Fjöll sem myndast við eldgos geta verið margskonar. Ef gosið stendur yfir mánuðum eða árum saman og upp kemur mikið þunnfljótandi hraun myndast dyngja, sem er flatur hraunskjöldur en ekki hátt fjall. Skjaldbreiður er stærsta dyngjan á Íslandi. Eldkeilur, eins og Öræfajökull og Snæfellsjökull, eru dæmi um aðra tegund eldfjalla. Eldkeilur myndast þegar oft gýs á sama staðnum en þá hlaðast upp strýtulaga eldfjöll þar sem hraun- og gjóskulög eru á víxl. Þetta er nánar útskýrt í svari við spurningunni Hvernig verða eldkeilur til? Jöklar geta líka myndað fjöll eða réttara sagt þá geta þeir grafið í sléttlendi (sem hefur myndast þegar hraun rann í eldgosum) og breytt því í fjöll og firði. Þannig hafa til dæmis firðirnir og fjöllin á Aust- og Vestfjörðum myndast. Hægt er að fræðast meira um þetta í svari við spurningunni Hvað er jökulrof? Jöklar koma líka við sögu við myndun móbergsstapa, eins og til dæmis Herðubreiðar, því móbergsstapar og móbergshryggir myndast við eldgos undir jökli eins og fram kemur í svarinu Voru eldgos algeng á ísöld? Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:
- Af hverju eru eldfjöll á Ítalíu?
- Hvað getið þið sagt mér um Himalajafjöll?
- Hvað eru til mörg eldfjöll?
- Hvernig myndaðist Hvalfjörður og hversu langt er síðan?
- Hvers konar fjall er Búrfell í Grímsnesi?
Þetta svar er að hluta eftir nemanda í Háskóla unga fólksins, röð námskeiða á vegum Háskóla Íslands fyrir 12-16 ára ungmenni í júnímánuði 2007.