Eru til góðar myndir af smástirninu Seres milli Mars og Júpíters?Smástirni eru öll lítil (þvermál er innan við 1000 km) berg- og málmkennd fyrirbæri í sólkerfinu sem hafa enga halastjörnuvirkni, ganga um sólina en eru ekki nægilega stór til að geta talist til plánetna. Þau eru oft óreglulöguð vegna þess að þyngdarkrafturinn er ekki nægilega mikill til að mynda kúlulaga hnött. Smástirnin eru afgangsefni frá myndun sólkerfisins og liggja aðallega í belti milli reikistjarnanna Mars og Júpíters en einnig í minna magni um allt sólkerfið. Um þetta belti og fleiri smástirnahópa má lesa nánar í svari sama höfundar við spurningunni: Hvað getið þið sagt mér um loftsteinabeltið milli Mars og Júpíter?
Smástirnin eru oftast mjög dökkleit vegna kolefnissambanda á yfirborði þeirra. Þó eru til tveir aðrir smástirnahópar sem hafa bjartara yfirborð og þá er efnasamsetningin önnur, en vikið verður nánar að því síðar. Erfitt getur reynst að mæla massa smástirna sökum þess að þau hafa yfirleitt enga fylgihnetti. Snúningstími smástirna er yfirleitt á bilinu 5 til 20 klukkustundir og brautarhreyfing þeirra fer eftir nálægð við sól. Sumir vísindamenn telja að smástirnin í beltinu milli Mars og Júpíters séu efni sem aldrei náði að mynda reikistjörnu. Í staðinn fyrir að mynda eina heild rákust þau á hvort annað á miklum hraða, ef til vill um 5 km/s. Þetta ferli gerist enn í dag, en miklu sjaldnar en í árdaga sólkerfisins. Aðrir vilja hins vegar halda því fram að smástirnin séu reikisteinar, leifar þess efnis sem myndaði innri reikistjörnurnar. Það yrði óneitanlega mjög spennandi að rannsaka smástirnin nánar, því þar gætu vísbendingar um efna- og eðlisfræðileg myndunarferli reikistjarnanna leynst. Þó svo að fjöldi smástirna sé mikill er samanlagt rúmmál þeirra ekki svo mikið. Ef hnöttur væri hnoðaður saman úr öllum smástirnunum yrði hann aðeins um 1500 km í þvermál, sem er minna en helmingur af þvermáli tunglsins. Massin væri líka einungis um 1/20 af massa tunglsins. Smástirnunum er skipt í flokka eftir efnasamsetningu og hve miklu ljósi þau endurvarpa. Flokkarnir eru tilgreindir með stöfunum S, C, M, D, F, P, V, G, E, B og A. Stafirnir lýsa smástirninu; þannig er S "stony" eða bergkenndur, C er "carbonaceous" eða kolefniskenndur, M er "metallic" eða málmkenndur og svo framvegis. Þrír algegustu flokkarnir eru C, S og M:
- C: Um 75% smástirna eru af gerð C. Slík smástirni eru að mestu úr kolefni en það er hægt að sjá með því að skoða litróf þeirra. Þau eru mjög dökk því þau endurvarpa aðeins um 3% af því sólarljósi sem á þau fellur. Litróf slíkra smástirna sýna að þau hafa nánast haldist óbreytt frá myndun þeirra fyrir 4,6 milljörðum ára. Dæmi um smástirni af þessari gerð er 253 Mathilde.
- S: Smástirni af S-gerð eru um 17% þekktra smástirna. Þau eru úr sílíkötum og skortir dökku kolefnassamböndin. Þau virðast bjartari en C-gerðin enda endurvarpa þau um 15 til 20% af sólarljósinu sem á þau fellur. Dæmi um slík smástirni eru 951 Gaspra og 243 Ída.
- M: Smástirni af þessari gerð eru úr járni og nikkel. Þau eru tiltölulega sjaldgæf og eru bjartari en S og C-gerðirnar. Vísindamenn telja að þau séu leifar kjarna aðskildra fyrirbæra. Í stórum fyrirbærum sem í árdaga sólkerfisins voru nægilega heit til að vera fljótandi, sukku þétt efni eins og járn og nikkel niður í miðju hnattarins á meðan léttari efni eins og sílíköt streymdu upp á við. Minni fyrirbæri kólnuðu fyrr en stærri fyrirbæri, þannig að þau voru ekki eins lagskipt. Snemma í myndunarferli sólkerfisins voru mun fleiri fyrirbæri á ferð og árekstrar því mun algengari svo að sum smástirnin rákust hvert á annað, tvístruðust og komu þá málmkjarnarnir bersýnilega í ljós. Dæmi um smástirni af M-gerð er 16 Psyche.
- Af hverju kemur stjörnuhrap? eftir Þorstein Vilhjálmsson.
- Af hverju eru loftsteinar verðmætir? eftir Gylfa Magnússon.
- Hvað gerðist í Tunguska í Síberíu? eftir Ulriku Andersson.
- Hvaðan kemur vatnið? eftir Sigurð Steinþórsson.
- Hvers vegna er jörðin með möndulhalla? eftir Sigurð Steinþórsson.
- Eru vötn á tunglinu? eftir Sævar Helga Bragason og Tryggva Þorgeirsson.
- Hvað er nú vitað um loftsteininn frá Suðurskautslandinu sem talinn var bera merki um líf á Mars? eftir Þorstein Þorsteinsson.
- Mynd af Seresi
- Beatty, J. K., og A. Chaikin (ritstj.): The New Solar System. Sky Publishing House, Bandaríkin/England, 1990.
- Freedman, R. A. og Kaufmann, William. Universe. W. H. Freedman and Company, New York, 1998. 5. útgáfa.
- Pasachoff, Jay. Astronomy: From the Earth to the Universe. Massachusets, Saunders College Publishing, 1998. Fimmta útgáfa.
- Ridpath, Ian. A Dictionary of Astronomy. Oxford Paperback Reference, Oxford University Press, New York, 1997.
- Weissmann, P. R., McFadden, L. (ritstj): Encyclopedia of the Solar System. New York, Academic Press, 1990.
Mynd af Giuseppe Piazzi: Istituto Nazionale di Astrofisica (Ítalía) Mynd af Seres: The University of Auckland - The Division of Science and Technology