Jörðin er stundum kölluð bláa reikistjarnan þar sem sjór þekur um 71% af yfirborði hennar. Yfirborð sjávar er alls um 362 milljónir ferkílómetra (km2) og er heildarrúmmál hafanna um 1348 milljón rúmkílómetrar (km3). Á norðurhveli jarðar þekur sjór um 60,7% af yfirborðinu en 80,9% á suðurhveli. Heimshöfin, eða úthöfin, umlykja meginlönd jarðar. Úthöfin eru oftast talin vera þrjú, Kyrrahaf, Atlantshaf og Indlandshaf. Áður var Suður-Íshafið stundum talið sérstakt heimshaf, en nú hefur sú venja skapast að skipta því milli úthafanna þriggja. Einnig hefur Norður-Íshafið stundum verið talið sérstakt úthaf en það er líka oft talið með Atlantshafi. Meginlöndin aðskilja úthöfin á norðurhveli jarðar. Á suðurhveli jarðar miðast mörkin milli úthafanna við línur sem dregnar eru til suðurs frá syðsta odda meginlandanna. Skilin á milli Atlantshafs og Indlandshafs eru um 20. lengdarbaug austlægrar lengdar sem liggur um Agulhashöfða í Suður Afríku. Skilin á milli Indlandshafs og Kyrrahafs sunnan Ástralíu eru um 147. lengdarbaug austlægrar lengdar sem liggur um suðurodda Tasmaníu. Fyrir norðan Ástralíu eru mörkin frá Cape Londonderry, um Timor, Jövu og Sumatra að Malajaskaga. Mörkin milli Kyrrahafs og Atlantshafs liggja frá Cape Horn, suðurodda Suður-Ameríku, til Suður-Shetlandseyja undan meginlandi suðurheimskautsins. Í norðri eru mörkin milli Kyrrahafs og Atlantshafs í Beringssundi. Heimshöfin þrjú skiptast í smærri hafsvæði sem eru oft afmörkuð af meginlöndum og eyjaklösum, stórum skögum eða neðansjávarhryggjum. Einnig eru dæmi um að skipting hafanna í minni svæði sé byggð á sögulegum eða stjórnmálalegum forsendum. Þessi smærri hafsvæði skiptast meðal annars í innhöf og strandhöf (til dæmis Miðjarðarhafið, Norðursjó og Rauðahaf), flóa (til dæmis Persaflóa og Mexíkóflóa) og sund eins og Gíbraltarsund og Beringssund. Þó að okkur sé tamt að gera skýran greinarmun á úthöfunum og „öðrum“ höfum, til dæmis Atlantshafi og Miðjarðarhafi, þá er ekki svo gott að skilgreina hver munurinn er. Stundum er talað um að strandhöf séu við jaðra úthafanna og innhöf séu að mestu leyti umlukin meginlöndum. Þegar talað er um flatarmál heimshafanna er þó yfirleitt litið á úthöfin og þau innhöf, strandhöf, flóa og sund sem tilheyra þeim sem eina heild. Kyrrahaf er stærst úthafanna. Flatarmál þess er 179.680.000 km2 ef innhöf, strandhöf og flóar eru talin með, en 165.250.000 km2 án þeirra. Því næst kemur Atlantshaf sem er 106.460.000 km2 með innhöfunum en 82.440.000 km2 ef innhöfin, strandhöf og flóar eru ekki tekin með. Minnst er Indlandshaf, alls 74.720.000 km2 með innhöfum en 73.440.000 km2 án þeirra. Heimildir:
- Unnsteinn Stefánsson, 1999. Hafið, Reykjavík: Háskólaútgáfan.
- Britannica Online
- HB.