Þessar spurningar eru í rauninni að verulegu leyti heimspekilegs eðlis; þær snúast um merkingu orðanna, eðli hugsunarinnar og um gildi og takmarkanir reynslunnar. Þegar grannt er skoðað merkir orðið „alheimur“ í rauninni allt það sem við getum nokkurn tímann séð eða skynjað. Það að alheimurinn sé endanlegur að stærð merkir einmitt að við getum aldrei séð eða skynjað neitt fyrir utan hann. Það að aldur hans sé endanlegur, hann hafi orðið til á ákveðnum tíma, merkir í rauninni að við getum aldrei séð eða skynjað neitt sem „var“ þar á undan.Þetta þýðir að við getum ekkert sagt um það sem ætti að vera utan alheimsins. Það er ekkert, í ströngum skilningi þess orðs. Þrátt fyrir þetta getur verið að alheimurinn sé bæði endanlegur og endalaus. Þorsteinn Vilhjálmsson útskýrir þetta í fyrrnefndu svari sínu:
Hugsum okkur að við séum stödd á einhverjum stað á yfirborði jarðar og förum þaðan í hánorður þar til við komum á Norðurpólinn og síðan beint áfram í suður til Suðurpóls og enn beint áfram en nú til norðurs. Við munum þá að lokum enda á sama stað og við fórum frá eftir að hafa farið heilan hring á yfirborði jarðar. Við höfum þá farið endanlega, tiltekna vegalengd og ferðin hefur tekið ákveðinn tíma en hún hefur samt verið endalaus í þeim skilningi að við komum aldrei að neinum endimörkum þar sem við þurftum til dæmis að snúa við. Alheimurinn gæti verið eins konar kúla í svipuðum skilningi og hér er lýst. Í stærðfræði væri því lýst á þá leið að þrívíða rúmið sem við lifum í sé í rauninni yfirborð kúlu í fjórum víddum. Þetta mundi til dæmis koma fram ef við færum í óralanga ferð beint af augum í tiltekna stefnu. Þá gæti verið að við kæmum aftur til sólkerfisins okkar og jarðarinnar úr gagnstæðri átt, svipað og í ferðinni kringum jörðina sem áður var nefnd.Sé þessu þannig varið hefur alheimurinn hvorki upphaf né endi og er því endanlegur og endalaus á sama tíma. Við vitum jafnframt að alheimurinn er að þenjast út og er því sífellt að stækka. Tryggvi Þorgeirsson segir um þetta í svari sínu við spurningunni Hvernig varð alheimurinn til?
Alheimurinn er stöðugt að þenjast út. Að þessari niðurstöðu komst bandaríski stjörnufræðingurinn Edwin Hubble fyrstur manna á þriðja áratugnum. Hann veitti því athygli við athuganir á fjarlægum vetrarbrautum að ljósið frá þeim bar merki þess að þær væru að fjarlægjast jörðina. Í ljós kom að þeim mun fjarlægari sem vetrarbrautirnar eru, þeim mun hraðar fjarlægjast þær okkur.Vísindamenn eru flestir sammála um að alheimurinn hafi verið að þenjast út frá því Miklihvellur varð fyrir um 15 milljörðum ára. Helstu vísindamenn á þessu sviði telja að þeir geti þó ekki sagt til um það hvort alheimurinn sé endanlegur eða óendanlegur og eru jafnframt óvissir um að það verði nokkurn tíma mögulegt. Flestir þeirra hallast að því í dag að alheimurinn sé sléttur eða evklíðskur sem kallað er og geti því haldið áfram að þenjast út um ókomna tíð. Þetta þýðir hins vegar að alheimurinn getur bæði verið óendanlegur og endanlegur, en ef hann er sífellt að stækka gæti hann verið endanlegur núna en orðið óendanlegur í ófyrirsjánlegri framtíð. Það er því ljóst að hér erum við að velta fyrir okkur flóknum spurningum þar sem svörin liggja jafnvel utan mannlegs skilnings. Með frekari rannsóknum gætum við þó hugsanlega sett saman betri og heildstæðari mynd af alheiminum þó að ólíklegt sé að við munum nokkurn tíma skilja til fullnustu þá krafta sem hér eru að verki. Frekari upplýsingar um alheiminn má meðal annars finna í eftirfarandi svörum:
- Er alheimurinn endalaus? Ef ekki, hvar eru þá mörkin og hvað er hinumegin?
- Hver er miðpunktur alheimsins?
- Er alheimurinn bara eitt sólkerfi eða út um allt?
- Hvernig verkar afstæðiskenning Einsteins? Hvernig getur hún útskýrt betur hvað er að gerast í alheiminum?
- Er alltaf jafnmikið af efni í alheiminum?
- Hvenær varð heimurinn til?
Nánari upplýsingar má svo finna með því að nota leitarvél Vísindavefsins eða með því að smella á efnisorðin hér fyrir neðan.