Uppgötvun
Eftir að Seres fannst árið 1801 og Pallas árið 1802 setti Heinrich Wilhelm Olbers fram þá tilgátu að hnettirnir væru leifar reikistjörnu sem hefði tvístrast. Árið 1802 sendi hann bréf til enska stjörnuáhugamannsins Williams Herschels þar sem hann sagði frá tilgátu sinni og lagði til að leit yrði gerð nálægt þeim stöðum á himninum þar sem brautir Seresar og Pallasar skærust því þar gætu fleiri hnettir fundist. Skurðpunktarnir voru staðsettir í stjörnumerkjunum Hvalnum og Meyjunni. Olbers hóf sjálfur leit árið 1802 en hún bar ekki árangur fyrr en 29. mars 1807 þegar hann fann Vestu, þá í stjörnumerkinu Meyjunni. Árið 1804 hafði smástirnið Júnó fundist og var Vesta þar af leiðandi fjórða fyrirbærið sem fannst á þessu svæði og er nú þekkt sem smástirnabeltið. Olbers tilkynnti uppgötvun sína í bréfi sem hann sendi þýska stjörnufræðingnum Johann H. Schröter tveimur dögum eftir uppgötvunina. Olbers leyfði stærðfræðingnum fræga Carl Friedrich Gauss að nefna smástirnið og stakk hann upp á nafninu Vestu. Gauss reiknaði síðan út umferðartíma hnattarins.Vesta á stjörnuhimninum
Vesta sést stundum með berum augum við góðar aðstæður, fjarri allri ljósmengun, en er þá álíka björt og daufustu fastastjörnur. Smæðar sinnar vegna sjást engin smáatriði á Vestu í gegnum stjörnusjónauka, jafnvel þegar hún er í gagnstöðu.Meira má lesa um smástirnið Vestu á Stjörnufræðivefnum en þetta svar er stytt útgáfa af þeirri umfjöllun og birt með góðfúslegu leyfi. Myndin er fengin af sama vef.