Sólin Sólin Rís 09:06 • sest 17:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 06:24 • Sest 16:46 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:17 • Síðdegis: 17:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:24 • Síðdegis: 23:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 09:06 • sest 17:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 06:24 • Sest 16:46 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:17 • Síðdegis: 17:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:24 • Síðdegis: 23:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað geturðu sagt mér um Satúrnus?

Sævar Helgi Bragason

Hér er einnig svarað eftirfarandi spurningum:

  • Hvenær fannst Satúrnus og af hverju heitir hún Satúrnus? (Fríða Guðrún f. 1989)
  • Hver er eðlismassi Satúrnusar og hvað er hann þungur? (Fríða Guðrún f. 1989)
  • Hvernig er Satúrnus frábrugðin hinum reikistjörnunum? (Harpa Gunnarsdóttir)
  • Hvernig er lofthjúpur Satúrnusar? (Sigurður Ingi Arnarsson f. 1987)



Satúrnus er næst stærsta reikistjarnan í sólkerfinu á eftir Júpíter og sú sjötta í fjarlægðarröðinni frá sólu. Fjarlægð Satúrnusar frá sólinni er að meðaltali um 1.429.400.000 km en það jafngildir 9,54 stjarnfræðeiningum. Þvermál Satúrnusar er 120.536 km sem er tíu sinnum meira en þvermál jarðar. Satúrnus er auk þess 95 sinnum massameiri en jörðin eða 5,685 * 1026 kg. Eitt Satúrnusarár er talsvert langt eða 29,42 jarðarár og það þrátt fyrir að hún ferðist með 9,7 km hraða á sekúndu um geiminn. Möndulhallinn er 25,33° og brautarhallinn miðað við sólkerfissléttuna er 2,4°.

Satúrnus heitir eftir guði landbúnaðar úr rómverskri goðafræði. Grísk hliðstæða hans var Krónos, faðir Seifs og sonur Úranusar og Gæju. Satúrnus er rót orðsins Saturday.

Forfeður okkar þekktu Satúrnus vel vegna þess hve hún er björt og fögur á næturhimninum og þar af leiðandi er ekki hægt að eigna uppgötvun hennar neinum. Hringirnir frægu uppgötvuðust þó ekki fyrr en í janúar árið 1610 þegar ítalski stjörnufræðingurinn Galíleó Galílei (1564-1642) horfði fyrstur manna á reikistjörnuna í gegnum sjónauka. Furðulegt en fallegt útlit Satúrnusar kom honum verulega á óvart. Í fyrstu taldi hann sig sjá tvær stjörnur hvor sínu megin við reikistjörnuna. Síðar kom í ljós að um gríðarmikla hringi var að ræða.



Fyrstu tilraunir manna til að rannsaka Satúrnus báru ekki ýkja mikinn árangur því að á nokkurra ára fresti sker jörðin hringjaflöt Satúrnusar, en samfara því breytist útlitið töluvert. Það var ekki fyrr en árið 1659 sem hollenska stjörnufræðingnum Christiaan Huygens (1629-95) tókst að mæla flatarmál hringjanna með einhverri vissu. Hringirnir voru taldir einstakir í sólkerfinu fram til ársins 1977 eða þar til daufir hringir uppgötvuðust um Úranus og stuttu síðar fundust hringir um Júpíter og Neptúnus.

Nokkur geimför hafa flogið framhjá Satúrnusi og eitt er á leið þangað. Fyrsta farið sem heimsótti Satúrnus var Pioneer 11 árið 1979 og í kjölfarið fylgdu Voyager förin tvö. Í þessum þremur ferðum varð bylting í þekkingu okkar á þessari furðulegu reikistjörnu og mun án efa aukast til muna þegar Cassini farið kemur á áfangastað árið 2004. Nánar má lesa um Cassini farið og litla Huygens farið sem er meðferðis í svari sama höfundar við spurningunni: Hvenær á Cassini að lenda á Títan?

Í sjónauka og á myndum sést greinilega að Satúrnus er pólflöt. Með því er átt við að þvermál hennar milli póla er minna en þvermálið um miðbaug og er munurinn um 10%, eða 120.536 km á móti 108.728 km. Ástæðuna fyrir þessum mikla mun er að finna í hröðum möndulsnúningi og miðsóknarkraftinum sem hann orsakar. Á þessari stóru reikistjörnu er einn Satúrnusardagur 10 klukkustundir og 39 mínútur. Hinar reikistjörnurnar pólfletjast einnig, en ekki jafn mikið; gas- og vatnsrisarnir meira en þær sem eru úr fastari efnum.

Satúrnus er eðlisléttasta reikistjarna sólkerfisins en eðlismassinn er aðeins 30% af eðlismassa vatns.

Lofthjúpur Satúrnusar er aðallega vetni og helíum ásamt metani. Þar sem Satúrnus er svo langt frá sólinni er hitastigið þar ekki nema -125°C. Á myndum sjást greinilega ský í lofthjúpnum sem líkjast skýjabeltum Júpíters, en þó mun daufari. Hvítu skýin verða ríkjandi í þessum kulda en rauð og litríkari ský eru dýpra í lofthjúpnum svo þau sjást ekki. Miklir vindar leika um skýin og blása þeir annaðhvort í vestur eða austur eftir breiddargráðum. Meðalvindhraðinn er ef til vill um 120 metrar á sekúndu en við miðbaug getur hann þó náð meira en 500 metrum á sekúndu.

Innviðir Satúrnusar eru á margan hátt líkir innviðum Júpíters. Ytri lög Satúrnusar eru aðallega úr vetni í gasham en eftir því sem við köfum dýpra inn að miðju Satúrnusi, eykst þrýstingurinn í 100.000 bör og gasið verður fljótandi. Enn innar og við 1.000.000 bara þrýsting verður ástandsbreyting á vetninu og líkist það þá bráðnum málmi en þetta gerist hálfa leið frá kjarnanum. Handan þessa lags er íslag. Íslagið er blanda af fljótandi vatni, metani og ammóníaki undir miklum hita og þrýstingi. Í miðjunni er svo berg eða berg-ís kjarni.

Hringirnir eru að sjálfsögðu helsta einkenni Satúrnusar. Óhætt er að fullyrða að þeir séu hinir mikilfenglegustu í sólkerfinu. Frá jörðinni sjást tveir áberandi hringir, A og B, og einn daufari, C. Í gegnum sjónauka sést greinilegt bil milli A og B hringjanna sem kallast Cassinibilið og í ytri hluta A hringsins er daufara bil sem nefnist Enckebilið. Lesa má nánar um hringi Satúrnusar í svari sama höfundar við spurningunni: Af hverju er Satúrnus með hringi utan um sig?

Umhverfis Satúrnus ganga að minnsta kosti 30 tungl. Stærsta tunglið heitir Títan sem einnig er næst stærsta tungl sólkerfisins á eftir Ganýmedesi. Nánar má lesa um tunglin í svari Ögmundar Jónssonar við spurningunni: Hvað heita öll tungl Satúrnusar?

Satúrnus sést auðveldlega með berum augum á næturhimninum. Satúrnus er gullleit, ekki nærri eins björt og Júpíter en aðvelt er að aðgreina hana frá stjörnuskaranum. Í gegnum lítinn stjörnusjónauka, eða jafnvel góðan handsjónauka, er auðvelt að greina hringinn og stærri tungl kerfisins, þar á meðal stærsta tunglið Títan. Satúrnus er án nokkurs vafa eitt fegursta fyrirbæri himinsins og í hvert skipti sem einhver sér hana í fyrsta sinn gegnum sjónauka, leynir aðdáunin sér ekki. Sér þá fólk hver hinn raunverulegi Hringadróttinn er.

Myndir:Heimildir:
  • Beatty, J. K., og A. Chaikin (ritstj). The New Solar System. Sky Publishing House, Bandaríkin/England 1990.
  • Freedman, R. A. og Kaufmann, W. J.. Universe, 5. útgáfa. New York, W. H. Freedman and Company. 1998.
  • Pasachoff, Jay. Astronomy: From the Earth to the Universe. Massachusets, Saunders College Publishing, 1998. Fimmta útgáfa.
  • Weissmann, P. R., McFadden, L. (ritstj). Encyclopedia of the Solar System. New York, Academic Press, 1990.

Höfundur

Sævar Helgi Bragason

stjörnufræðikennari

Útgáfudagur

3.7.2002

Spyrjandi

Eva Dís Guðmundsdóttir

Tilvísun

Sævar Helgi Bragason. „Hvað geturðu sagt mér um Satúrnus?“ Vísindavefurinn, 3. júlí 2002, sótt 30. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=2557.

Sævar Helgi Bragason. (2002, 3. júlí). Hvað geturðu sagt mér um Satúrnus? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=2557

Sævar Helgi Bragason. „Hvað geturðu sagt mér um Satúrnus?“ Vísindavefurinn. 3. júl. 2002. Vefsíða. 30. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=2557>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað geturðu sagt mér um Satúrnus?
Hér er einnig svarað eftirfarandi spurningum:

  • Hvenær fannst Satúrnus og af hverju heitir hún Satúrnus? (Fríða Guðrún f. 1989)
  • Hver er eðlismassi Satúrnusar og hvað er hann þungur? (Fríða Guðrún f. 1989)
  • Hvernig er Satúrnus frábrugðin hinum reikistjörnunum? (Harpa Gunnarsdóttir)
  • Hvernig er lofthjúpur Satúrnusar? (Sigurður Ingi Arnarsson f. 1987)



Satúrnus er næst stærsta reikistjarnan í sólkerfinu á eftir Júpíter og sú sjötta í fjarlægðarröðinni frá sólu. Fjarlægð Satúrnusar frá sólinni er að meðaltali um 1.429.400.000 km en það jafngildir 9,54 stjarnfræðeiningum. Þvermál Satúrnusar er 120.536 km sem er tíu sinnum meira en þvermál jarðar. Satúrnus er auk þess 95 sinnum massameiri en jörðin eða 5,685 * 1026 kg. Eitt Satúrnusarár er talsvert langt eða 29,42 jarðarár og það þrátt fyrir að hún ferðist með 9,7 km hraða á sekúndu um geiminn. Möndulhallinn er 25,33° og brautarhallinn miðað við sólkerfissléttuna er 2,4°.

Satúrnus heitir eftir guði landbúnaðar úr rómverskri goðafræði. Grísk hliðstæða hans var Krónos, faðir Seifs og sonur Úranusar og Gæju. Satúrnus er rót orðsins Saturday.

Forfeður okkar þekktu Satúrnus vel vegna þess hve hún er björt og fögur á næturhimninum og þar af leiðandi er ekki hægt að eigna uppgötvun hennar neinum. Hringirnir frægu uppgötvuðust þó ekki fyrr en í janúar árið 1610 þegar ítalski stjörnufræðingurinn Galíleó Galílei (1564-1642) horfði fyrstur manna á reikistjörnuna í gegnum sjónauka. Furðulegt en fallegt útlit Satúrnusar kom honum verulega á óvart. Í fyrstu taldi hann sig sjá tvær stjörnur hvor sínu megin við reikistjörnuna. Síðar kom í ljós að um gríðarmikla hringi var að ræða.



Fyrstu tilraunir manna til að rannsaka Satúrnus báru ekki ýkja mikinn árangur því að á nokkurra ára fresti sker jörðin hringjaflöt Satúrnusar, en samfara því breytist útlitið töluvert. Það var ekki fyrr en árið 1659 sem hollenska stjörnufræðingnum Christiaan Huygens (1629-95) tókst að mæla flatarmál hringjanna með einhverri vissu. Hringirnir voru taldir einstakir í sólkerfinu fram til ársins 1977 eða þar til daufir hringir uppgötvuðust um Úranus og stuttu síðar fundust hringir um Júpíter og Neptúnus.

Nokkur geimför hafa flogið framhjá Satúrnusi og eitt er á leið þangað. Fyrsta farið sem heimsótti Satúrnus var Pioneer 11 árið 1979 og í kjölfarið fylgdu Voyager förin tvö. Í þessum þremur ferðum varð bylting í þekkingu okkar á þessari furðulegu reikistjörnu og mun án efa aukast til muna þegar Cassini farið kemur á áfangastað árið 2004. Nánar má lesa um Cassini farið og litla Huygens farið sem er meðferðis í svari sama höfundar við spurningunni: Hvenær á Cassini að lenda á Títan?

Í sjónauka og á myndum sést greinilega að Satúrnus er pólflöt. Með því er átt við að þvermál hennar milli póla er minna en þvermálið um miðbaug og er munurinn um 10%, eða 120.536 km á móti 108.728 km. Ástæðuna fyrir þessum mikla mun er að finna í hröðum möndulsnúningi og miðsóknarkraftinum sem hann orsakar. Á þessari stóru reikistjörnu er einn Satúrnusardagur 10 klukkustundir og 39 mínútur. Hinar reikistjörnurnar pólfletjast einnig, en ekki jafn mikið; gas- og vatnsrisarnir meira en þær sem eru úr fastari efnum.

Satúrnus er eðlisléttasta reikistjarna sólkerfisins en eðlismassinn er aðeins 30% af eðlismassa vatns.

Lofthjúpur Satúrnusar er aðallega vetni og helíum ásamt metani. Þar sem Satúrnus er svo langt frá sólinni er hitastigið þar ekki nema -125°C. Á myndum sjást greinilega ský í lofthjúpnum sem líkjast skýjabeltum Júpíters, en þó mun daufari. Hvítu skýin verða ríkjandi í þessum kulda en rauð og litríkari ský eru dýpra í lofthjúpnum svo þau sjást ekki. Miklir vindar leika um skýin og blása þeir annaðhvort í vestur eða austur eftir breiddargráðum. Meðalvindhraðinn er ef til vill um 120 metrar á sekúndu en við miðbaug getur hann þó náð meira en 500 metrum á sekúndu.

Innviðir Satúrnusar eru á margan hátt líkir innviðum Júpíters. Ytri lög Satúrnusar eru aðallega úr vetni í gasham en eftir því sem við köfum dýpra inn að miðju Satúrnusi, eykst þrýstingurinn í 100.000 bör og gasið verður fljótandi. Enn innar og við 1.000.000 bara þrýsting verður ástandsbreyting á vetninu og líkist það þá bráðnum málmi en þetta gerist hálfa leið frá kjarnanum. Handan þessa lags er íslag. Íslagið er blanda af fljótandi vatni, metani og ammóníaki undir miklum hita og þrýstingi. Í miðjunni er svo berg eða berg-ís kjarni.

Hringirnir eru að sjálfsögðu helsta einkenni Satúrnusar. Óhætt er að fullyrða að þeir séu hinir mikilfenglegustu í sólkerfinu. Frá jörðinni sjást tveir áberandi hringir, A og B, og einn daufari, C. Í gegnum sjónauka sést greinilegt bil milli A og B hringjanna sem kallast Cassinibilið og í ytri hluta A hringsins er daufara bil sem nefnist Enckebilið. Lesa má nánar um hringi Satúrnusar í svari sama höfundar við spurningunni: Af hverju er Satúrnus með hringi utan um sig?

Umhverfis Satúrnus ganga að minnsta kosti 30 tungl. Stærsta tunglið heitir Títan sem einnig er næst stærsta tungl sólkerfisins á eftir Ganýmedesi. Nánar má lesa um tunglin í svari Ögmundar Jónssonar við spurningunni: Hvað heita öll tungl Satúrnusar?

Satúrnus sést auðveldlega með berum augum á næturhimninum. Satúrnus er gullleit, ekki nærri eins björt og Júpíter en aðvelt er að aðgreina hana frá stjörnuskaranum. Í gegnum lítinn stjörnusjónauka, eða jafnvel góðan handsjónauka, er auðvelt að greina hringinn og stærri tungl kerfisins, þar á meðal stærsta tunglið Títan. Satúrnus er án nokkurs vafa eitt fegursta fyrirbæri himinsins og í hvert skipti sem einhver sér hana í fyrsta sinn gegnum sjónauka, leynir aðdáunin sér ekki. Sér þá fólk hver hinn raunverulegi Hringadróttinn er.

Myndir:Heimildir:
  • Beatty, J. K., og A. Chaikin (ritstj). The New Solar System. Sky Publishing House, Bandaríkin/England 1990.
  • Freedman, R. A. og Kaufmann, W. J.. Universe, 5. útgáfa. New York, W. H. Freedman and Company. 1998.
  • Pasachoff, Jay. Astronomy: From the Earth to the Universe. Massachusets, Saunders College Publishing, 1998. Fimmta útgáfa.
  • Weissmann, P. R., McFadden, L. (ritstj). Encyclopedia of the Solar System. New York, Academic Press, 1990.

...