
Aristóteles var uppi fyrir tæpum 2400 árum en áætlað er að aðeins um fjórðungur ritverka hans sé varðveittur.
Því ekkert stendur í vegi fyrir því að einhver hefði sagt fyrir tíuþúsund árum síðan að þetta myndi verða, en annar hefði neitað því, þannig að hvað svo sem var satt að segja þá verður af nauðsyn. En auðvitað breytir það engu hvort einhverjir sögðu þessar gagnstæðu staðhæfingar eða ekki. Það liggur í augum uppi að svona eru hlutirnir, jafnvel þótt annar hefði ekki fullyrt og hinn neitað. Því ekki verður það eða verður ekki vegna þess að það var fullyrt eða því neitað að það myndi verða, og ekki frekar vegna tíuþúsund ára en hvaða tíma annars sem vera skal. Af því leiðir að ef þetta var svona á öllum tímum, þannig að annar sagði satt, þá var nauðsynlegt að þetta myndi gerast, og að allt sem gerist er ávallt þannig að það gerist af nauðsyn; því það sem einhver sagði sannlega að yrði, getur ómögulega ekki orðið, og ætíð var satt, að segja um það sem gerist, að það myndi gerast.[7]Ef allar staðhæfingar eru annaðhvort sannar eða ósannar, líka staðhæfingar um framtíðina, þá er staðhæfingin „Það verður sjóorrusta á morgun“ líka annaðhvort sönn eða ósönn. Ef hún er sönn, þá er óhugsandi að það verði ekki sjóorrusta á morgun en ef hún er ósönn þá er óhugsandi að það verði sjóorrusta á morgun. Það sama gildir þótt staðhæfingin hefði verið sögð fyrir tíuþúsund árum og líka þótt hún hafi aldrei verið sögð; eftir sem áður gildir að ef það var eða hefði verið, einhvern tímann í fortíðinni, satt að segja að á þessum tiltekna degi yrði sjóorrusta, þá er óhugsandi annað en að það yrði sjóorrusta á þessum degi. Þetta er vandamál sem þarf að leysa því augljóslega er framtíðin ekki fyrirfram ráðin. Aristóteles segir í framhaldinu:
En hvað ef þessar afleiðingar eru ómögulegar? – Því við sjáum að uppspretta þess sem mun verða er bæði í ráðagerð og athöfnum [...] þessir hlutir geta bæði verið og ekki verið, og því geta þeir einnig orðið og ekki orðið.[8]Hér sést líka að Aristóteles tekur óhikað með í reikninginn staðreyndir málsins sem blasa við. Auk þess var hann viljugur að grennslast fyrir um staðreyndirnar með athugunum. Þess vegna lét hann meðal annars gera samantekt á stjórnskipan á annað hundrað borgríkja og stundaði sjálfur ýmiss konar náttúrurannsóknir. Aristóteles var markhyggjumaður[9] og leitaði á nánast öllum sviðum tilgangsskýringa. Hann túlkar líka niðurstöður náttúrurannsókna sinna í ljósi markhyggjunnar en í þróunarkenningu nútímans hefur markhyggjunni verið úthýst. Þar er því nokkur munur á þankagangi hans og okkar. En markhyggja Aristótelesar nær líka langt út fyrir náttúrufræði hans. Hann hélt til að mynda að þróun grískra bókmennta hefði óhjákvæmilega stefnt að fullkomnun harmleiksins eins og lesa má í riti hans Um skáldskaparlistina.[10] Aristóteles var afar rökvís, yfirleitt athugull á allar hliðar máls og ætíð meðvitaður um hvað bæði forverar hans höfðu sagt og jafnframt hvað almennt og yfirleitt er sagt um efnið. Í Um sálina segir hann til að mynda „Um leið og vér reifum þau vandamál, sem smátt og smátt verður reynt að leysa, er óhjákvæmilegt, þegar sálin er athuguð, að líta á skoðanir þeirra fyrirrennara vorra, sem eitthvað höfðu um hana að segja, til þess að aðhyllast það, sem þeir höfðu réttilega fundið, en forðast það, sem ekki var rétt.“[11] Hann hefur samt ekki áhuga á að reifa allar skoðanir enda segir hann í Siðfræði Níkomakkosar: „Sennilega væri fánýtt að rannsaka allar skoðanir á þessu máli og nægir að rannsaka þær sem ber hæst eða virðast studdar einhverjum rökum.“[12] Þessar skoðanir sem skipta máli eru stundum kallaðar endoxa. Í sjöundu bók Siðfræði Níkomakkosar, þar sem hann fjallar um breyskleika og sjálfsaga, segir hann svo: „Í þessu máli sem öðrum verður að henda reiður á því sem virðist vera raunin. Að lokinni umræðu um vandann verður að sannreyna allar algengar skoðanir um áverkan sálarinnar, en ef ekki allar, þá flestar og sem bestar. Því við höfum sannreynt málið nægilega vel ef við leysum vandann og höldum jafnframt eftir hinum algengu skoðunum.“[13] Markmiðið er sem sagt að leysa gátuna sem var útlistuð í upphafi á sem einfaldastan máta þannig að lausnin verði í eins lítilli mótsögn og vera má við viðteknar skoðanir, sem Aristóteles telur líklegt að séu sannleikanum samkvæmar, þótt auðvitað reynist það ekki alltaf svo.

Málverk af René Descartes frá árinu 1648. Aristóteles hefði væntanlega verið nokkuð hlynntur aðferð René Descartes.
- ^ Aristóteles, Frumspekin i.1, 980a21 o.áfr. Íslensk þýðing Svavars Hrafns Svavarssonar á Frumspekinni I kom út hjá Hinu íslenska bókmenntafélagi árið 1999.
- ^ Aristóteles, Um túlkun 1, 16a1-2, þýð. mín.
- ^ Aristóteles, Stjórnspekin i.1, 1252a17-20, þýð. mín.
- ^ Aristóteles, Siðfræði Níkomakkosar i.4, 1095b2-4, þýð. Svavar Hrafn Svavarsson (Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, 1995). Aristóteles ítrekar þetta atriði í Eðlisfræðinni i.1, 184a10 o.áfr.
- ^ William Jordan, Ancient Concepts of Philosophy (London: Routledge, 1992), 106-7.
- ^ W.K.C. Guthrie, A History of Greek Philosophy VI: Aristotle: An Encounter (Cambridge: Cambridge University Press, 1981), 90. Aristóteles orðar það í upphafi þriðju bókar Frumspekinnar: „Þeim sem vilja öðlast skilning er gagnlegt að útlista vel“. Frumsp. iii.1, 995a27-28.
- ^ Aristóteles, Um túlkun 9, 18b33-19a6, þýð. mín.
- ^ Aristóteles, Um túlkun 9, 19a7-11, þýð. mín.
- ^ W.K.C. Guthrie, A History of Greek Philosophy VI: Aristotle: An Encounter (Cambridge: Cambridge University Press, 1981), 97. Um markhyggju Aristótelesar sem slíka, sjá k. VII, bls. 106-29.
- ^ Íslensk þýðing Kristjáns Árnasonar á Um skáldskaparlistina kom út hjá Hinu íslenska bókmenntafélagi (2. útg. 1997).
- ^ Aristóteles, Um sálina i.2, 403b20-24, þýð. Sigurjón Björnsson (Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, 1985).
- ^ Aristóteles, Siðfræði Níkomakkosar i.4, 1095a27-30, þýð. Svavar Hrafn Svavarsson.
- ^ Aristóteles, Siðfræði Níkomakkosar vii.1, 1145b2-7, þýð. Svavar Hrafn Svavarsson.
- ^ René Descartes, Orðræða um aðferð. Þýð. Magnús G. Jónsson (Reykjavík: hið íslenska bókmenntafélag, 1991, 2. útg. 1998): 78-80.
- ^ Aristóteles, Frumspekin i.1, 980a24-27 og 981b10-11, þýð. Svavar Hrafn Svavarsson.
- ^ Platon var að vísu ekki femínisti í nútíma skilningi en þó töluvert róttækari en aðrir forngrískir hugsuðir. Um þetta má meðal annars lesa hjá Eiríki Smára Sigurðarsyni í greininni „Dyggðir kvenna?“, hjá Svavari Hrafni Svavarssyni (ritstj.), Hugsað með Platoni (Reykjavík: Heimspekistofnun, Siðfræðistofnun og Háskólaútgáfan, 2014): 151-65.
- Aristotle - Wikipedia, the free encyclopedia. (Sótt 30.04.2014).
- René Descartes - Wikipedia, the free encyclopedia. (Sótt 30.04.2014).