Upphafleg spurning var á þessa leið: Fann Coca-Cola-fólkið upp bandaríska jólasveininn - þann sem er alltaf kátur og gengur í rauða og hvíta búningnum?Samkvæmt áreiðanlegustu heimildum mun þetta ekki vera rétt, þótt vissulega gangi þessi saga fjöllum hærra. Þó er í þessu það sannleikskorn að auglýsingaherferðir Coca-Cola hafa átt sinn þátt í að efla framgang jólasveinsins.
Bandaríski jólasveinninn, sem gengur undir nafninu Santa Claus (heilagur Kláus) eða bara Santa þar í landi, dregur nafn sitt af heilögum Nikulási sem var biskup í Mýru í Litlu-Asíu (Tyrklandi) á 4. öld. Um líf og störf Nikulásar er fátt vitað en hann er þó einn af vinsælustu dýrlingum bæði rómversk-kaþólsku kirkjunnar og þeirrar grísk-kaþólsku. Ýmsar óstaðfestar sagnir eru til um hann þar sem honum eru eignuð hin ýmsu kraftaverk. Samkvæmt þessum sögnum var hann örlátur mjög sem er væntanlega rótin að hugmyndinni um Nikulás sem jólasvein sem gefur börnum gjafir. Þjóðsagnapersónan Santa Claus barst frá Evrópu til Bandaríkjanna og er eins konar samsuða úr heilögum Nikulási og Jesúbarninu. Á 19. öld trúðu börn í Þýskalandi og víðar því að Jesúbarnið, eða Christkindlein, kæmi og færði þeim gjafir. Annað nafn bandaríska jólasveinsins, Kris Kringle, mun vera afbökun á Christkindlein. Jesúbarnið var þá stundum sagt eiga sér fylgdarmann sem var einhvers konar Nikulásarfígúra, til dæmis Père Noël í Frakklandi og Pelznickel í Þýskalandi. Í Hollandi fengu börnin gjafir frá Sinterklaas á Nikulásarmessu, 6. desember. Þegar Evrópubúar tóku að nema land vestanhafs fluttu þeir þessar sagnir með sér. Árið 1804 var sögufélag New York stofnað og Nikulás valinn verndardýrlingur þess. Árið 1809 kom út grínsagan „A History of New York” eftir Washington Irving sem skrifaði undir dulnefninu Diedrich Knickerbocker. Sagan gekk út á að hnýta í hollenska fortíð New York-borgar og þar með hinn hollenska Sinterklaas. Þar var meðal annars talað um heilagan Nikulás svífandi yfir borginni á vagni. Kvæðið „An Account of a Visit from St. Nicholas” kom út 1823 og naut fljótt mikilla vinsælda. Þetta kvæði er betur þekkt undir upphafsorðum sínum, „’Twas the night before Christmas,” og í dag er lestur þess hluti af jólahaldi margra Bandaríkjamanna. Þar er talað um heilagan Nikulás á fljúgandi sleða dregnum af hreindýrum. Eftir því sem leið á 19. öldina fór heilagur Nikulás að gegna æ stærra hlutverki í jólahaldi Bandaríkjamanna og gekk nú undir nafninu Santa Claus eða Kris Kringle. Oft var hann að sögn klæddur loðfeldi, líkt og hinn þýskættaði Pelznickel, en stundum átti hann að klæðast litríkum fötum. Í fyrstu var hann ýmist sagður líkjast litlum álfi eða vera maður í fullri stærð og varð seinni ímyndin ofan á. Árið 1897 birtist frægt svar Francis P. Church í dagblaðinu New York Sun við fyrirspurn 8 ára stúlku, Virginiu O’Hanlon, um tilvist jólasveinsins. Svarið bar yfirskriftina „Yes, Virginia, there is a Santa Claus.” Hugmyndin um Santa Claus sem feitlaginn karl í rauðum fötum var orðin útbreidd um aldamótin 1900 og um 1920 var jólasveinninn í hugum flestra bandarískra barna kátur karl, hvítskeggjaður og rauðklæddur. Á 4. áratug 20. aldar fór Coca-Cola svo af stað með hina frægu auglýsingaherferð þar sem jólasveinninn, teiknaður af Haddon Sundblom, var í aðalhlutverki. Ef til vill hefur sú herferð orðið til þess að festa ákveðna ímynd jólasveinsins í sessi en víst er að þessi ímynd hafði verið til um skeið og var ekki uppfinning Coca-Cola eða Sundbloms þótt hann hafi vissulega túlkað fyrri hugmyndir eftir eigin höfði. Vissulega hafa auglýsingar átt sinn þátt í að móta jólasiði Bandaríkjamanna. Til að mynda er hreindýrið Rúdolf með rauða trýnið, sem sungið er um í vinsælu jólalagi, afsprengi auglýsinga frá stórversluninni Montgomery Ward frá 1939. Það ár fékk verslunin Robert L. May til að semja barnasögu sem dreift var til viðskiptavina fyrir jólin. Sagan naut fljótt mikilla vinsælda og 1949 kom út lagið „Rudolph the Red-Nosed Reindeer,” sungið af Gene Autry. Árið 1964 var svo gerð sjónvarpsmynd um Rúdolf og félaga með brúðum í hlutverkum þeirra. Líkt og kvæði Moores um aðfangadagskvöld jóla er þessi sjónvarpsmynd jafnstór þáttur í jólahaldi Bandaríkjamanna og hangikjötið er á Íslandi. Heimildir:
- The Claus that Refreshes á Urban Legends Reference Pages
- Did the popular image of Santa Claus originate in a Coca-Cola ad campaign? á The Straight Dope
- All About Santa Claus á ReligiousTolerance.org
- St. Nicholas of Myra á Catholic Encyclopedia
- Saint Nicholas and the Origin of Santa Claus á St. Nicholas Center
- Rudolph á Urban Legends Reference Pages