kallast þær?
Britannica Online
The American Museum of Natural History Mynd af risaskjaldbökunni var á vefsetrinu The Big Zoo
Myndin af risaskjaldbökuhöfðinu Rochester Institute of Technology