Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Dagatalið var í fyrstu tæki til að greina á milli hátíðis- og hvíldardaga og vinnudaga bænda. Hjá Rómverjum til forna hófst árið í mars. Elstu heimildir um tímatal Rómverja greina frá því að þá hafi árið (lat. annus) verið fjórir mánuðir sem báru nöfn sem við þekkjum úr rómverskri goðafræði: Mars, apríl, maí og júní. Vikan var átta dagar og í hverjum mánuði voru 30 dagar. Rómverska árið var þess vegna 15 vikur og 120 dagar. Seinna bættust við sex mánuðir:
quintilis
sextilis
september
október
nóvember
desember
Nöfn þessara mánaða þýða einfaldlega fimmti, sjötti, sjöundi, áttundi, níundi og tíundi sem kemur heim og saman ef við höfum í huga að árið hófst í mars.
Eftir þessa viðbót var rómverska árið þess vegna 300 dagar. Til að hvert ár hæfist alltaf á sama degi var einum degi bætt við mánuðina mars, maí, sextilis (júlí) og október. Þá var árið orðið 304 dagar en talan átta, það er fjöldi daga í viku, gengur upp í hana.
En hvað þá með "afganginn" af árinu, því við vitum jú að árstíðaárið er töluvert lengra en 304 dagar? Rómverjar höfðu einfaldlega ekkert heiti yfir hann; tímabilið frá desemberlokum til marsbyrjunar leið bara án þess að bera sérstök mánaðaheiti. Ein skýring á því er að þá voru akrar bændanna hvíldir; árið hófst síðan í mars þegar sáð var í akrana. Meiri þörf var á að telja daga og vikur þegar bændurnir störfuðu en þegar lítið var um að vera. Þessu mætti líkja við það að við legðum niður mánaðaheitin júní og júlí því þá ættu allir að fara í sumarfrí. Tímabilið frá maílokum til ágústbyrjunar liði vitanlega en við vildum ekki þreyta okkur á því að fylgjast svo grannt með því, enda værum við í fríi!
Rómverskt dagatal með tólf mánuðum ásamt einum aukamánuði.
Einhvern tíma um árið 700 f. Kr. var síðan tveimur mánuðum bætt við hina tíu, það er janúar og febrúar. Þetta tveggja mánaða tímabil var látið ná yfir 50 daga að viðbættum átta dögum sem dregnir voru af hinum mánuðunum. Janúar og febrúar voru þess vegna 29 dagar. Um árið 150 f. Kr. var einum degi bætt við janúar, ef til vill til þess að heildarfjöldi daga í ári væri oddatala, en það var talið til heilla. Rómverska árið var þá orðið 355 dagar en til þess að það samræmdist betur árstíðaárinu bættu Rómverjar við einum mánuði annað hvert ár sem í voru 22-23 dagar. Þessum viðbótarmánuði var bætt við eftir 23. febrúar.
Um sama leyti var upphaf ársins fært til fyrsta janúar. Þetta gerðist sem sagt nokkru fyrir tíð Sesars, en hann fæddist um 100 f. Kr. og dó árið 44 f. Kr. Hægt er að lesa meira um Sesar í svari við spurningunni Hver stjórnaði morðinu á Júlíusi Sesari? Af hverju ársbyrjunin var færð til er ekki alveg vitað. Ef til vill var það vegna þess að janúarbyrjun var nálægt vetrarsólstöðum þegar nóttin er lengst, 20.-23. desember, en eftir það fer daginn að lengja og þá fer að styttast í marsmánuðinn sem markaði áður upphaf ársins.
Sesar gerði nokkrar breytingar á tímatalinu og um þær má lesa í svari Þorsteins Sæmundssonar við spurningunni Hvað veldur óreglunni í dagafjölda almanaksmánaðanna í tímatali okkar?
Tímatal Sesars nefnist júlíanska tímatalið en nú styðjumst við við svonefnt gregoríanskt tímatal, sem innleitt var af Gregoríusi páfa 13. árið 1582 e. Kr.
Við sjáum af þessu að ýmsar breytingar á tímatalinu hafa verið gerðar og ástæðurnar fyrir því geta verið margvíslegar. Til að tímatal gegni sínu hlutverki vel er ákjósanlegt að lengd ársins fari sem næst árstíðaárinu. Með gregoríanska tímatalinu varð árið 365,2425 dagar, en það fer mjög nærri árstíðaárinu sem er 365,2422 dagar.
Við bendum lesendum á að smella á efnisorðið tímatal hér til hliðar til að fræðast meira um efnið.
Heimildir og mynd
Aveni, Anthony, Empire of Time: Calendars, Clocks, and Cultures, London 1990.
Jón Gunnar Þorsteinsson. „Af hverju lét Júlíus Sesar árið byrja á janúar?“ Vísindavefurinn, 4. apríl 2006, sótt 3. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=5777.
Jón Gunnar Þorsteinsson. (2006, 4. apríl). Af hverju lét Júlíus Sesar árið byrja á janúar? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=5777
Jón Gunnar Þorsteinsson. „Af hverju lét Júlíus Sesar árið byrja á janúar?“ Vísindavefurinn. 4. apr. 2006. Vefsíða. 3. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=5777>.