Hvers vegna styrkist gengi íslensku krónunnar við aukið innflæði gjaldeyris og aukningu gjaldeyrisforða Seðlabanka Íslands?Gjaldeyrir kemur inn í landið þegar erlendir aðilar kaupa vöru eða þjónustu af innlendum aðilum. Hinir erlendu aðilar greiða með gjaldeyri. Íslensku söluaðilarnir greiða starfsfólki sínu og birgjum í íslenskum krónum. Þeir snúa sér því til viðskiptabanka síns með ósk um að skipta erlenda gjaldeyrinum í íslenskar krónur. Innflutningsfyrirtæki sem kaupa erlendan varning af erlendum birgjum snúa sér einnig til viðskiptabanka sinna og falast eftir gjaldeyri í skiptum fyrir íslenskar krónur. Ef innstreymi gjaldeyris er í samræmi við útstreymi vegna innflutnings ríkir jafnvægi á gjaldeyrismarkaðnum og gengi krónunnar helst stöðugt. Ef sú staða skapast hins vegar að innstreymi er meira en útstreymið kemur að því að viðskiptabankarnir geta ekki orðið við óskum útflytjenda um að kaupa af þeim krónur vegna þess að bankarnir hafa ekki lausafé. Þeir geta orðið sér út um lausafé með því að taka lán hjá Seðlabankanum eða hjá öðrum fjármálastofnunum. Lánsfé er dýrt. Þess vegna verða viðskiptabankarnir að hækka verðið á íslensku krónunum, það er að segja viðskiptabankarnir eru nauðbeygðir til að fækka þeim krónum sem þeir borga útflytjendum fyrir hverja evru og hvern dal. Þannig fer saman aukið innflæði gjaldeyris og styrking krónunnar.

Gjaldeyrir kemur inn í landið þegar erlendir aðilar kaupa vöru eða þjónustu af innlendum aðilum. Hinir erlendu aðilar greiða með gjaldeyri. Íslensku söluaðilarnir greiða starfsfólki sínu og birgjum í íslenskum krónum. Þeir snúa sér því til viðskiptabanka síns með ósk um að skipta erlenda gjaldeyrinum í íslenskar krónur.
Gjaldeyrisforði Seðlabankans og sterk króna
Á móti skuld í íslenskum krónum við Seðlabankann kemur fram eign í evrum eða dölum sem viðskiptabankarnir geyma á reikningum í viðskiptabönkum sínum erlendis. Þær eignir teljast hluti af gjaldeyrisvarasjóði Íslands. Viðskiptabankarnir geta einnig farið þess á leit við Seðlabankann að hann kaupi af þeim gjaldeyri (og styrki þannig gjaldeyrisvarasjóð Seðlabankans í leiðinni). Seðlabankinn þarf að hafa í huga að með því að kaupa gjaldeyri af viðskiptabanka minnkar skuld viðskiptabankans við Seðlabankinn og Seðlabankinn verður af vaxtatekjum. Seðlabankinn tekur tillit til þessa vaxtateknataps með því að hækka verðið á krónunum sem hann kaupir af viðskiptabönkunum. Þannig fer saman aukinn gjaldeyrisforði þjóðarinnar (Seðlabankans) og sterkari króna.Vandinn við sterka krónu
Gefum okkur að laun dæmigerðs íslensks launamanns séu 6.000 krónur á tímaeiningu. Gefum okkur jafnframt að verðlag á einni kippu af Víking bjór sé 3.000 krónur. Gefum okkur að laun dæmigerðs þýsks launamanns séu 50 evrur á tímaeiningu og að kippa af Heineken bjór kosti 25 evrur. Hver evra kostar nú 120 krónur og þýskur launamaður getur keypt jafnmikið af Heineken og af Víking fyrir vinnulaunin sín. Sama á við um íslenska launamanninn. Nú hækkar gengi íslensku krónunnar þannig að evran kostar 100 krónur. Þýskur launamaður getur áfram keypt 2 kippur af Heineken fyrir 50 evrurnar sem hann fær í kaup. En hann getur ekki keypt nema 10 Víking bjóra. Kostnaður hans við bjórneyslu hækkar nema hann flytji neysluna alfarið yfir í neyslu á Heineken. Frá sjónarhóli íslenska launamannsins lítur dæmið þannig út að hann getur áfram keypt 2 kippur af Víking, en ef hann kýs heldur að kaupa Heineken getur hann keypt 2 kippur og tæplega tvo og hálfan bjór til viðbótar. Þetta er að sjálfsögðu ávinningur fyrir íslenska launamanninn, því hann getur haldið uppi óbreyttri bjórneyslu og greitt færri krónur fyrir ef hann eykur hlutdeild Heineken bjórs í bjórneyslu sinni og dregur úr neyslu á Víking bjór.
Styrking krónunnar verður til þess að samsetning framleiðslunnar breytist. Umfang útflutningsstarfsemi minnkar, umfang innflutningsstarfsemi og innlendrar þjónustu eykst.
- Eimskipafélag Íslands - Myndabanki. (Sótt 17.01.2017).
- Laugavegur | Jonas Forth | Flickr. Myndrétthafi er Jonas Forth. Myndin er birt undir Creative Commons-leyfi. (Sótt 17.01.2017).