Víða í heiminum er ljósmengun orðið mikið vandamál, sbr. myndina hér að ofan, enda virðast menn víðast hvar enn ekki sjá neina ástæðu til þess að draga úr lýsingu og spara sér þannig háar fjárhæðir. Barátta stjörnuáhugamanna og náttúruverndarfólks hefur þó víða vakið athygli á þessu vandamáli og leitt til umbóta; stjórnmálamennirnir hafa tekið við sér þegar þeim er bent á peningana sem sparast á minni lýsingu. Alþjóðleg samtök áhugmanna og hagsmunaaðila, t.d. International Dark-Sky Association, hafa verið stofnuð og náð góðum árangri með því að benda á augljósar úrlausnir sem Íslendingar mættu líka gjarnan tileinka sér. Lýsing hefur sums staðar tekið miklum stakkaskiptum, orkunotkun minnkað talsvert og lýsing orðið þægilegri. Orkusparnaður úti í heimi, þar sem minna er um umhverfisvæn orkuver en hér, dregur auk þess örlítið úr loftmengun. Það er því til mikils að vinna að spara ljósið. Nú halda kannski margir að þetta vandamál sé ekki til hér hjá okkur. Það er þó öðru nær eins og menn sjá glöggt ef þeir aka út fyrir borgarmörkin á vetrarkvöldi. Jafnvel langleiðina að Þingvöllum er ljósbjarminn frá höfuðborginni, öðrum smærri bæjum og ekki síst sér frá gróðurhúsum svo ótrúlega mikill að jafnvel vetrarbrautarslæðan sést varla og norðurljósin nánast hverfa! Og þegar ekið er til að mynda um víðlendar sveitir Suðurlands mynda gróðurhúsahverfin eins konar eyjar ljósmengunar sem stinga í stúf við alla náttúruna í kring. Algengasta orsök ljósmengunar er sú að frágangi ljósa er ábótavant. Þá berst ljós ýmist til hliðar eða einfaldlega beint upp í himininn, engum til gagns, og til verður ótrúlega mikill bjarmi sem sést víða að. Illa hönnuð götuljós eru skýrt dæmi um þetta, til að mynda keilu- eða kúlulaga ljós sem eru algeng í íbúðarhverfum. Ljóskastarar sem lýsa upp byggingar, til dæmis ljósin fyrir framan Háskóla Íslands, eða bílastæði, íþróttavelli og því um líkt geta verið slæmir því að mikið af ljósinu á slíkum stöðum fer beint upp í himininn og lýsir því ekki á neitt. Sumir ganga meira að segja svo langt að lýsa upp einhverja steina eða tré í garðinum hjá sér með því að setja ljóskastara ofan í jörðina, og lýsa þannig beint upp í himininn! Mjög skær ljós, til dæmis flúrljós, sem lýsa beint í augun, valda glýju og gera þau ónæmari, eru líka mjög slæmir mengunarvaldar. Einfaldasta og ódýrasta leiðin til að draga úr ljósmengun er að nota ljósbúnað sem lýsir einungis niður. Ljós með góðum hlífum eða skermum koma þar vel að gagni. Garðyrkjubændur eiga kost á lömpum frá framleiðendum sem nýta betur ljósið í gróðurhúsunum án þess að það fari beint upp í loftið; þannig sparast peningar á orkureikningnum og uppskeran vex jafnvel. Meiri uppskera fyrir minni kostnað skilar sér síðan til neytenda í formi ódýrari vöru. Sumarbústaðaeigendur geta keypt ljós með rofum sem skynja hreyfingu og aukið þannig öryggi bústaðarins um leið. Ljós sem loga í sífellu gera ekkert annað en að draga athyglina að bústaðnum og auka þannig líkurnar á innbrotum. Sumarbústaður sem ekki sést í myrkri laðar engan að sér. Ríki, bæjar- og sveitarfélög ættu að taka höndum saman um að spara peninga skattgreiðenda með því að draga úr lýsingu. Það mætti gera með því að setja einhvers konar ákvæði um lýsingu í greinargerð um skipulag bæjarins, eins og Borgarbyggð gerði í umhverfisstefnu sinni í apríl árið 2000:
11. Ljósmengun: Við uppsetningu og endurnýjun götulýsingar verður þess gætt að ljósmengun utan svæðis verði í lágmarki.Ríkið ætti að huga betur að vali á ljósum á þjóðvegum landsins en gert hefur verið hingað til. Sumir skipulags- og umferðarfræðingar hafa jafnvel fært rök fyrir því að aukin lýsing á þjóðvegum landsins auki ekki öryggi vegfarenda, heldur aðeins aksturshraðann og því um leið slysahættuna. Minni orkunotkun skilar sér til baka á ótrúlega stuttum tíma. Þar sem ráðist hefur verið í úrbætur annars staðar í heiminum, hefur aðeins tekið nokkur ár að borga upp kostnaðinn sem fór í úrbæturnar, einfaldlega með þeim peningum sem spöruðust á minni orkunotkun. Gleymum því ekki að næturhimininn er eitt af mestu undrum náttúrunnar og hefur verið uppspretta fegurðar og fróðleiks allt frá því að menn urðu til. Því miður njóta hans færri en skyldi, en allir heillast af honum þegar hann sést ómengaður í öllu sínu veldi. Heimildir:
- Ágúst Bjarnason. Grein um ljósmengun fyrir hönd Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness.
- Vefsíða International Dark-Sky Association.
- Vefsíða Sky & Telescope.
- Myndin er fengin hjá NASA