Starf stjórnmálaleiðtoga felst að miklu leyti í því að taka ákvarðanir.
Draga má skilgreiningu á stjórnmálum saman á þann hátt að stjórnmál fjalli um bindandi ákvarðanir sem varða hópa. Í ljósi þessarar skilgreiningar má okkur vera ljóst að stjórnmál snerta líf okkar á nánast óendanlega marga vegu. Ákvarðanirnar um það hvort við göngum í skóla, hversu lengi, hvað við lærum þar, hvaða kröfur eru gerðar, hvað við eða samfélagið borgum fyrir skólagönguna (með skólagjöldum eða sköttum), hvaða réttindi námið veitir, og hvort við eigum færi á að taka hluta námsins erlendis eru allt ákvarðanir sem eru stjórnmálalegs eðlis. Utan veggja skóla eða vinnustaða móta stjórnmálaákvarðanir líf okkar áfram. Þær geta varðað frelsi okkar til að taka þátt í stjórnmálum, hvort við getum ferðast erlendis, hvort við keyrum hægra eða vinstra megin á götunni, hvort við eigum færi á að horfa á sjónvarpsútsendingar á fimmtudögum, og svo mætti lengi telja. Flestar þessara ákvarðana eru teknar af ríkisvaldinu. Svo eru mörg okkar félagar í ýmsum félagasamtökum, til dæmis verkalýðsfélögum eða íþróttafélögum, sem taka ýmsar ákvarðanir sem snerta okkur. Félagsgjöld eru augljóst dæmi en sama máli gegnir til að mynda um rangstöðuregluna í fótbolta. Aðrar ákvarðanir sem hafa áhrif á líf okkar eru teknar í samskiptum ríkja. Slíkar ákvarðanir geta til dæmis haft áhrif á neysluvenjur okkar (með samningum um niðurfellingu tolla og innflutningstakmarkana) og möguleika okkur til búsetu í öðrum ríkjum. Margar slíkar ákvarðanir eru teknar í alþjóðlegum stofnunum, til að mynda hjá Evrópusambandinu (ESB) eða með samningnum um evrópska efnahagssvæðið (EES). Af þessari stuttu upptalningu má sjá að stjórnmál snerta flesta þætti lífs okkar á einn eða annan hátt þó að vissulega megi líta svo á að ákvarðanirnar séu mismikilvægar. Hvað er stjórnmálafræði? Stjórnmálafræði er sú fræðigrein sem leitast við að auka þekkingu okkar á stjórnmálum, það er að segja að öðlast skilning á því hvers vegna tilteknar ákvarðanir eru teknar. Í þeim tilgangi rannsaka stjórnmálafræðingar hverjir koma að ákvörðunartökuferlinu og hverjir hafa möguleika á að hafa áhrif á niðurstöðurnar. Stjórnmálalegar ákvarðanir eru afurð tveggja þátta: einstaklinganna sem koma að ákvarðanatökunni og þeirra stofnana sem móta samskipti þeirra. Forsetaræði og þingræði eru dæmi um stofnanir sem hafa áhrif á samskipti þeirra sem að ákvarðanatökunni koma og hvernig valdi er dreift þeirra á milli. Í þingræðisríkjum er framkvæmdarvaldið (ríkisstjórnin) háð stuðningi þingsins og getur ekki setið í óþökk þess. Í ríkjum með forsetaræði eru skilin á milli framkvæmdavaldsins og löggjafarvaldsins hins vegar skarpari. Þar getur þing ekki nema í undantekningartilfellum vikið forseta frá völdum. Skipting valdsins gerir það svo að verkum að þing slíkra ríkja eru að öðru jöfnu ekki jafnháð framkvæmdarvaldinu og þing í þingræðisríkjum. Innan forsetaríkja eru síðan ýmsar stofnanir sem aukið geta áhrif forseta á löggjöf, til dæmis neitunarvald og heimild til að gefa út tilskipanir.
Í stjórnmálafræði er meðal annars skoðað hvaða áhrif stofnanir og þingræði hafa á ákvarðanatöku og samfélagið í heild.
- Hvaða þættir hafa áhrif á hvort ríki heyja stríð?
- Hvaða stjórnmálastofnanir eru líklegastar til að tryggja stöðugleika í ríkjum sem eru samansett úr mörgum þjóðarbrotum?
- Eru þjóðaratkvæðagreiðslur farsæl leið til að setja lög?
- Hafa mismunandi kosningakerfi áhrif á möguleika kvenna til að komast á þing?
- Hvers vegna eru sum ríki viljugri en önnur til að taka þátt í alþjóðasamstarfi?
- Eru tengsl milli lýðræðisþróunar og hagvaxtar?
- Hvaða þættir hafa áhrif á lengd og tíðni verkfalla?
- Hvers vegna halda menn „kosningar“ í einræðisríkjum?
- Hefur byssueign áhrif á tíðni glæpa?
- Hver eru áhrif ávísanakerfa á gæði skóla?
- Hvers vegna eru fyrirgreiðslustjórnmál og spilling algengari sums staðar en annars staðar?
- Ganga stjórnmálaskoðanir í erfðir?
- Hvers vegna fremja menn hryðjuverk?
- Leiða vinstrisinnaðar stjórnir til aukinna ríkisútgjalda og hærri skatta?
- Eru áherslur kvenna í stjórnmálum ólíkar áherslum karla?
- Mynd af stjórnmálamönnum er af heimasíðu teiknarans Raouls Pascal. Sótt 8.7.2005
- Mynd af þingi er af Wikipedia.com. Sótt 4.6.2010