Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Nikulás Kópernikus fæddist 19. febrúar 1473 í borginni Torun sem nú er ekki fjarri miðju Póllands. Borgin var í Hansasambandinu á þessum tíma, mikilvæg viðskiptamiðstöð og vellauðug.
Átján ára að aldri fór Kópernikus til náms við háskólann í Krakow, en hann er meðal elstu háskóla í Evrópu og naut mikillar virðingar. Meðal annars var stjörnufræði þar í hávegum og er talið að þar hafi Kópernikus fengið áhuga á þeirri fræðigrein. Hann dvaldist í þrjú ár í Krakow og hélt nokkru síðar suður til Ítalíu til náms í kirkjurétti við háskólann í Bologna. Þar bjó hann hjá þekktum prófessor í stjörnuspeki, Dominico Maria di Novara (1454-1504), og voru því hæg heimatökin að halda áfram með stjörnufræðina jafnframt öðrum fræðaiðkunum. Eftir fjögur ár sneri Kópernikus aftur heim, án prófa. Móðurbróðir hans sem var biskup í Varmíu (Ermlandi) hafði þá útvegað honum hagstætt kanúkaembætti við dómkirkjuna í Frombork sem var höfuðborg héraðsins. Hann fékk síðan leyfi til að fara aftur til Ítalíu og stundaði þá læknanám við háskólann í Padúa frá 1501, en hélt svo til Ferrara og lauk þar doktorsprófi í kirkjurétti árið 1503.
Að náminu loknu tók Kópernikus til starfa í þágu katólsku kirkjunnar í Póllandi og var hennar þjónn æ síðan. Hann gat sér gott orð sem læknir og einnig sem stjörnufræðingur sem birtist til að mynda í því að til hans var leitað þegar páfastóll fór að hugsa til þess að endurbæta júlíanska tímatalið. Sömuleiðis naut hann trausts í stjórnunarstörfum og gerði meðal annars tillögur um endurskoðun á myntsláttu í landinu, og var þeim fylgt með góðum árangri.
Lítillega fékkst Kópernikus við ritstörf og gaf árið 1509 út latneska þýðingu sína á ljóðabréfum eftir grískumælandi skáld. Vinur hans orti um hann kvæði með bókinni eins og þá var siður, og getur þess þá í framhjáhlaupi að þýðandinn hafi fengið merkilegar hugmyndir um stjörnufræði. Einkalíf Kópernikusar var að mestu tíðindalaust og hann var að sjálfsögðu ókvæntur eins og vera ber um katólskan klerk, en leyfði sér á efri árum að hafa ráðskonu þangað til hneykslunargjarn biskup tók í taumana. Er talið að það hafi fengið allmjög á gamla manninn.
Kópernikus fór að öllu með gát þegar hann tók að kynna öðrum nýstárlegar hugmyndir sínar um sólkerfið. Fyrst dreifði hann stuttu handriti án titils og höfundarnafns, en það var síðar nefnt Commentariolus. Þar setur hann fram ágrip af sólmiðjukenningu sinni í frumútgáfu á innan við 20 síðum og án stærðfræði. Hefur verið mjög á huldu hvenær þetta gerðist, en nú er talið að Kópernikus hafi stigið þetta skref á árunum 1511-13.
Málverkið Stjörnufræðingurinn Kópernikus: Samtal við Guð eftir Matejko.
Talið er að Kópernikus hafi byrjað að vinna að bókinni Um snúninga himinhvelanna um 1517 og verkinu hafi í raun verið lokið um 1532. Hann fór sér þó að engu óðslega um prentun og munu þá sumir tala um kjarkleysi en aðrir um gætni − og má einu gilda. Svo mikið er víst að honum var mikið í mun að gera verkið sem best úr garði og var sífellt að endurbæta það og fága svo að það gæti orðið sem traustast. Minnir sú saga á hegðun Charles Darwins við svipaðar aðstæður, enda má Guð vita hvort verk þessara manna hefðu haft eins mikil áhrif, ef þeir hefðu ekki vandað svo þrákelknislega til þeirra.
Um nafnið á bók Kópernikusar, De revolutionibus orbium caelestium, segir bandaríski fræðimaðurinn Edward Rosen:
... orbium, þriðja orðið í latneska heitinu á bókinni Um snúningana táknar þar ekki himinhnetti, ... heldur hin (ímynduðu) ósýnilegu hvel sem hreyfðu sýnilegu himinhnettina samkvæmt þeim hugmyndum um heimsmyndina sem Forngrikkir settu fram og voru enn í fullu gildi fyrir Kópernikusi og samtíðarmönnum hans. (Kópernikus: 1992)
Vorið 1539 kom í heimsókn til Kópernikusar ungur fræðimaður, Georg Joachim (1514-1574), öðru nafni Rheticus, prófessor við háskólann í Wittenberg í Þýskalandi. Rheticus fékk mikinn áhuga á riti Kópernikusar og hvatti hann til að láta prenta það. Jafnframt fékk hann leyfi Kópernikusar til að semja ágrip eða lýsingu á verkinu og gefa hana út sem eins konar undanfara. Kom sú bók hans út þegar á árinu 1540 og bar heitið Fyrsta frásögn af bókum snúninganna (Narratio Prima). Hún fór víða og vakti athygli fræðimanna, enda miklu læsilegra og aðgengilegra rit en fyrirmyndin.
Eftir talsverðar fortölur fékk Rheticus Kópernikus til að samþykkja að láta prenta höfuðritið sjálft, eftir að hann hafði enn aukið við það og lagfært. Prentunin fór fram í Nürnberg og sá Rheticus um hana langleiðina, enda var heilsu Kópernikusar þá tekið að hraka. Á lokaspretti prentunarinnar lenti umsjón verksins hins vegar í höndunum á Andreasi Osiander (1498-1552) sem var einn af þekktustu guðfræðingum mótmælenda. Hann hafði áður skrifast á við Kópernikus og meðal annars ráðlagt honum að færa kenningar sínar í annan búning til að sneiða hjá andstöðu kirkjunnar. Þorsteinn Sæmundsson segir svo frá þessu:
Mælti Osiander með því, að Kóperníkus skrifaði formála, þar sem hann legði áherslu á, að stjörnufræðilegar kenningar væru ekki trúaratriði, heldur eingöngu hjálpartæki til að auðvelda stjörnufræðilega útreikninga. Kenningarnar segðu því ekki endilega til um það, hvernig hlutunum væri háttað í raun og veru, heldur væri tilgangur þeirra sá, að gefa sem nákvæmasta lýsingu á því, hvernig hlutirnir sýndust vera. Þetta virðist hafa verið skoðun Osianders, en Kóperníkusi var hún fjarri skapi. Hann trúði því fastlega, að hann hefði fundið hinn eina og sanna gang himintunglanna, en ekki eitthvert þægilegt reikningskerfi. (Þorsteinn Sæmundsson: 1973)
Þótt Kópernikus vildi ekki ganga eins langt til móts við hefðbundnar skoðanir og Osiander lagði til, viðhafði hann ýmiss konar varúðarráðstafanir í diplómatískum stíl. Meðal annars tileinkaði hann rit sitt Páli þriðja páfa með sérstöku formálsávarpi.
Fyrsta prentaða eintakið af bókinni miklu Um snúninga himintunglanna barst höfundinum þar sem hann lá á banabeði. Segir sagan að hann hafi ekki lengur verið með rænu þegar hann fékk bókina í hendur. Kannski var það líka eins gott, því að dularfullur formáli hafði bæst við bókina eins og hún hafði farið frá hans hendi. Formálinn var nafnlaus og leit út við fyrstu sýn eins og hann væri eftir Kópernikus sjálfan. Þó var sú missmíð á að í textanum var borið lof á „höfund bókarinnar“ í þriðju persónu.
Formálinn er annars í samræmi við þau sjónarmið Osianders sem lýst var hér á undan. Vakti hann því í fyrstu miklar deilur um það, hvort Kópernikus hefði sjálfur trúað á kenningar sínar sem lýsingu á raunveruleikanum eður ei. Þær deilur hjöðnuðu þó síðar þegar ljóst varð að Kópernikus hafði alls ekki skrifað þennan formála sjálfur, heldur var hann verk Osianders sem hefur þar með tryggt sér allsérstæðan sess í hugmyndasögunni, þótt hann hafi sjálfsagt viljað vel.
Nikulás Kópernikus lést 24. maí árið 1543, þá sjötugur að aldri.
Heimildir:
Kópernikus, Nikulás, 1985. Complete Works, Vol. 3: Minor Works. Ensk þýðing Edward Rosen með Erna Hilfstein. London: MacMillan.
Kópernikus, Nikulás, 1992. Complete Works, Vol. 2: On the Revolutions. Ensk þýðing og athugasemdir eftir Edward Rosen, nýr inngangur eftir Erna Hilfstein. London: MacMillan og Polish Science Publications. [Endurprentun á útgáfu frá 1978].
Þorsteinn Sæmundsson, 1973. „Kópernikus, ævi hans og afrek“. Andvari 98, bls. 104-125.
Þorsteinn Vilhjálmsson, 1986. Heimsmynd á hverfanda hveli I. Reykjavík: Mál og menning. [Þetta svar er að miklu leyti byggt á þessari bók].
Þorsteinn Vilhjálmsson og Ívar Daði Þorvaldsson. „Hvað getið þið sagt mér um ævi Nikulásar Kópernikusar?“ Vísindavefurinn, 8. júlí 2011, sótt 3. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=60196.
Þorsteinn Vilhjálmsson og Ívar Daði Þorvaldsson. (2011, 8. júlí). Hvað getið þið sagt mér um ævi Nikulásar Kópernikusar? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=60196
Þorsteinn Vilhjálmsson og Ívar Daði Þorvaldsson. „Hvað getið þið sagt mér um ævi Nikulásar Kópernikusar?“ Vísindavefurinn. 8. júl. 2011. Vefsíða. 3. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=60196>.