Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Ítalinn Gíordanó Brúnó (1548-1600) var fjölhæfur fyrirlesari og afkastamikill rithöfundur. Hann var alls óhræddur við að halda á loft skoðunum sínum og þeim kenningum sem hann aðhylltist. Hugsun hans gekk gjarnan gegn viðurkenndum skoðunum samtímans. Oft var Brúnó því ekki vært nema stutt á sama stað og var hann á töluverðu flakki stóran hluta ævinnar.
Gíordanó Brúna (1548-1600).
Á árunum 1583 til 1585 var Brúnó á Englandi, í London en einnig í Oxford, þar sem hann flutti fyrirlestra um hinar nýju, róttæku kenningar hins pólska Kópernikusar um afstæða hreyfingu jarðarinnar: að jörðin gengi á braut umhverfis sólu, við lítinn skilning manna þar. Í febrúar 1584 var Brúnó boðið að heimsækja Oxford á ný til að ræða nánar hina nýju kenningu Kópernikusar. Umræðurnar enduðu í rifrildi og uppnámi. Nokkrum dögum síðar hóf Brúnó að semja sínar svonefndu Ítölsku umræður og hamaðist hann þar til komin voru sex rit, sem innihalda fyrstu kerfisbundnu lýsingu á heimspeki hans. Þrjú ritanna fjalla um heimsfræði, en hin þrjú um siðfræðileg efni.
Í ritinu Cena de le ceneri, eða Öskudagsmáltíð, lýsir hann enn og heldur fram sólmiðjukenningunni þar sem jörðin og reikistjörnurnar, Merkúr, Venus, Mars, Júpíter og Satúrnus ganga umhverfis sólu og mynda sólkerfi. En hann dregur jafnframt víðtækar ályktanir sem kalla mætti heljarstökk í sögu hugsunarinnar. Hann heldur því fram að alheimurinn sé óendanlegur, að stjörnurnar séu sólir og að í alheiminum séu óteljandi heimar á borð við sólkerfið, um sólirnar svífi hnettir á borð við jörðina. Í sama riti heldur hann fram skoðun sem Galíleó Galíleí lét í ljós síðar að fara skyldi eftir Biblíunni í siðferðilegum efnum en ekki miða við stjarnfræðilegar útlistanir í henni. Hann gagnrýndi ríkjandi siði í Englandi og sér í lagi smámunasemi fræðimannanna í Oxford.
Í hinum ritunum tveimur fjallaði hann um hina eðlisfræðilegu hlið á kenningum sínum um alheiminn, „form" og „efni" eru samslungin og mynda einn órjúfanlegan heim, „Hið Eina". Hann heldur fram einhyggju allrar tilveru, einingu alls í óendanlegum heimi. Hann fjallar betur um gagnrýni sína á eðlisfræði Aristótelesar eða útleggingu fræðimanna miðalda á henni. Hann fjallar um tengsl trúar og heimspeki, segir trúna leið til að leiðbeina og stjórna ófróðum, en heimspeki er fræði hinna fáu sem geta haft stjórn á sjálfum sér og öðrum.
Í hinum siðfræðilegu ritum sínum, sem Brúnó semur árið 1584 eftir deilur sínar við fræðimennina í Oxford, ræðst hann með háði á hindurvitni samtímamanna sinna, gagnrýnir kristna siðfræði og þá einkum kenningu kalvínista um hjálpræði mannsins fyrir trú eina. Brúnó heldur á loft trú á skynsemi mannsins þrátt fyrir vankanta hans og mistök. Í einu ritanna ræðir hann um mannssálina gagnvart alheimssálinni og kemst að þeirri niðurstöðu að mannssálin sé ekki að öllu leyti sjálfstæð heldur tengd alheimssálinni órjúfanlegum böndum. Þá fjallar síðasta ritið í þessum flokki um manninn, dyggð, sannleikann, og tengsl mannssálarinnar og hinnar óendanlegu einingar.
Ýtarlega er fjallað um ævi Giardano Bruno í svari sama höfundar við spurningunni Hver var Gíordanó Brúnó og hvað gerði hann?Mynd: