Það sem við köllum veður er í rauninni hreyfingar og aðrar breytingar í lofthjúpnum kringum okkur. Vindurinn er í rauninni loftstraumur eða hreyfing lofthjúpsins en auk þess hitnar loftið og kólnar á víxl. Eins og lesa má um í öðrum svörum á Vísindavefnum veldur þetta tvennt, straumur og hitabreytingar, síðan öðrum tengdum fyrirbærum eins og eldingu og skýjamyndun, rigningu og snjókomu. Frumorsök þessara fyrirbæra, aflið sem knýr þau áfram, er sólargeislunin sem fellur á jörðina og lofthjúpinn. Þessari geislun er mjög misskipt eftir stöðum á jörðinni. Miklu meiri geislun fellur á flatareiningu sem snýr beint að sól en á aðra sem vísar mjög á ská miðað við sólina. Loftið á fyrri staðnum verður því miklu heitara en á þeim síðari. Þess vegna er hlýrra við miðbaug en hér á norðurslóðum og líka hlýrra hér á sumrum en vetrum. Sömuleiðis er þetta ástæðan til þess að yfirleitt er hlýjast upp úr hádegi á hverjum degi, einkum þó ef sólar nýtur við. En þessi mishitun veldur meðal annars mismunandi þrýstingi og þéttleika í lofthjúpnum. Heitt loft er sem kunnugt er léttara en kalt og leitar því upp á við en kaldara loft kemur í staðinn. Þannig verður vindurinn til, alveg á sama hátt og þegar heita loftið frá miðstöðvarofni í stofunni heima hjá okkur leitar upp á við og getur valdið dragsúg með gólfinu, til dæmis ef ofninn er gegnt glugganum.Það er sem sagt veður hjá okkur vegna þess að lofthjúpur umlykur jörðina og geislar sólar valda hreyfing í honum. Þetta er líka ástæða þess að ekki er veður á tunglinu. Þar eru reyndar sólargeislar en hins vegar er enginn lofthjúpur og því enginn vindur eða raki. Nánar er fjallað um þetta í svari við spurningunni Af hverju er ekki veður á tunglinu eins og á jörðinni? Hægt er að lesa meira um ákveðin veðurfyrirbæri og myndun þeirra í öðrum svörum á Vísindavefnum, til dæmis:
- Af hverju myndast ský og af hverju falla þau ekki til jarðar? eftir Harald Ólafsson
- Af hverju er vindur? eftir Harald Ólafsson
- Hvað er fellibylur, af hverju og við hvaða aðstæður myndast fellibyljir? eftir Harald Ólafsson
- Af hverju er vindur í lægðum alltaf rangsælis á norðurhveli jarðar? eftir Harald Ólafsson og Þorstein Vilhjálmsson
- Hvernig myndast snjókorn? eftir Trausta Jónsson
Þetta svar er í flokknum "bekkirnir spyrja" þar sem starfsfólk vefsins svarar spurningum frá grunnskólabekk í kennslustund, samkvæmt samningi. Lögð er áhersla á skjót svör, stutt og aðgengileg. Oft er byggt á öðrum svörum sem kunna að nýtast almennum lesendum betur.