Ekki er hægt að segja að neinn tiltekinn maður hafi fundið Merkúríus, frekar en tunglið eða sólina, því að þessir himinhnettir hafa allir verið þekktir og sýnilegir svo lengi sem viti bornir menn hafa verið til. Þegar Merkúríus er á lofti í þokkalegu myrkri sést hann með berum augum víðast hvar á jörðinni, en að vísu ekki vel í misjöfnum veðrum hér á norðurslóð. Sunnar í álfum sést Merkúríus álíka vel og aðrar reikistjörnur sem menn hafa vitað af frá öndverðu, en þær eru samtals fimm: Merkúríus, Venus, Mars, Júpíter og Satúrnus. Á síðustu öldum hafa bæst við þennan hóp þrjár reikistjörnur sem sjást ekki með berum augum: Úranus, Neptúnus og Plútó. Og svo teljum við jörðina líka til reikistjarnanna nú á dögum þó að við sjáum hana ekki í þeirra hópi á himninum. Merkúríus hefur stundum verið kallaður 'Merkúr' á íslensku en það munu vera áhrif frá dönsku þar sem hann heitir 'Merkur'. Latneska heitið er 'Mercurius' og enska heitið 'Mercury'. Í seinni tíð hefur heitið 'Merkúríus' rutt sér til rúms meðal stjarnvísindamanna, samanber til dæmis Orðaskrá úr stjörnufræði eftir Orðanefnd Stjarnvísindafélags Íslands frá 1996. Hér á eftir fara nokkrar grunnstærðir um Merkúríus:
Meðalfjarlægt frá sólu | 57.900.000 km eða 0,387 AU |
Meðalumferðarhraði | 47,9 km/s |
Umferðartími | 87,969 dagar |
Snúningstími | 58,646 dagar |
Massi | 3,302*1023 kg |
Þvermál | 4.879 km |
Meðalhiti yfirborðs | 350°C á daginn, -170°C á næturna. |
Mynd: NASA - NSSDC Photo Gallery - Mercury