Er jólasveinninn til í alvöru eða er hann bara eitthvert rugl?Hvað er það að vera til "í alvörunni"? Það er auðvitað ekkert vafamál að jólasveinar eru til í hugum okkar og í sögum og frásögnum af þeim. Í einhverjum skilningi hljóta þeir því að vera til en það er líklega ekki sá skilningur sem átt er við með "í alvörunni". Líklega er átt við það hvort þeir séu til sem lifandi, áþreifanlegar verur, svona eins og ég og þú. Þá má auðvitað benda á að til eru lifandi, áþreifanlegir menn í jólasveinafötum sem segjast vera jólasveinar. Er spurningunni þar með svarað? Nei, því stundum heyrist sagt að þessir menn séu bara "venjulegir" menn með hvítt gerviskegg að leika jólasveina og að þeir eigi alls ekkert heima í helli í fjöllunum og séu þaðan af síður synir Grýlu og Leppalúða. Þetta er talið til marks um að jólasveinar séu ekki til í alvörunni. Hér verður því gert ráð fyrir að spyrjandi vilji vita hvort til séu, í sama skilningi og við erum til, 13 rosknir bræður sem búa hjá foreldrum sínum í helli, gegna dags daglega nöfnum á borð við Stekkjastaur, Pottasleikir, Kertasníkir og Bjúgnakrækir og koma til byggða fyrir jólin og færa börnum gjafir í skóinn. Óneitanlega eru þær vísbendingar sem við höfum um tilvist jólasveinanna misvísandi. Við skulum nú líta á nokkrar þeirra. Hvað bendir til þess að jólasveinar séu til?
- Margir segja að jólasveinar séu til, meðal annars strangheiðarlegt fólk sem er sjaldan staðið að lygum.
- Jólasveinar sjást víða um jólaleytið, til dæmis á jólaböllum og niðri í bæ.
- Krakkar fá gjafir í skóinn og þeim er sagt að jólasveinarnir setji þær þar. Hver ætti svo sem annars að setja gjafirnar í skóinn?
- Mikið er til af sögum og söngvum um jólasveina.
- Víða má sjá myndir af jólasveinum.
- Heyrst hefur að fólk verði stundum vart við ýmis ummerki eftir komu jólasveina. Til dæmis á Skyrgámur að hafa farið í ísskápinn hjá fólki og skilið eftir sig skyrslettur og kerti að hafa horfið við komu Kertasníkis.
- Hvernig getur einn jólasveinn farið heim til allra barna á landinu og gefið þeim í skóinn á einni nóttu? Á landinu eru um 70.000 börn 15 ára og yngri. Ef við hugsum okkur að jólasveinninn hafi í mesta lagi 12 klukkustundir til að færa þeim öllum gjöf í skóinn á meðan þau sofa þarf hann að setja gjafir í 97 skó á hverri mínútu.
- Hvernig getur jólasveinninn borið allt sem krakkarnir fá í skóinn? Ef meðalþyngd gjafar er 200 g þarf jólasveinninn að burðast með 14 tonn af gjöfum þegar hann leggur af stað. Hann getur auðvitað geymt dótið á ákveðnum stað og borið hluta af því í einu, en það tefur hann við verkið þar sem hann þarf að hlaupa meira í staðinn til að sækja dótið.
- Hvar fá jólasveinarnir peninga til að kaupa dótið? Ljóst er að verð á gjöfum í skóinn getur verið mjög misjafnt. Til að einfalda málið skulum við gefa okkur að jólasveinarnir fái sérstakan magnafslátt hjá kaupmönnum og komist af með að borga að meðaltali 100 krónur fyrir hverja gjöf. Þá þarf hver jólasveinn að borga 7 milljón krónur á hverju ári fyrir þær gjafir sem hann færir börnunum í skóinn. Ef við reiknum með að hann fái frítt fæði og húsnæði hjá foreldrum sínum og geti eytt öllum sínum launum í gjafir þarf hann að vera með yfir 583 þúsund krónur í mánaðarlaun – eftir skatt.
- Hvar kaupa jólasveinarnir dótið sem þeir setja í skóinn? Aldrei sést til þeirra við að kaupa neinar af þeim fjölmörgu gjöfum sem þeir gefa.
- Hvernig getur jólasveinn sett gjöf í skóinn ef glugginn er lokaður? Heyrst hefur að slíkt komi stundum fyrir.
- Af hverju fá krakkar misflottar og misdýrar gjafir frá jólasveinunum?
- Spegillinn, 1. árgangur 1926, 6. Tölublað - Timarit.is. (Sótt 12.12.2017).
- Æskan, 42. Árgangur 1941, 12. Tölublað - Timarit.is. (Sótt 12.12.2017).