Þróun er breyting á ástandi einhvers kerfis í tíma. Þróunarkenningu er ætlað að skýra breytinguna. Fyrri gerð þróunarkenninga má kenna við þroskun eða umbreytingu. Hún gerir ráð fyrir því að einingarnar í kerfinu (einingarnar gætu verið einstaklingar í stofni eða stjörnur í alheiminum) taki hver fyrir sig áþekkum breytingum. Ástand kerfisins (eða hópsins) breytist eða þróast vegna þess að einingarnar taka slíkum breytingum.
Sem dæmi má nefna kenningu Piaget um þroskun manna. Ef fylgst er með hópi barna sem byrjar í barnaskóla og klárar stúdentspróf í menntaskóla sést að hvert barn lærir að lesa, skrifa og reikna og táningarnir læra síðan tungumál, stærðfræði og fleira og fleira. Hver einstaklingur þroskast og hópurinn breytist eða þróast þar eð einstaklingarnir þroskast á áþekkan hátt. Kenning Marx og Engels um þróun þjóðfélaga er af sömu gerð. Þeir gerðu ráð fyrir að þjóðfélög breyttust úr lénskerfi í kapítalisma og úr kapítalisma í kommúnisma. Ef hvert þjóðfélag breytist mun hópur slíkra þjóðfélaga, t.d. í einni heimsálfu, þróast. Kenning Chandrasekhars um að litlar og miðlungs stjörnur brenni út og verði hvítir dvergar (og stórar stjörnur svarthol) er einnig af sama meiði. Alheimurinn eða heildin þróast vegna þess að einingarnar (stjörnur í þessu tilviki) umbreytast á svipaðan hátt.
Hin gerð þróunarkenninga er um fyrirfram gerðan breytileika sem er sigtaður þannig að eftir stendur það sem ekki fór í gegnum sigtið - hún er breytileika- og sigtunarkenning og algjör andstæða umbreytikenninga. Þróunarkenning Darwins (og nýja synþesan eða samþættingin sem er afsprengi hennar) er eina kenningin af þessari tegund þróunarkenninga.
Náttúrlegt val er gangvirki þessarar kenningar. Það byggir á þremur staðreyndum um allar lífverur:
- Lífverur eru breytilegar að formi, lífeðli og atferli.
- Breytileiki erfist sem merkir að afkvæmi líkjast foreldrum sínum meira en þeir líkjast óskyldum einstaklingum.
- Breytilegar lífverur eignast mismörg afkvæmi.