Vitringarnir breytast snemma í eitthvað enn meira, að talið er aðallega fyrir áhrif Tertúllíanusar kirkjuföður (160?-230?), sem fullyrti að í austri væri nánast litið á umrædda menn sem konunga. Líka má vera, að þetta hafi verið pólitísk ákvörðun innan gjörvallrar kirkjunnar á þeim tíma, sem vildi benda umheiminum á, að jarðneskir konungar þæðu tign sína af hinum eina og sanna, og væru honum því undirgefnir. Ef til vill hafa nokkrir ritningarstaðir í Gamla testamentinu sömuleiðis hjálpað þarna til. Í Davíðssálmum 68:30 segir til dæmis: “Konungar skulu færa þér gjafir.” Og í sömu bók, 72:10, segir: “Konungarnir frá Tarsis og eylöndunum skulu koma með gjafir, konungarnir frá Saba og Seba skulu færa skatt.” Og í Jesaja 49:7 er ritað: “Konungar munu sjá… og standa upp, þjóðhöfðingjar munu sjá… og falla fram, vegna Drottins, sem reynist trúr, vegna Hins heilaga í Ísrael, sem þig hefir útvalið.” Í Jesaja 60:3 er líka þetta: “Þjóðirnar stefna á ljós þitt og konungar á ljómann, sem upp rennur yfir þér.” Og í Jesaja 60:10: “Útlendir menn munu hlaða upp múra þína og konungar þeirra þjóna þér…” Það er samt ekki fyrr en á 10.-12. öld að myndverk eru almennt farin að sýna hina tignu gesti í konungsgervum. Í latnesku kirkjubiblíunni Vulgata, sem Híerónýmus kirkjufaðir (340?-420) þýddi undir lok 4. aldar, er tökuorðið “magi” notað yfir austanfarana. Þetta hafði bersýnilega sín áhrif á aðrar þýðingar, einkum í löndum kaþólskra, sem flestar eru á sömu línu. En áhrif Marteins Lúthers ná til annarra; hann notar “die Weisen” (vitringar) í þýðingu sinni, 1534. Enskar biblíuútgáfur eru aðallega með “wise men”, sem og danskar (“vise”), norskar (“vismenn”) og sænskar (“vise män”), en þýskar eru reyndar á ýmsan veg nú á tímum (“Magier”, “Sternforscher”, “die Weisen”, “Weise”). Bara ein – Wycliffe-útgáfan, fyrsta þýðing Biblíunnar allrar á ensku, 1382 – nefnir konunga í þessu sambandi, og reyndar hitt líka, eða segir “astrologers [… kings, or wise men,]” (stjörnuspekingar [… konungar, eða vitringar]). Í öllum íslensku biblíuútgáfunum, allt frá Guðbrandsbiblíu 1584 til útgáfunnar 1981, er gríska orðið magoi þýtt sem “vitringar”. Og eins verður í Biblíu 21. aldar, sem kemur á markað árið 2006. En í íslenskum heimildum öðrum eru þeir gjarnan nefndir Austurvegskonungarnir. En hvaðan komu þessir menn? Um það eru deildar meiningar, eins og um flest annað í þessari sögu. En ljóst er, að þeir voru ekki Hebrear, eins og spurning þeirra upplýsir: “Hvar er hinn nýfæddi konungur Gyðinga?” Höfundur Matteusarguðspjalls veit einungis að þeir komu úr austri, þekktu himintunglin og gátu ráðið í boðskap þeirra. Af þeim sökum koma margar austrænar þjóðir hér til greina, enda átti stjörnuspeki djúpar rætur þar æði víða. Ein tilgátan er Arabía, en þar var að finna allar gjafirnar og það í ríkum mæli. Í vesturhlutanum unnu menn gull, og í suðri uxu trén sem reykelsi og myrra komu af. Klemens í Róm (30?-100? e. Kr.) ritar í bréfi til Korintumanna, árið 96, að hann tengi austrænu gestina við “landsvæðin nærri Arabíu.” Og Jústínus píslarvottur (um 100/114 – um 162/168) tók undir þetta í skrifi árið 160; fullyrti reyndar, að þeir hefðu komið frá Arabíu sjálfri. Ef til vill er þetta bara skírskotun í Jesaja 60:6, en þar segir:
Mergð úlfalda hylur þig, ungir úlfaldar frá Midían og Efa. Þeir koma allir frá Saba, gull og reykelsi færa þeir, og þeir kunngjöra lof Drottins.Eða Davíðssálm 72:15, er segir: “Hann mun lifa og menn munu gefa honum Saba-gull, menn munu sífellt biðja fyrir honum, blessa hann liðlangan daginn.” En Saba var á þessum tíma land í Suðvestur-Arabíu, og töluvert af Gyðingum þar. Og þar rýndu menn í stjörnuhimininn. Vert er líka að geta þess, að úlfaldalestir, sem komu frá Arabíu til Palestínu, voru sagðar koma “úr austri”. Aðrir helstu stuðningsmenn fyrir Arabíutilgátunni voru áðurnefndur Tertúllíanus kirkjufaðir (160?-230?), og heilagur Epifaníus (310-403).
Aðrir benda á, að vitringarnir gætu allt eins hafa komið frá einhverju þeirra ríkja sem voru austar, það er að segja í gömlu Mesópótamíu. Eða jafnvel frá Indlandi. Einnig hafa Egyptaland, Eþíópía, Ecbatana, Armenía og Skýþía verið nefnd. En flestir virðast þó nú á tímum hneigjast að Babýloníu eða Persíu. Í því fyrrnefnda höfðu menn rannsakað næturhimininn gaumgæfilega í 1.000-2.000 ár, er hér var komið, lengur en aðrar þjóðir í vesturheimi, og höfðu í kringum árið 450 f. Kr. búið til dýrahringinn með hinum þekktu tólf stjörnumerkjum. Tengsl við Gyðinga og spádóma þeirra var einnig fyrir hendi eftir herleiðinguna á 6. öld f. Kr., en merkilegt þykir að engum í frumkristninni virðist hafa dottið babýlonskir stjörnuspekingar í hug í þessu efni. En stuðningur við þá hugmynd er samt kominn fram á 4. öld (Þeódótus frá Ancyra í Litlu-Asíu; síðar Ankara). Í síðarnefnda ríkinu, Persíu, var engin hefð fyrir slíkri nákvæmri rannsókn himinhnattanna, þótt menn hafi dundað eitthvað við stjörnuspeki. Hins vegar er þáttur Zaraþústra álitinn stór, því gamlar heimildir bendla trúarbrögð hans þrálátlega við gestina úr austurvegi, enda voru þau nauðalík Gyðingdómi. Að þetta hafi verið prestar zaraþústratrúar, sem um Krists burð voru í þjónustu Parþa, sem fóru með völd frá 170 f. Kr - 226 e. Kr. (en umrædd trúarbrögð voru þó áfram við lýði á þessum slóðum, víðast hvar, fram á 7. öld), var reyndar skilningur þorra kirkjunnar manna á fyrstu öldum. Sterkustu fulltrúar þeirra urðu Klemens í Alexandríu (150?-230?) og heilagur Kýrillus, erkibiskup í Alexandríu (376?-444). Í apókrýfuriti, sem talið er hafa verið samið á 5. eða 6. öld, og nefnist Arabíska bernskuguðspjallið, segir orðrétt:
Og þegar Drottinn Jesús var fæddur í Betlehem í Júdeu, á tíma Heródesar konungs, sjá, vitringar [magi] komu úr austri til Jerúsalem, eins og Zeraduscht hafði spáð...”Er í þessu sambandi líka oft vitnað til atburðar árið 614 e. Kr., þegar Persar réðust inn í Landið helga og eyðilögðu þar fjöldann allan af guðshúsum kristinna, en hlífðu Fæðingarkirkjunni í Betlehem eftir að hafa litið þar augum mósaíkmynd er sýndi vitringana færa Jesúbarninu gjafirnar þrjár. Þeir könnuðust við búningana, þetta var sumsé persneskur klæðnaður. Kirkjan hafði upphaflega verið reist árið 327, eyðilögð af Samverjum árið 529, en endurbyggð nokkru á eftir. Að endingu er rétt að geta þess, að austur af Palestínu voru einungis fjögur ríki sem höfðu “ekta” mágúsa í þjónustu sinni um Krists burð: Assyría, Babýlonía, Medía og Persía. Þess vegna er ekki ósennileg kenning, að þetta hafi í raun verið klerkar zaraþústratrúar, en ekki þó frá Persíu heldur Babýloníu, hafandi þar kynnst alvöru stjörnuvísindum. Mynd og kort:
- WebMuseum
- Morgunblaðið 24. desember 2004.