Mallorca er um 3.640 ferkílómetrar að flatarmáli sem jafngildir um 3,5% af flatarmáli Íslands. Samkvæmt upplýsingum frá spænsku hagstofunni (Instituto Nacional de Estadística) voru íbúar Mallorca um 778.000 í upphafi árs 2005. Þar af bjuggu um 376.000 í Palma de Mallorca sem er stærsta borgin á eyjunni og jafnframt höfuðborg Balear-eyja. Mallorca, ásamt öðrum eyjum Balear-eyjaklasans, hefur um langan tíma verið vinsæll áfangastaður Evrópumanna sem sækjast eftir sól, sandi og sjó og hafa ófáir Íslendingar lagt leið sína þangað. Balear-eyjar eru eitt af mörgum sjálfstjórnarhéruðum Spánar. Auk Balear-eyja eru sjálfstjórnarhéruðin: Andalúsía, Aragónía, Astúría, Baskaland, Kanaríeyjar, Kantabría, Kastilía‑La Mancha, Kastilía-León, Katalónía, Extremadúra, Galisía, Madríd, Múrsía, Navarra, La Rioja og Valensía. Heimildir og mynd:
- Majorca. (2006). Í Encyclopædia Britannica. Skoðað 13. október 2006, á Encyclopædia Britannica Online
- Mallorca á Wikipedia, the free encyclopedia
- Instituto Nacional de Estadística
- Mynd: Zentrale fur Unterrichtsmedien - Satellitengeographie im Unterricht