Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Á gull er minnst 439 sinnum í Biblíunni, þar af 403 sinnum í Gamla testamentinu og 36 sinnum í Nýja testamentinu, og er ekki minnst á neina málmtegund þar jafn oft. Reykelsi kemur fyrir 146 sinnum, þar af 136 sinnum í Gamla testamentinu og 10 sinnum í Nýja testamentinu. Myrru er getið 16 sinnum, þar af 13 sinnum í Gamla testamentinu og þrisvar sinnum í Nýja testamentinu.
Vitringarnir þrír færa Jesúbarninu gjafir sínar, gull, reykelsi og myrru. Málverk Andrea Mantegna frá því um 1500.
Um gull, sem Biblían notar 13 mismunandi orð yfir (á hebresku), er óþarfi að fjölyrða hér, nóg að geta þess að lítið var um slíkt frá náttúrunnar hendi í Palestínu sjálfri. Helstu innflutningslönd voru Arabía, Armenía, Egyptaland, Persía og ef til vill Indland, Núbía og Suður-Afríka. Í Gamla testamentinu eru meðal annars nafngreindir staðirnir Havíla, Ófír, Parvaím, Reama, Saba, Tarsis og Úfas.
Í Opinberunarbókinni (3:18) er gull notað í yfirfærðri merkingu sem andleg verðmæti. Þar eru líka öldungarnir 24 á himnum sagðir með gullkórónur (4:4), og hin nýja Jerúsalem muni verða byggð úr skíra gulli (21: 18-21). Verðmætasti peningur Rómverja var gulldenar, jafnvirði 25 silfurdenurum.
Reykelsi var og er ilmandi blanda af gúmmí og harpeis, sem frá náttúrunnar hendi „blæðir“ eða „grætur“ undir ákveðnum kringumstæðum úr blómstrandi trjám og runnum einnar af 16 ættkvíslum Burseraceae-ættarinnar. Sú heitir á vísindamáli Boswellia. Flestar ættkvíslirnar er að finna í hitabeltislöndum Ameríku en nokkrar í Afríku og Asíu. Umrædda ættkvísl er að finna í Austur-Afríku, Sádí-Arabíu og á Indlandi.
Reykelsi er kvoða sem drýpur úr trjám af ættkvíslinni Boswellia ef börkur þeirra verður fyrir hnjaski.
Ekki er nákvæmlega vitað hverjar af þeim rúmlega 25 tegundum Boswellia sem nú eru þekktar var um að ræða fyrr á öldum, en menn hafa getið sér til að það hafi verið B. carterii, öðru nafni B. sacra (Norðaustur-Afríka, Jemen og Óman), B. papyrifera (Eþíópía, Súdan, Austur-Afríka), B. thurifera (Sómalía og austurströnd Indlands) og B. serrata (austurströnd Indlands). Einnig gæti verið að eitthvað hafi komið úr suðurhluta Jórdandalsins.
Börkur þessara trjáa er pappírskenndur og í hann koma auðveldlega sár ef mjög hvassir vindar blása, eða við hann er átt með nagi, skurði eða afflettingu. Trén bregðast við með því að fylla í götin með kvoðunni, sem þykknar þegar hún snertir andrúmsloftið. Droparnir, hvítir eða fölgulir að lit, koma úr æðum (holrúmi) í sjálfu trénu. Þeir harðna og dökkna með tímanum og verða gulgrænir eða brúnleitir. Að 3-4 mánuðum liðnum detta þeir flestir af og eru hirtir; aðrir eru skornir eða höggnir burt. Síðan eru þeir malaðir í duft.
Hin eiginlega myrra er líka af Burseraceae-ættinni, og síðan af Commiphora-ættkvísl, með yfir 250 tegundum. Tárin eru í fyrstu gul- eða brúnleit, en verða dökkrauð eða jafnvel svört við hörðnunina. Eftir beina aftöppun þurfa trén langa hvíld til að ná sér, frá sex mánuðum og upp í tvö ár. Á tíma Biblíunnar var mestur innflutningur efnisins frá Arabíu, Abbyssiníu og Indlandi, en myrrutré var og er einnig að finna í Afríku. Aðaltegundirnar eru sagðar hafa verið C. myrrha (samheiti Balsamodendron myrrha) og C. kataf. Sumir vilja meina að aðaltegundin í Gamla testamentinu hafi verið C. opobalsamum (samheiti Balsamodendron opobalsamum, Balsamum meccae o.fl.) sem oftast var notuð í fljótandi mynd, því í ákveðnum textum er um vökva að ræða (samanber Esterarbók 2:12, „myrruolía“), en aðrir halda því fram að C. myrrha hafi einfaldlega verið fundist á markaði í tvenns konar formi.
Myrra.
Reykelsi og myrra voru notuð á svipaðan hátt á biblíulegum tíma, ýmist brennd, vegna hinnar ljúfu anganar, jafnt á heimilum sem í trúarlegum athöfnum, eða þá notuð í lækningasmyrsl, snyrtikrem og ilmvötn. Reykelsi var í Gamla testamentinu mikilvægara læknisfræðilega séð heldur en myrra, og einnig síðar, á tímum Grikkja og Rómverja. Jafnframt var reykelsi vinsælla til brennslu og þótti lyktarsterkari. Myrran hlaut hins vegar vinningin ef um opin sár var að ræða, þótti betra græðingarmeðal og verjandi, jafnt meðal Forn-Egypta og annarra síðar. Það sem læknar vissu ekki þá er að myrran hamlar bakteríugróðri. Þekktustu dæmi um hana úr Nýja testamentinu er þegar María smyr fætur Jesú, þegar honum er boðinn deyfandi vökvi rétt áður en hann var krossfestur (sem hann ekki þáði) og einnig þegar lík hans er búið til greftrunar.
Pundið af gulli og reykelsi kostaði mjög svipað á 1. öld e. Kr., jafnvirði um 45.000 íslenskra króna, en myrra var 6-7 sinnum dýrari.
Önnur áhugaverð svör um skyld efni á Vísindavefnum:
Sigurður Ægisson. „Hvaðan komu gjafirnar sem Jesúbarninu voru færðar og til hvers voru þær notaðar?“ Vísindavefurinn, 24. desember 2004, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=4681.
Sigurður Ægisson. (2004, 24. desember). Hvaðan komu gjafirnar sem Jesúbarninu voru færðar og til hvers voru þær notaðar? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=4681
Sigurður Ægisson. „Hvaðan komu gjafirnar sem Jesúbarninu voru færðar og til hvers voru þær notaðar?“ Vísindavefurinn. 24. des. 2004. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=4681>.