Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað getið þið sagt mér um jólasveina?

Gróa Finnsdóttir og Árni Björnsson

Uppruna hins rauðklædda jólasveins má rekja til heilags Nikulásar sem er sagður hafa verið biskup í borginni Mýra í Tyrklandi á 4. öld e.Kr. Nikulás var meðal annars verndardýrlingur sæfarenda, kaupmanna, menntasetra og barna. Löngu seinna varð hann þekktur sem gjafmildur biskup, klæddur purpuralitaðri kápu með mítur á höfði, sem deildi út gjöfum til bágstaddra en einkum til barna. Lúterstrúarmenn vildu ekki láta kaþólskan dýrling sinna þessu og bjuggu til sviplíkan karl sem þeir kölluðu Afa Frosta. Um Nikulás má lesa nánar í svarinu Hvenær var byrjað að setja skóinn út í glugga og hvaðan kemur sá siður? eftir Sigurð Ægisson.

Á 17. öld bárust siðir og sagnir um Nikulás með hollenskum innflytjendum til Ameríku. Gælunafn hans á hollensku var Sinterklaas og í Ameríku fékk hann á 19. öld nafnið Santa Claus. Teiknarar gerðu hann að blendingi af Nikulási og Afa Frosta, klæddu hann í skærrauðan jakka, verulega styttri en purpurakápu Nikulásar, og í rauðar buxur, hvort tveggja með hvítum loðkanti. Einnig fékk hann rauða húfu í staðinn fyrir mítur – jólasveinahúfuna.



Hinn ameríski jólasveinn Coca Cola fyrirtækisins er í hugum margra ímynd jólasveinsins.

Þessi rauðklæddi karl barst síðan um víða veröld, þekktur sem góðlegur hvítskeggjaður karl sem deildi út gjöfum til barna. Oftast var hann sagður frá norðlægum slóðum, kannski vegna þess hve hlýlega hann var klæddur. Þá var við hæfi að setja fyrir hann hreindýrasleða Samanna í norðri. Coca Cola fyrirtækið tók síðan Nikulás og gerði að sínum í auglýsingaherferð sinni um 1930. Meira má lesa í svari Eyju Margrétar Brynjarsdóttur, Er bandaríski jólasveinninn búinn til af Coca-Cola-fyrirtækinu?

Íslensku jólasveinarnir eiga sér rætur í íslenskum þjóðsögum og eru því af allt öðrum uppruna en Santa Claus. Þeirra var fyrst getið í Grýlukvæði frá 17. öld sem eignað er séra Stefáni Ólafssyni í Vallanesi. Þar eru þeir sagðir börn Grýlu og Leppalúða:

Börnin eiga þau bæði saman

brjósthörð og þrá.

Af þeim eru jólasveinar

börn þekkja þá.

Af þeim eru jólasveinar

jötnar á hæð.

Öll er þessi illskuþjóðin

ungbörnum skæð.

Eins og sést af kvæðinu voru jólasveinar og þeirra ætt talin illskeytt og eflaust notuð til að hræða börn til hlýðni.

Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar (1862) koma fyrst fyrir nöfn jólasveinanna 13 sem nú er þekktastir. Ekki fór miklum sögum af þeim fyrr en Jóhannes úr Kötlum samdi kvæði um þá sveina „...sem brugðu sér hér forðum á bæina heim“ og Tryggvi Magnússon myndskreytti árið 1932. Um sama leyti fóru þeir að koma fram í jólabarnatíma útvarpsins. Í vísum Jóhannesar er jólasveinum lýst sem undarlegum og jafnvel hættulegum hrekkjalómum. Með árunum urðu þeir samt sífellt elskulegri og svo fór að þeir fóru að gefa börnum í skó í glugga. Þessi siður barst með sjómönnum sem sigldu á Norðursjávarhafnir fyrir 1930, en varð ekki almennur fyrr en um 1960 og þá í mjög afbakaðri mynd frá hinni upprunalegu. Smám saman tókst með aðstoð Þjóðminjasafnsins og útvarpsins að koma nokkurri reglu á þennan sið.

Til eru heimildir um allt að 80 nöfn ýmissa jólasveina og -meyja (sjá Sögu daganna, 1993, bls. 344). Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar (1958) eru meðal annars þessi nöfn nefnd:

Tífall og Tútur,

Baggi og Hnútur,

Rauður og Redda,

Steingrímur og Sledda,

sjálfur Bjálfinn og Bjálfans barnið,

Bitahængir, Froðusleikir,

Gluggagægir og Syrjusleikir.

Jólasveinarnir eru af tröllakyni og foreldrar þeirra eru Grýla og Leppalúði. Leppalúði sést hér halda á jólakettinum. Grýla var sögð éta óþekk börn, og jólakötturinn átti að hremma börn sem ekki fengu nýja flík fyrir jólin. Enn er sagt að fólk fái ný jólaföt svo það fari ekki í jólaköttinn.
12. desember byrja gömlu jólasveinarnir að koma til byggða. Sá fyrsti heitir Stekkjastaur og hér áður fyrr reyndi hann oft að sjúga ærnar í fjárhúsum bænda.
13. desember kemur Giljagaur. Áður en mjaltavélar komu til sögu var hann vanur að laumast inn í fjós og stela froðu ofan af mjólkurfötum.
Jólasveinninn sem kemur til byggða 14. desember heitir Stúfur og er heldur lágur til hnésins. Hann var líka kallaður Pönnuskefill, því hann reyndi að hnupla matarögnum af steikarpönnunni.
15. desember kemur Þvörusleikir ofan af fjöllum. Hann stalst til þess að sleikja þvöruna, sem potturinn var skafinn með.
16. desember má búast við Pottasleiki í heimsókn, einnig kallaður Pottaskefill. Hann sat um að komast í matarpotta, sem ekki var búið að þvo, til að sleikja innan úr þeim skófirnar.
Askasleikir kemur 17. desember. Hann faldi sig undir rúmi og ef fólk setti ask á gólfið þá greip hann askinn og sleikti allt innan úr honum.
Hurðaskellir kemur til húsa 18. desember. Hann gengur skelfing harkalega um og skellir hurðum svo fólk hefur varla svefnfrið.
19. desember er von á jólasveini sem heitir Skyrgámur eða Skyrjarmur. Honum þótti skyr svo gott að hann stalst inn í búrið og hámaði í sig skyrið upp úr keraldi.
Bjúgnakræki má búast við 20. desember. Honum þótti best að éta bjúgu og pylsur og stal þeim hvar sem hann komst í færi.
21. desember kemur hann Gluggagægir í heimsókn. Hann var ekki eins matgráðugur og sumir bræður hans, en skelfing forvitinn að gægjast á glugga og jafnvel að stela leikföngum sem honum leist vel á.
22. desember má búast við Gáttaþef. Hann er með stórt nef og finnst óskaplega góð laufabrauðs- og kökulyktin þegar verið er að baka fyrir jólin. Af og til hefur hann líka reynt að hnupla einni og einni köku. Þess má geta að 22. desember var stundum kallaður hlakkandi því þá voru börnin farin að hlakka svo mikið til jólanna.
Á Þorláksmessu, 23. desember, kemur Ketkrókur, sem er svo sólginn í ket. Í gamla daga rak hann langan krókstaf niður um eldhússtrompinn og krækti sér í hangiketslæri sem héngu uppi í rjáfrinu eða hangiketsbita upp úr pottinum, en þá var hangiketið soðið á Þorláksmessu.
Kertasníkir kemur á aðfangadag, 24. desember. Í eldgamla daga voru kertin skærustu ljós sem fólk gat fengið. En þau voru svo sjaldgæf og dýrmæt að mesta gleði barnanna á jólunum var að fá sitt eigið kerti. Og aumingja Kertasníki langaði líka að eignast kerti. Stundum át hann kertin því þau voru úr tólg og hét þá Kertasleikir.

Myndirnar og textinn við þær (lítillega breyttur) eru birt með góðfúslegu leyfi Þjóðminjasafns Íslands.

Frekara lesefni á Vísindavefnum

Jólasveinar

Jesús og jólaguðspjallið

Jólasiðir

Orðskýringar og heiti

Helsta heimild

  • Árni Björnsson. Saga daganna. Reykjavík, Mál og menning, 1996.

Frekara lesefni um jólahald á Íslandi

  • Árni Björnsson. „Hjátrú á jólum“. Skírnir, 1961.
  • Árni Björnsson. Jól á Íslandi. Reykjavík, Ísafold, 1963
  • Árni Björnsson. Merkisdagar á mannsævinni. Reykjavík, Mál og Menning, 1996.
  • Barnanna hátíð blíð. Vilborg Dagbjartsdóttir og Þorvaldur Kristinsson (ritstj.). Reykjavík, Forlagið, 1993.
  • Hallgerður Gísladóttir. „Gott er að hafa mikinn mat og marga helgidaga: Um íslenskan jólamat á fyrri tíð“. Gestgjafinn 4. tbl. des. 1989.
  • Hallgerður Gísladóttir. „Forskot á jólin“. Heima er best, des. 1995.
  • Hallgerður Gísladóttir. Íslensk matarhefð. Reykjavík, Mál og menning/Þjóðminjasafn Íslands, 1999.
  • Hallgerður Gísladóttir. Eldamennska í íslensku torfbæjunum. Skagafjörður, Byggðasafn Skagfirðinga, 2000.
  • Jólasveinar ganga um gátt (geisladiskur með bæklingi). Pétur Eggerz (leikþættir), Árni Björnsson (texti í bæklingi), Guðni Franzson (tónlist), Jóhannes úr Kötlum (ljóð). Reykjavík, Mál og Menning, 1999.
  • Jónas Jónasson. Íslenskir þjóðhættir. Reykjavík, Ísafold, 1961.
  • Jólavaka: Safnrit úr íslenskum bókmenntum. Jóhannes úr Kötlum (ritstj.). Reykjavík, Bókaútgáfa Þórhalls Bjarnarsonar, 1945.

Vísindavefnum hafa borist margar fyrirspurnir um jólasveina. Hér var meðal annars reynt að svara eftirfarandi spurningum:

  • Af hverju eru jólasveinarnir 13 á Íslandi en bara 1 í útlöndum? (Eva Dögg Þórisdóttir, f. 1992, Elín Sif Kjartansdóttir, f. 1986, Ólöf Matthíasdóttir)
  • Hver er uppruni jólasveinanna? (Sunna Skúladóttir, f. 1990, Klemens Ágústsson, f. 1992, Anna Einarsdóttir, f. 1991)
  • Getið þið birt myndir af öllum jólasveinunum 13? (Stefanía Sunna, f. 1989)
  • Hvenær koma jólasveinarnir fyrst fram í riti? (Karl Helgason)

Höfundar

bókasafns- og upplýsingafræðingur

Árni Björnsson

dr. phil. í menningarsögu

Útgáfudagur

16.12.2005

Síðast uppfært

15.12.2020

Spyrjandi

Ýmsir spyrjendur

Tilvísun

Gróa Finnsdóttir og Árni Björnsson. „Hvað getið þið sagt mér um jólasveina?“ Vísindavefurinn, 16. desember 2005, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=5491.

Gróa Finnsdóttir og Árni Björnsson. (2005, 16. desember). Hvað getið þið sagt mér um jólasveina? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=5491

Gróa Finnsdóttir og Árni Björnsson. „Hvað getið þið sagt mér um jólasveina?“ Vísindavefurinn. 16. des. 2005. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=5491>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað getið þið sagt mér um jólasveina?
Uppruna hins rauðklædda jólasveins má rekja til heilags Nikulásar sem er sagður hafa verið biskup í borginni Mýra í Tyrklandi á 4. öld e.Kr. Nikulás var meðal annars verndardýrlingur sæfarenda, kaupmanna, menntasetra og barna. Löngu seinna varð hann þekktur sem gjafmildur biskup, klæddur purpuralitaðri kápu með mítur á höfði, sem deildi út gjöfum til bágstaddra en einkum til barna. Lúterstrúarmenn vildu ekki láta kaþólskan dýrling sinna þessu og bjuggu til sviplíkan karl sem þeir kölluðu Afa Frosta. Um Nikulás má lesa nánar í svarinu Hvenær var byrjað að setja skóinn út í glugga og hvaðan kemur sá siður? eftir Sigurð Ægisson.

Á 17. öld bárust siðir og sagnir um Nikulás með hollenskum innflytjendum til Ameríku. Gælunafn hans á hollensku var Sinterklaas og í Ameríku fékk hann á 19. öld nafnið Santa Claus. Teiknarar gerðu hann að blendingi af Nikulási og Afa Frosta, klæddu hann í skærrauðan jakka, verulega styttri en purpurakápu Nikulásar, og í rauðar buxur, hvort tveggja með hvítum loðkanti. Einnig fékk hann rauða húfu í staðinn fyrir mítur – jólasveinahúfuna.



Hinn ameríski jólasveinn Coca Cola fyrirtækisins er í hugum margra ímynd jólasveinsins.

Þessi rauðklæddi karl barst síðan um víða veröld, þekktur sem góðlegur hvítskeggjaður karl sem deildi út gjöfum til barna. Oftast var hann sagður frá norðlægum slóðum, kannski vegna þess hve hlýlega hann var klæddur. Þá var við hæfi að setja fyrir hann hreindýrasleða Samanna í norðri. Coca Cola fyrirtækið tók síðan Nikulás og gerði að sínum í auglýsingaherferð sinni um 1930. Meira má lesa í svari Eyju Margrétar Brynjarsdóttur, Er bandaríski jólasveinninn búinn til af Coca-Cola-fyrirtækinu?

Íslensku jólasveinarnir eiga sér rætur í íslenskum þjóðsögum og eru því af allt öðrum uppruna en Santa Claus. Þeirra var fyrst getið í Grýlukvæði frá 17. öld sem eignað er séra Stefáni Ólafssyni í Vallanesi. Þar eru þeir sagðir börn Grýlu og Leppalúða:

Börnin eiga þau bæði saman

brjósthörð og þrá.

Af þeim eru jólasveinar

börn þekkja þá.

Af þeim eru jólasveinar

jötnar á hæð.

Öll er þessi illskuþjóðin

ungbörnum skæð.

Eins og sést af kvæðinu voru jólasveinar og þeirra ætt talin illskeytt og eflaust notuð til að hræða börn til hlýðni.

Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar (1862) koma fyrst fyrir nöfn jólasveinanna 13 sem nú er þekktastir. Ekki fór miklum sögum af þeim fyrr en Jóhannes úr Kötlum samdi kvæði um þá sveina „...sem brugðu sér hér forðum á bæina heim“ og Tryggvi Magnússon myndskreytti árið 1932. Um sama leyti fóru þeir að koma fram í jólabarnatíma útvarpsins. Í vísum Jóhannesar er jólasveinum lýst sem undarlegum og jafnvel hættulegum hrekkjalómum. Með árunum urðu þeir samt sífellt elskulegri og svo fór að þeir fóru að gefa börnum í skó í glugga. Þessi siður barst með sjómönnum sem sigldu á Norðursjávarhafnir fyrir 1930, en varð ekki almennur fyrr en um 1960 og þá í mjög afbakaðri mynd frá hinni upprunalegu. Smám saman tókst með aðstoð Þjóðminjasafnsins og útvarpsins að koma nokkurri reglu á þennan sið.

Til eru heimildir um allt að 80 nöfn ýmissa jólasveina og -meyja (sjá Sögu daganna, 1993, bls. 344). Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar (1958) eru meðal annars þessi nöfn nefnd:

Tífall og Tútur,

Baggi og Hnútur,

Rauður og Redda,

Steingrímur og Sledda,

sjálfur Bjálfinn og Bjálfans barnið,

Bitahængir, Froðusleikir,

Gluggagægir og Syrjusleikir.

Jólasveinarnir eru af tröllakyni og foreldrar þeirra eru Grýla og Leppalúði. Leppalúði sést hér halda á jólakettinum. Grýla var sögð éta óþekk börn, og jólakötturinn átti að hremma börn sem ekki fengu nýja flík fyrir jólin. Enn er sagt að fólk fái ný jólaföt svo það fari ekki í jólaköttinn.
12. desember byrja gömlu jólasveinarnir að koma til byggða. Sá fyrsti heitir Stekkjastaur og hér áður fyrr reyndi hann oft að sjúga ærnar í fjárhúsum bænda.
13. desember kemur Giljagaur. Áður en mjaltavélar komu til sögu var hann vanur að laumast inn í fjós og stela froðu ofan af mjólkurfötum.
Jólasveinninn sem kemur til byggða 14. desember heitir Stúfur og er heldur lágur til hnésins. Hann var líka kallaður Pönnuskefill, því hann reyndi að hnupla matarögnum af steikarpönnunni.
15. desember kemur Þvörusleikir ofan af fjöllum. Hann stalst til þess að sleikja þvöruna, sem potturinn var skafinn með.
16. desember má búast við Pottasleiki í heimsókn, einnig kallaður Pottaskefill. Hann sat um að komast í matarpotta, sem ekki var búið að þvo, til að sleikja innan úr þeim skófirnar.
Askasleikir kemur 17. desember. Hann faldi sig undir rúmi og ef fólk setti ask á gólfið þá greip hann askinn og sleikti allt innan úr honum.
Hurðaskellir kemur til húsa 18. desember. Hann gengur skelfing harkalega um og skellir hurðum svo fólk hefur varla svefnfrið.
19. desember er von á jólasveini sem heitir Skyrgámur eða Skyrjarmur. Honum þótti skyr svo gott að hann stalst inn í búrið og hámaði í sig skyrið upp úr keraldi.
Bjúgnakræki má búast við 20. desember. Honum þótti best að éta bjúgu og pylsur og stal þeim hvar sem hann komst í færi.
21. desember kemur hann Gluggagægir í heimsókn. Hann var ekki eins matgráðugur og sumir bræður hans, en skelfing forvitinn að gægjast á glugga og jafnvel að stela leikföngum sem honum leist vel á.
22. desember má búast við Gáttaþef. Hann er með stórt nef og finnst óskaplega góð laufabrauðs- og kökulyktin þegar verið er að baka fyrir jólin. Af og til hefur hann líka reynt að hnupla einni og einni köku. Þess má geta að 22. desember var stundum kallaður hlakkandi því þá voru börnin farin að hlakka svo mikið til jólanna.
Á Þorláksmessu, 23. desember, kemur Ketkrókur, sem er svo sólginn í ket. Í gamla daga rak hann langan krókstaf niður um eldhússtrompinn og krækti sér í hangiketslæri sem héngu uppi í rjáfrinu eða hangiketsbita upp úr pottinum, en þá var hangiketið soðið á Þorláksmessu.
Kertasníkir kemur á aðfangadag, 24. desember. Í eldgamla daga voru kertin skærustu ljós sem fólk gat fengið. En þau voru svo sjaldgæf og dýrmæt að mesta gleði barnanna á jólunum var að fá sitt eigið kerti. Og aumingja Kertasníki langaði líka að eignast kerti. Stundum át hann kertin því þau voru úr tólg og hét þá Kertasleikir.

Myndirnar og textinn við þær (lítillega breyttur) eru birt með góðfúslegu leyfi Þjóðminjasafns Íslands.

Frekara lesefni á Vísindavefnum

Jólasveinar

Jesús og jólaguðspjallið

Jólasiðir

Orðskýringar og heiti

Helsta heimild

  • Árni Björnsson. Saga daganna. Reykjavík, Mál og menning, 1996.

Frekara lesefni um jólahald á Íslandi

  • Árni Björnsson. „Hjátrú á jólum“. Skírnir, 1961.
  • Árni Björnsson. Jól á Íslandi. Reykjavík, Ísafold, 1963
  • Árni Björnsson. Merkisdagar á mannsævinni. Reykjavík, Mál og Menning, 1996.
  • Barnanna hátíð blíð. Vilborg Dagbjartsdóttir og Þorvaldur Kristinsson (ritstj.). Reykjavík, Forlagið, 1993.
  • Hallgerður Gísladóttir. „Gott er að hafa mikinn mat og marga helgidaga: Um íslenskan jólamat á fyrri tíð“. Gestgjafinn 4. tbl. des. 1989.
  • Hallgerður Gísladóttir. „Forskot á jólin“. Heima er best, des. 1995.
  • Hallgerður Gísladóttir. Íslensk matarhefð. Reykjavík, Mál og menning/Þjóðminjasafn Íslands, 1999.
  • Hallgerður Gísladóttir. Eldamennska í íslensku torfbæjunum. Skagafjörður, Byggðasafn Skagfirðinga, 2000.
  • Jólasveinar ganga um gátt (geisladiskur með bæklingi). Pétur Eggerz (leikþættir), Árni Björnsson (texti í bæklingi), Guðni Franzson (tónlist), Jóhannes úr Kötlum (ljóð). Reykjavík, Mál og Menning, 1999.
  • Jónas Jónasson. Íslenskir þjóðhættir. Reykjavík, Ísafold, 1961.
  • Jólavaka: Safnrit úr íslenskum bókmenntum. Jóhannes úr Kötlum (ritstj.). Reykjavík, Bókaútgáfa Þórhalls Bjarnarsonar, 1945.

Vísindavefnum hafa borist margar fyrirspurnir um jólasveina. Hér var meðal annars reynt að svara eftirfarandi spurningum:

  • Af hverju eru jólasveinarnir 13 á Íslandi en bara 1 í útlöndum? (Eva Dögg Þórisdóttir, f. 1992, Elín Sif Kjartansdóttir, f. 1986, Ólöf Matthíasdóttir)
  • Hver er uppruni jólasveinanna? (Sunna Skúladóttir, f. 1990, Klemens Ágústsson, f. 1992, Anna Einarsdóttir, f. 1991)
  • Getið þið birt myndir af öllum jólasveinunum 13? (Stefanía Sunna, f. 1989)
  • Hvenær koma jólasveinarnir fyrst fram í riti? (Karl Helgason)
...