Sæl. Hvernig teljið þið að ferðamannastraumurinn á Íslandi muni þróast á næstu árum? Mun vera aukning á honum eða jafnvel minnkun? Von um góð svör, Kristján Magnússon.Allt frá 2010 hefur ferðafólki á Íslandi fjölgað í kringum 30% milli ára. Í því ljósi og þegar horft er til þess að líklegt er að gestafjöldinn árið 2017 verði tvær og hálf milljón, er ekki að undra þótt margir finni fyrir beyg. Reynsla Íslendinga af síld, loðdýrum, fiskeldi og fjármálastarfsemi hefur sýnt að það sem vex hratt á það til að hrynja. Í hagspá greiningardeildar Arion banka í mars 2017 er spurt hvort toppnum sé náð og þar vilja menn leiðrétta fyrri spár um fjölgun ferðafólks og gera ráð fyrir 7% fjölgun milli áranna 2017 og 2018. Áhyggjur hafa birst í fréttum af því að hækkandi verðlag hér á landi með styrkingu krónu muni valda samdrætti og nýverið bættist útspil ríkisstjórnar um hækkun virðisauka á greinina, sem mun hafa áhrif á hækkandi verðlag. Ofan á þetta bætist umræða um að gistirými í landinu sé uppselt og gestir muni ekki vilja koma hingað vegna mergðar fólks og niðurníddrar náttúru. Þrátt fyrir allt þetta tel ég hvorki að hrun í greininni sé fyrirsjáanlegt, né að von sé á þeim samdrætti sem Arion banki spáir. Til grundvallar þeirri skoðun eru nokkrar ástæður. Í fyrsta lagi er vert að skoða verðlagsmálin. Þau eru tvíþætt. Annars vegar gengisskráningin og svo það sem ræður kaupum á Íslandsferð. Gengisvísitala Seðlabankans stóð í um 156 stigum við afnám hafta 12. mars 2017. Samanborið við þegar verst lét 1. desember 2008, þegar vísitalan stóð í 249 stigum, er hér um að ræða umtalsverða styrkingu krónunnar. Þó er gengisvísitala ekki nærri því þegar hún fór lægst í nóvember 2005, eða 99 stig. Þá fjölgaði þó gistinóttum erlendra gesta um 10% milli áranna 2005 og 2006 og aftur milli 2006 og 2007. Fjölgun í talningu Ferðamálastofu var hins vegar innan skekkjumarka. Þessi ár er þó vart hægt að bera saman við núverandi stöðu, þá helst vegna stökkbreytingar í alþjóðlegri vitund um Ísland og stórbætt aðgengi að landinu, auk þess er harla ólíklegt að krónan nái þeim styrk sem hún hafði 2005. Í sumar munu 26 flugfélög fljúga til landsins og það sem helst ræður ákvörðun fólks um kaup á Íslandsferð er verð á flugmiðanum. Þá kemur að verðlaginu. Verð á þessum ráðandi kaupákvörðunarþætti er aðeins á niðurleið. Samkeppni í alþjóðlegu flugi vex stöðugt og flugiðnaðurinn er í örum vexti. Alþjóðasamband flugfélaga (IATA) spáir tvöföldun á farþegafjölda í flugi til 2035 og ISAVIA hér á landi virðist miða sín áform við það, en þeir gera ráð fyrir þreföldun á farþegafjölda um Keflavík til 2040 og byggja nú sem óðast til að mæta því. Markmið ISAVIA um Keflavík sem „Dúbaí norðursins“ og þróun flugborgar þar um kring tekur mið af þessari þróun í flugsamgöngum. Auk þess má nefna að styrking krónu gerir aðföng íslenskra flugfélaga ódýrari og því ættu þau að vera betur í stakk búin til að keppa um verð á flugi til Íslands. Flug til og frá Íslandi er almennt orðið ódýrt, enda fljúga 26 flugfélög hingað. Þá er bara spurning hvort fólk vilji koma, sér í lagi ef það berst út að hér sé ekki þverfótað fyrir öðrum túristum. Aftur er myndin öllu flóknari hér. Ferðafólk er nefnilega ekki einsleitur hópur. Margt bendir til þess að við séum búin að missa frá okkur þá gesti sem voru frumkvöðlar í Íslandsferðum, þeir sem vildu „uppgötva“ landið og vera fyrstir um víðernin. Þeir eru farnir til Grænlands, en mögulega hjara einhverjir á norðaustur- og vesturhornum landsins. Nú sækja aðrir gestir ferðaþjónustulandið Ísland, þeir sem hafa mun meira þol gagnvart öðrum gestum og taka ekkert endilega eftir því sem við köllum álag á náttúru. Tvö flugfélög sem fljúga til Íslands núna; SAS og FinnAir, byggja sitt alþjóðaflug á að tengja borgir í Austurlöndum fjær við Norðurlöndin. Þar er vaxandi hópur fólks sem getur og vill ferðast og kemst núna greiðlega til landsins. Sá hópur telur vart að um mergð sé að ræða á helstu ferðamannastöðum og sama gildir um marga aðra frá til að mynda Bandaríkjunum og víðar, sem vilja bara sjá stað sem telst merkilegur á heimsvísu. Sama gildir um okkur þegar við skoðum merkilega staði, ekki held ég að margir sleppi ferð til Parísar eða Prag af því að þar er svo mikið af túristum? Ef tvær og hálf milljón gesta koma í ár, þá verða hér eitthvað um sjö ferðamenn á hvern íbúa á ársgrundvelli. Þetta telst ekki mikið á sambærilegum stöðum sem byggja hagkerfi sitt á ferðaþjónustu líkt og við. Til að mynda voru í fyrra um 20 gestir á hvern íbúa Mæjorka og þar gengur ferðaþjónusta ágætlega þótt fólk telji hana vaxa aðeins of ört.

Línurit sem sýnir fjölgun flugfarþega um Keflavíkurflugvöll og fjölgun gistinátta útlendinga hér á landi.
- Free photo: Glacier, Iceland, Ice, Hiking - Free Image on Pixabay - 1261558. (Sótt 10.05.2017).
- ISAVIA, Ferðamálastofa, Hagstofa Íslands.