Sólin Sólin Rís 10:26 • sest 16:02 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 01:04 • Sest 15:19 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 01:05 • Síðdegis: 13:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 07:12 • Síðdegis: 20:04 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:26 • sest 16:02 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 01:04 • Sest 15:19 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 01:05 • Síðdegis: 13:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 07:12 • Síðdegis: 20:04 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvenær var byrjað að setja skóinn út í glugga og hvaðan kemur sá siður?

Sigurður Ægisson

Sá siður að setja skóinn út í glugga er margra alda gamall og tengist sögunni um heilagan Nikulás.

Á 3. og 4. öld eftir Krist var uppi maður að nafni Nikulás. Hann er talinn fæddur árið 280 í borginni Patara í Lýkíu, þar sem nú er Miðjarðarhafsströnd Tyrklands. Barn að aldri missti hann foreldra sína og ólst því upp í klaustri. Hann varð prestur aðeins 17 ára gamall, á að hafa ferðast um Palestínu og Egyptaland, og orðið síðar erkibiskup í Myra í Litlu-Asíu (borg sem nú heitir Kale eða Demre). Hann var fangelsaður á valdatíma Díókletíanusar keisara en 20 árum síðar er hans getið á kirkjuþinginu í Níkeu, eða árið 325.



Nikulás var af ríku fólki kominn upphaflega en gaf allan sinn auð til fátækra, sérstaklega barna, og eru margar sögur til um það. Eftir að hann dó, sem var 6. desember, einhvern tíma á árunum 342-350, fóru menn að tengja ýmis kraftaverk við nafn hans. Upp úr því var hann gerður að dýrlingi og varð einn sá allra vinsælasti, jafnt í Austurkirkjunni sem Vesturkirkjunni. Einungis María Guðsmóðir þótti taka honum fram. Í kringum árið 450 er þegar farið að byggja honum kirkjur, allt frá Miðausturlöndum til Grænlands. Í Róm urðu þær flestar 45 og yfir 400 í Englandi. Árið 527 er byrjað að yrkja um hann sálma.

Árið 1087 rændu ítalskir kaupmenn líkamsleifum hans í Myra og fluttu þær til Barí á Suður-Ítalíu þar sem þeir reistu mikla dómkirkju og vígðu hana 22. júní 1197. Þaðan barst dýrkun Nikulásar svo út um alla Evrópu.

Nikulás var og er meðal annars verndardýrlingur barna og sjómanna. Hann er einnig dýrlingur Rússlands og Grikklands, sem og margra borga og staða. Í kringum árið 1100 er farið að tengja hann jólahátíðinni.

Hér á landi átti Nikulás miklum vinsældum að fagna á kaþólskum tíma, eins og annars staðar, það er fram til ársins 1551, og voru margar kirkjur tileinkaðar honum, eða alls 33, auk þess sem hann var meðdýrlingur í 12 öðrum. Alls áttu 48 kirkjur eina eða fleiri myndir af honum.

Á messudegi Nikulásar fór að tíðkast meðal kaþólskra í Þýskalandi, á Niðurlöndum og víðar, að gefa börnum gjafir. Uppruna siðarins er að finna í helgisögn um að Nikulás hafi einhverju sinni forðað þremur snauðum meyjum frá því að lenda í vændi. Ákvað hann að gefa þeim heimanmund svo þær ættu auðveldara með að ná sér í ektamaka, og varpaði þremur pokum með gulli inn í hús þeirra (í sumum útgáfum voru þetta kúlur). Heilagur Nikulás tengist börnum líka vegna þeirrar sagnar, að hann hafi eitt sinn vakið þrjá unga drengi, sem höfðu verið myrtir, til lífs aftur.

Vegna alls þessa tóku börn að hengja upp sokka við dyr eða glugga og síðar arna (en strompar urðu ekki algengir í Evrópu fyrr en upp úr 1500). Í Þýskalandi eru heimildir fyrir því á 15. öld, að börn hafi útbúið lítil skip í þessum tilgangi og látið á áberandi staði á heimilinu. Síðar var farið að notast við skó, eða þá körfu og láta hana utandyra. Einhver var svo í biskupsgervi dýrlingsins og útdeildi gjöfunum.

Á Englandi var börnum sagt, að Nikulás kæmi sjálfur inn um gluggana með pakka sína, en það var ekki fyrr en á 19. öld að hann fór að láta þá í sokka.

Ekki er ýkja langt síðan börn á Íslandi fóru að koma skóm fyrir úti í glugga á aðventunni í von um eitthvert smáræði frá einhverjum jólasveinanna. Vitað er um dæmi fyrir 1930, en þetta mun ekki hafa orðið almennur siður þó fyrr en eftir miðja 20. öld.

Við tilkomu evangelísks siðar á 16. öld breyttist þetta mynstur, nema í Hollandi, enda var dýrlingadýrkun ekki stunduð innan þeirra vébanda og ýmsir aðrir tóku þá við gjafahlutverkinu. Jafnframt var 6. desember lagður af í þessu sambandi og allt fært til jóladags eða gamlársdags.

Ekki hefur biskupinn órað fyrir því, að eðli hans og föt ættu mörgum öldum síðar eftir að hafa jafn mikil áhrif og raunin varð. Hann er fyrirmyndin að hinum alþjóðlega jólasveini en siðir og helgisagnir um Nikulás bárust með hollenskum innflytjendum (mótmælendatrúar) til Ameríku á 17. öld, þar sem hann gekk undir heitinu Sinter Klaas. Í New York borg var honum gefið nafnið Santa Claus seint á 18. öld og fóru í kjölfarið að birtast myndir af honum í kápu sinni á jólakortum þar í landi og ýmislegt fleira. Bandarísku rithöfundarnir Washington Irving (1783-1859) og John Pintard (1759-1844), guðfræðingurinn og ljóðskáldið Clement Clarke Moore (1779-1863) og listamennirnir Thomas Nast (1840-1902), Joseph Leyendecker (1874-1951) og Norman Rockwell (1894-1978) tengjast þeirri sögu órjúfanlegum böndum.



Coca Cola fyrirtækið tók síðan Nikulás og gerði að sínum í auglýsingaherferð sem hófst árið 1931, klæddi hann í skærrauðan jakka, verulega styttri en purpurakápuna, og í rauðar buxur. Í stað mítursins, embættishöfuðfats biskupsins, kom rauð húfa. Allt fékk þetta svo hvítan loðkant. Teiknarinn sem fullkomnaði verkið, bjó til þann jólasvein sem einkum er við lýði í dag á alheimsvísu, var Haddon Sundblom (1899-1976).

En rætur þessarar einhverrar kunnustu birtingar- og táknmyndar aðventu og jóla liggja sumsé í jarðvegi kristindómsins, eins og svo margt annað. Þess má að lokum geta að árið 1972 var eitthvað af helgum dómi Nikulásar flutt úr Barí á Ítalíu í Réttrúnaðarkirkjuna í New York. Og sannarlega er við hæfi, að upphafið snerti þannig nútímann. Það gerir tengslin líka ennþá sýnilegri.

Lesa má meira um jólasveininn í Ameríku í svari Eyju Margrétar Brynjarsdóttur við spurningunni Er bandaríski jólasveinninn búinn til af Coca-Cola-fyrirtækinu?

Myndir:

Höfundur

guðfræðingur og þjóðfræðingur

Útgáfudagur

13.12.2004

Spyrjandi

Ásdís Hannesdóttir

Tilvísun

Sigurður Ægisson. „Hvenær var byrjað að setja skóinn út í glugga og hvaðan kemur sá siður?“ Vísindavefurinn, 13. desember 2004, sótt 24. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=4659.

Sigurður Ægisson. (2004, 13. desember). Hvenær var byrjað að setja skóinn út í glugga og hvaðan kemur sá siður? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=4659

Sigurður Ægisson. „Hvenær var byrjað að setja skóinn út í glugga og hvaðan kemur sá siður?“ Vísindavefurinn. 13. des. 2004. Vefsíða. 24. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=4659>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvenær var byrjað að setja skóinn út í glugga og hvaðan kemur sá siður?
Sá siður að setja skóinn út í glugga er margra alda gamall og tengist sögunni um heilagan Nikulás.

Á 3. og 4. öld eftir Krist var uppi maður að nafni Nikulás. Hann er talinn fæddur árið 280 í borginni Patara í Lýkíu, þar sem nú er Miðjarðarhafsströnd Tyrklands. Barn að aldri missti hann foreldra sína og ólst því upp í klaustri. Hann varð prestur aðeins 17 ára gamall, á að hafa ferðast um Palestínu og Egyptaland, og orðið síðar erkibiskup í Myra í Litlu-Asíu (borg sem nú heitir Kale eða Demre). Hann var fangelsaður á valdatíma Díókletíanusar keisara en 20 árum síðar er hans getið á kirkjuþinginu í Níkeu, eða árið 325.



Nikulás var af ríku fólki kominn upphaflega en gaf allan sinn auð til fátækra, sérstaklega barna, og eru margar sögur til um það. Eftir að hann dó, sem var 6. desember, einhvern tíma á árunum 342-350, fóru menn að tengja ýmis kraftaverk við nafn hans. Upp úr því var hann gerður að dýrlingi og varð einn sá allra vinsælasti, jafnt í Austurkirkjunni sem Vesturkirkjunni. Einungis María Guðsmóðir þótti taka honum fram. Í kringum árið 450 er þegar farið að byggja honum kirkjur, allt frá Miðausturlöndum til Grænlands. Í Róm urðu þær flestar 45 og yfir 400 í Englandi. Árið 527 er byrjað að yrkja um hann sálma.

Árið 1087 rændu ítalskir kaupmenn líkamsleifum hans í Myra og fluttu þær til Barí á Suður-Ítalíu þar sem þeir reistu mikla dómkirkju og vígðu hana 22. júní 1197. Þaðan barst dýrkun Nikulásar svo út um alla Evrópu.

Nikulás var og er meðal annars verndardýrlingur barna og sjómanna. Hann er einnig dýrlingur Rússlands og Grikklands, sem og margra borga og staða. Í kringum árið 1100 er farið að tengja hann jólahátíðinni.

Hér á landi átti Nikulás miklum vinsældum að fagna á kaþólskum tíma, eins og annars staðar, það er fram til ársins 1551, og voru margar kirkjur tileinkaðar honum, eða alls 33, auk þess sem hann var meðdýrlingur í 12 öðrum. Alls áttu 48 kirkjur eina eða fleiri myndir af honum.

Á messudegi Nikulásar fór að tíðkast meðal kaþólskra í Þýskalandi, á Niðurlöndum og víðar, að gefa börnum gjafir. Uppruna siðarins er að finna í helgisögn um að Nikulás hafi einhverju sinni forðað þremur snauðum meyjum frá því að lenda í vændi. Ákvað hann að gefa þeim heimanmund svo þær ættu auðveldara með að ná sér í ektamaka, og varpaði þremur pokum með gulli inn í hús þeirra (í sumum útgáfum voru þetta kúlur). Heilagur Nikulás tengist börnum líka vegna þeirrar sagnar, að hann hafi eitt sinn vakið þrjá unga drengi, sem höfðu verið myrtir, til lífs aftur.

Vegna alls þessa tóku börn að hengja upp sokka við dyr eða glugga og síðar arna (en strompar urðu ekki algengir í Evrópu fyrr en upp úr 1500). Í Þýskalandi eru heimildir fyrir því á 15. öld, að börn hafi útbúið lítil skip í þessum tilgangi og látið á áberandi staði á heimilinu. Síðar var farið að notast við skó, eða þá körfu og láta hana utandyra. Einhver var svo í biskupsgervi dýrlingsins og útdeildi gjöfunum.

Á Englandi var börnum sagt, að Nikulás kæmi sjálfur inn um gluggana með pakka sína, en það var ekki fyrr en á 19. öld að hann fór að láta þá í sokka.

Ekki er ýkja langt síðan börn á Íslandi fóru að koma skóm fyrir úti í glugga á aðventunni í von um eitthvert smáræði frá einhverjum jólasveinanna. Vitað er um dæmi fyrir 1930, en þetta mun ekki hafa orðið almennur siður þó fyrr en eftir miðja 20. öld.

Við tilkomu evangelísks siðar á 16. öld breyttist þetta mynstur, nema í Hollandi, enda var dýrlingadýrkun ekki stunduð innan þeirra vébanda og ýmsir aðrir tóku þá við gjafahlutverkinu. Jafnframt var 6. desember lagður af í þessu sambandi og allt fært til jóladags eða gamlársdags.

Ekki hefur biskupinn órað fyrir því, að eðli hans og föt ættu mörgum öldum síðar eftir að hafa jafn mikil áhrif og raunin varð. Hann er fyrirmyndin að hinum alþjóðlega jólasveini en siðir og helgisagnir um Nikulás bárust með hollenskum innflytjendum (mótmælendatrúar) til Ameríku á 17. öld, þar sem hann gekk undir heitinu Sinter Klaas. Í New York borg var honum gefið nafnið Santa Claus seint á 18. öld og fóru í kjölfarið að birtast myndir af honum í kápu sinni á jólakortum þar í landi og ýmislegt fleira. Bandarísku rithöfundarnir Washington Irving (1783-1859) og John Pintard (1759-1844), guðfræðingurinn og ljóðskáldið Clement Clarke Moore (1779-1863) og listamennirnir Thomas Nast (1840-1902), Joseph Leyendecker (1874-1951) og Norman Rockwell (1894-1978) tengjast þeirri sögu órjúfanlegum böndum.



Coca Cola fyrirtækið tók síðan Nikulás og gerði að sínum í auglýsingaherferð sem hófst árið 1931, klæddi hann í skærrauðan jakka, verulega styttri en purpurakápuna, og í rauðar buxur. Í stað mítursins, embættishöfuðfats biskupsins, kom rauð húfa. Allt fékk þetta svo hvítan loðkant. Teiknarinn sem fullkomnaði verkið, bjó til þann jólasvein sem einkum er við lýði í dag á alheimsvísu, var Haddon Sundblom (1899-1976).

En rætur þessarar einhverrar kunnustu birtingar- og táknmyndar aðventu og jóla liggja sumsé í jarðvegi kristindómsins, eins og svo margt annað. Þess má að lokum geta að árið 1972 var eitthvað af helgum dómi Nikulásar flutt úr Barí á Ítalíu í Réttrúnaðarkirkjuna í New York. Og sannarlega er við hæfi, að upphafið snerti þannig nútímann. Það gerir tengslin líka ennþá sýnilegri.

Lesa má meira um jólasveininn í Ameríku í svari Eyju Margrétar Brynjarsdóttur við spurningunni Er bandaríski jólasveinninn búinn til af Coca-Cola-fyrirtækinu?

Myndir: ...