Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Er siðferðilega rétt að segja börnum sínum að jólasveinar séu til?

Eyja Margrét Brynjarsdóttir

Upphafleg spurning var á þessa leið: "Er siðferðilega/uppeldisfræðilega rétt af foreldrum að ljúga að börnum sínum að jólasveinninn sé til?"
Sumir vilja meina að foreldrar séu ekki að “ljúga” eða “segja ósatt” þegar þeir segja börnum sínum að jólasveinar séu til vegna þess að jólasveinar séu til í hugum okkar eða eitthvað slíkt. Þetta má kannski kalla útúrsnúning. Yfirleitt reyna foreldrarnir að telja börnunum trú um að jólasveinarnir séu ekki bara til í hugum þeirra eða annarra heldur til í sama áþreifanlega skilningnum og stólar og borð, ryksugur og venjulegt fólk. Sögunni fylgir yfirleitt að það séu jólasveinarnir sem setji áþreifanlega hluti í skó barnanna og að sjálfsögðu hlýtur það að flokkast undir blekkingu af einhverju tagi. Spurningin er þá hvort þessi blekking er réttlætanleg eða ekki.

Líklega eru flestir sammála um að stundum geti verið rétt að segja börnum ósatt. Þetta gildir til dæmis þegar við viljum hlífa þeim við hlutum sem þau hafa ekki þroska til að skilja og mundu valda þeim hugarangri. Við segjum ekki litlum börnum af ofbeldisverkum og við hagræðum sannleikanum ef þau biðja um skýringar á hrottaskap sem þau sjá óvart myndir af í sjónvarpsfréttum. Auk þess telja flestir að rétt geti verið að segja ósatt ef eitthvað sem hefur meira vægi er í húfi, til dæmis mannslíf. Flest erum við sammála um að manneskja sem lýgur að hættulegum morðingja í því skyni að bjarga mannslífum sé að gera eitthvað sem er ekki aðeins réttlætanlegt heldur jafnvel aðdáunarvert.

En þótt hægt sé að tína til svona dæmi um ósannindi sem eru siðferðilega verjandi segir það okkur lítið um þetta tiltekna dæmi um jólasveinana. Foreldrar eru ekki að segja börnum sínum af jólasveinum í þeim tilgangi að þyrma lífi einhvers eða til að forða börnum frá vitneskju um ljóta og vonda hluti. Það þarf því að skoða dæmið sérstaklega.

Við getum líka litið á dæmi um ósannindi sem eru augljóslega siðferðilega röng. Þar má nefna lygar sem beitt er í því skyni að hagnast á kostnað annarra, notfæra sér trúgirni fólks til að gera því grikk, til að komast upp með að gera eitthvað rangt eða til að forðast það sem okkur finnst óþægilegt. Nú má spyrja hvort það að segja börnum að jólasveinar séu til og setji gjafir í skóinn þeirra falli í einhvern af þessum flokkum. Að öllum líkindum er tilgangur foreldra ekki sá að gera börnunum nokkuð illt með ósannindunum. Í sumum tilfellum eru börn hrædd við jólasveina en foreldrarnir þráast við að halda því fram að þessir skrýtnu karlar læðist inn í herbergið þeirra á hverri nóttu og þarna má kannski fara að efast um velvild foreldranna. Einnig hefur fólk látið þau orð falla að það sé “svo sætt” þegar krakkarnir trúi á jólasveina og svo má nefna þá sem líta á jólasveinatrúna sem leið til að halda krökkunum þægum fyrir jólin og þar má spyrja hvort þetta sé kannski meira gert fyrir fullorðna fólkið en börnin. Hér verða foreldrar þó látnir njóta vafans og við gefum okkur að tilgangur ósannindanna sé að gleðja börnin.



Við getum þá spurt: er siðferðilega rétt að segja einhverjum ósatt ef það er honum til góðs? Hér verður spurningunni ekki svarað heldur er henni vísað til lesandans.

Sumir mundu svo vilja staldra við og halda því fram að þessi tilteknu ósannindi um tilvist jólasveina séu ekki börnum til góðs. Þá erum við kannski komin út í uppeldisfræðilegu hliðina á málinu. Sumir telja til dæmis slæmt að skilyrðistengja gjafir en margir segja einmitt börnunum að þau fái fallegar gjafir í skóinn ef þau eru þæg en kartöflu ef þau eru óþekk. Þetta getur valdið sektarkennd hjá börnum efnalítilla foreldra þegar þau fara að bera sig saman við krakkana sem fá alltaf fínni og dýrari gjafir í skóinn. Þau geta ályktað sem svo að ástæða mismununarinnar sé að þau séu ekki nógu þæg. Jafnframt er það í ósamræmi við alvöru lífsins að fólk eignist alltaf nákvæmlega það sem það á skilið og getur valdið ýmsum vandræðum að koma slíkum ranghugmyndum inn hjá börnum. Þetta geta foreldrar kannski komið í veg fyrir með því að tengja ekki skógjafir við hegðun og einfaldlega sagt börnunum að allir krakkar fái í skóinn, óháð hegðun. Það er þó ekki fullkomin lausn á þeim vanda sem getur skapast þegar börnin fara að bera sig saman um það hvað þau fái í skóinn.

Börnin munu auðvitað einhvern tíma komast að hinu sanna um jólasveinana og því er rétt að huga að því hver viðbrögð þeirra geta orðið. Samkvæmt óformlegri könnun undirritaðrar meðal vina og vandamanna er niðurstaðan sú að flestum börnum þyki það ekkert tiltökumál að foreldrar þeirra hafi blekkt þau í þessum efnum og líti það jákvæðum augum. Hinu má þó ekki gleyma að ákveðinn hópur barna verður ákaflega sár út í foreldra sína þegar þau komast að hinu sanna og líta á blekkinguna sem alvarlegan trúnaðarbrest. Til dæmis má nefna konu um fertugt sem er enn sár út í foreldra sína og telur blekkinguna um jólasveinana hafa staðið sér fyrir þrifum við að tileinka sér gagnrýna hugsun. Rétt er því að muna að ekki eru öll börn eins og ekki við því að búast að öllum henti það sama. Foreldrar verða að reyna að þekkja sín börn í þessum efnum sem öðrum. Auk þess aðhyllist fólk mismunandi stefnur í uppeldismálum og ófær vegur að vega og meta uppeldislegt gildi jólasveinatrúar án langrar og mikillar greiningar á uppeldisfræðikenningum.



Athygli skal vakin á því að ýmsar leiðir hafa verið farnar í sambandi við jólasveinana. Sumir foreldrar eru frá upphafi hreinskilnir um að um leik er að ræða og virðast börn þeirra skemmta sér alveg jafn vel og önnur yfir jólum og jólasveinum. Aðrir foreldrar setja mörkin við það sem mundi flokkast sem hrein lygi. Þannig tala þeir um jólasveinana og að þeir setji í skóinn en þegar (og ef) að því kemur að barnið spyr “Eru það í alvörunni jólasveinar sem setja í skóinn?” kemur ekki annað til greina en segja satt. Enn aðrir útfæra hlutina svo á enn annan veg og draga mörkin annars staðar.

Spyrjandi veltir því líka fyrir sér hvort á öllum fullorðnum hvíli einhvers konar samfélagsleg skylda um að taka þátt í jólasveinasamsærinu. Hann bendir á fréttir frá Bandaríkjunum og Bretlandi um kennara og prest sem vöktu reiði foreldra með því að segja börnum satt um tilvist jólasveinsins. Þarna má auðvitað benda á að afskiptasemi á sér takmörk. Þótt rétt sé að skipta sér af ef fólk misþyrmir börnum sínum eða fer illa með þau á einhvern hátt teljum við yfirleitt ekki ástæðu til að skipta okkur af í hvert sinn sem við erum ekki sammála einhverju smáatriði í uppeldisaðferðum annarra. Þótt einhver telji það siðferðilega og/eða uppeldisfræðilega rangt að telja börnum trú um tilvist jólasveina er ekki þar með sagt að viðkomandi eigi að skipta sér af því sem aðrir gera í þeim efnum.

Aðstæður geta þó flækt málið. Er okkur til dæmis skylt að svara játandi ef annarra manna barn spyr hvort jólasveinar eru til í alvörunni? Stundum er kannski hægt að leysa málið með því að eyða talinu en eins og við öll vitum geta börn verið miklir þrákálfar. Og hvað ef við vitum ekki hverjar óskir foreldranna eru og hvað þeir hafa sagt barninu? Hvað gerum við ef við erum með hóp af börnum og vitum að sum þeirra trúa á jólasveina og önnur ekki? Viljum við að börnin sem trúa ekki á jólasveina standi okkur að því að fara með ósannindi? Hér eins og annars staðar er hinn gullni meðalvegur vandrataður og fátt annað að gera en höfða til dómgreindar hvers og eins. En líklega verða foreldrar að hafa það í huga að ef þeir búa í samfélagi við annað fólk sem hefur mismunandi skoðanir á hlutunum hafa þeir ekki fulla stjórn á því hvaða upplýsingar börnum þeirra eru veittar.

Mynd af Heilugum Nikulási: St.Nicholas The Wonder Worker

Mynd af jólasveini: art.com

Teikning af jólasveinum eftir Tryggva Magnússon: Vefsetur um Jóhannes úr Kötlum

Höfundur

Eyja Margrét Brynjarsdóttir

prófessor í heimspeki og hagnýtri siðfræði

Útgáfudagur

9.1.2003

Spyrjandi

Þorsteinn Kolbeinsson

Tilvísun

Eyja Margrét Brynjarsdóttir. „Er siðferðilega rétt að segja börnum sínum að jólasveinar séu til?“ Vísindavefurinn, 9. janúar 2003, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=2992.

Eyja Margrét Brynjarsdóttir. (2003, 9. janúar). Er siðferðilega rétt að segja börnum sínum að jólasveinar séu til? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=2992

Eyja Margrét Brynjarsdóttir. „Er siðferðilega rétt að segja börnum sínum að jólasveinar séu til?“ Vísindavefurinn. 9. jan. 2003. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=2992>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Er siðferðilega rétt að segja börnum sínum að jólasveinar séu til?

Upphafleg spurning var á þessa leið: "Er siðferðilega/uppeldisfræðilega rétt af foreldrum að ljúga að börnum sínum að jólasveinninn sé til?"
Sumir vilja meina að foreldrar séu ekki að “ljúga” eða “segja ósatt” þegar þeir segja börnum sínum að jólasveinar séu til vegna þess að jólasveinar séu til í hugum okkar eða eitthvað slíkt. Þetta má kannski kalla útúrsnúning. Yfirleitt reyna foreldrarnir að telja börnunum trú um að jólasveinarnir séu ekki bara til í hugum þeirra eða annarra heldur til í sama áþreifanlega skilningnum og stólar og borð, ryksugur og venjulegt fólk. Sögunni fylgir yfirleitt að það séu jólasveinarnir sem setji áþreifanlega hluti í skó barnanna og að sjálfsögðu hlýtur það að flokkast undir blekkingu af einhverju tagi. Spurningin er þá hvort þessi blekking er réttlætanleg eða ekki.

Líklega eru flestir sammála um að stundum geti verið rétt að segja börnum ósatt. Þetta gildir til dæmis þegar við viljum hlífa þeim við hlutum sem þau hafa ekki þroska til að skilja og mundu valda þeim hugarangri. Við segjum ekki litlum börnum af ofbeldisverkum og við hagræðum sannleikanum ef þau biðja um skýringar á hrottaskap sem þau sjá óvart myndir af í sjónvarpsfréttum. Auk þess telja flestir að rétt geti verið að segja ósatt ef eitthvað sem hefur meira vægi er í húfi, til dæmis mannslíf. Flest erum við sammála um að manneskja sem lýgur að hættulegum morðingja í því skyni að bjarga mannslífum sé að gera eitthvað sem er ekki aðeins réttlætanlegt heldur jafnvel aðdáunarvert.

En þótt hægt sé að tína til svona dæmi um ósannindi sem eru siðferðilega verjandi segir það okkur lítið um þetta tiltekna dæmi um jólasveinana. Foreldrar eru ekki að segja börnum sínum af jólasveinum í þeim tilgangi að þyrma lífi einhvers eða til að forða börnum frá vitneskju um ljóta og vonda hluti. Það þarf því að skoða dæmið sérstaklega.

Við getum líka litið á dæmi um ósannindi sem eru augljóslega siðferðilega röng. Þar má nefna lygar sem beitt er í því skyni að hagnast á kostnað annarra, notfæra sér trúgirni fólks til að gera því grikk, til að komast upp með að gera eitthvað rangt eða til að forðast það sem okkur finnst óþægilegt. Nú má spyrja hvort það að segja börnum að jólasveinar séu til og setji gjafir í skóinn þeirra falli í einhvern af þessum flokkum. Að öllum líkindum er tilgangur foreldra ekki sá að gera börnunum nokkuð illt með ósannindunum. Í sumum tilfellum eru börn hrædd við jólasveina en foreldrarnir þráast við að halda því fram að þessir skrýtnu karlar læðist inn í herbergið þeirra á hverri nóttu og þarna má kannski fara að efast um velvild foreldranna. Einnig hefur fólk látið þau orð falla að það sé “svo sætt” þegar krakkarnir trúi á jólasveina og svo má nefna þá sem líta á jólasveinatrúna sem leið til að halda krökkunum þægum fyrir jólin og þar má spyrja hvort þetta sé kannski meira gert fyrir fullorðna fólkið en börnin. Hér verða foreldrar þó látnir njóta vafans og við gefum okkur að tilgangur ósannindanna sé að gleðja börnin.



Við getum þá spurt: er siðferðilega rétt að segja einhverjum ósatt ef það er honum til góðs? Hér verður spurningunni ekki svarað heldur er henni vísað til lesandans.

Sumir mundu svo vilja staldra við og halda því fram að þessi tilteknu ósannindi um tilvist jólasveina séu ekki börnum til góðs. Þá erum við kannski komin út í uppeldisfræðilegu hliðina á málinu. Sumir telja til dæmis slæmt að skilyrðistengja gjafir en margir segja einmitt börnunum að þau fái fallegar gjafir í skóinn ef þau eru þæg en kartöflu ef þau eru óþekk. Þetta getur valdið sektarkennd hjá börnum efnalítilla foreldra þegar þau fara að bera sig saman við krakkana sem fá alltaf fínni og dýrari gjafir í skóinn. Þau geta ályktað sem svo að ástæða mismununarinnar sé að þau séu ekki nógu þæg. Jafnframt er það í ósamræmi við alvöru lífsins að fólk eignist alltaf nákvæmlega það sem það á skilið og getur valdið ýmsum vandræðum að koma slíkum ranghugmyndum inn hjá börnum. Þetta geta foreldrar kannski komið í veg fyrir með því að tengja ekki skógjafir við hegðun og einfaldlega sagt börnunum að allir krakkar fái í skóinn, óháð hegðun. Það er þó ekki fullkomin lausn á þeim vanda sem getur skapast þegar börnin fara að bera sig saman um það hvað þau fái í skóinn.

Börnin munu auðvitað einhvern tíma komast að hinu sanna um jólasveinana og því er rétt að huga að því hver viðbrögð þeirra geta orðið. Samkvæmt óformlegri könnun undirritaðrar meðal vina og vandamanna er niðurstaðan sú að flestum börnum þyki það ekkert tiltökumál að foreldrar þeirra hafi blekkt þau í þessum efnum og líti það jákvæðum augum. Hinu má þó ekki gleyma að ákveðinn hópur barna verður ákaflega sár út í foreldra sína þegar þau komast að hinu sanna og líta á blekkinguna sem alvarlegan trúnaðarbrest. Til dæmis má nefna konu um fertugt sem er enn sár út í foreldra sína og telur blekkinguna um jólasveinana hafa staðið sér fyrir þrifum við að tileinka sér gagnrýna hugsun. Rétt er því að muna að ekki eru öll börn eins og ekki við því að búast að öllum henti það sama. Foreldrar verða að reyna að þekkja sín börn í þessum efnum sem öðrum. Auk þess aðhyllist fólk mismunandi stefnur í uppeldismálum og ófær vegur að vega og meta uppeldislegt gildi jólasveinatrúar án langrar og mikillar greiningar á uppeldisfræðikenningum.



Athygli skal vakin á því að ýmsar leiðir hafa verið farnar í sambandi við jólasveinana. Sumir foreldrar eru frá upphafi hreinskilnir um að um leik er að ræða og virðast börn þeirra skemmta sér alveg jafn vel og önnur yfir jólum og jólasveinum. Aðrir foreldrar setja mörkin við það sem mundi flokkast sem hrein lygi. Þannig tala þeir um jólasveinana og að þeir setji í skóinn en þegar (og ef) að því kemur að barnið spyr “Eru það í alvörunni jólasveinar sem setja í skóinn?” kemur ekki annað til greina en segja satt. Enn aðrir útfæra hlutina svo á enn annan veg og draga mörkin annars staðar.

Spyrjandi veltir því líka fyrir sér hvort á öllum fullorðnum hvíli einhvers konar samfélagsleg skylda um að taka þátt í jólasveinasamsærinu. Hann bendir á fréttir frá Bandaríkjunum og Bretlandi um kennara og prest sem vöktu reiði foreldra með því að segja börnum satt um tilvist jólasveinsins. Þarna má auðvitað benda á að afskiptasemi á sér takmörk. Þótt rétt sé að skipta sér af ef fólk misþyrmir börnum sínum eða fer illa með þau á einhvern hátt teljum við yfirleitt ekki ástæðu til að skipta okkur af í hvert sinn sem við erum ekki sammála einhverju smáatriði í uppeldisaðferðum annarra. Þótt einhver telji það siðferðilega og/eða uppeldisfræðilega rangt að telja börnum trú um tilvist jólasveina er ekki þar með sagt að viðkomandi eigi að skipta sér af því sem aðrir gera í þeim efnum.

Aðstæður geta þó flækt málið. Er okkur til dæmis skylt að svara játandi ef annarra manna barn spyr hvort jólasveinar eru til í alvörunni? Stundum er kannski hægt að leysa málið með því að eyða talinu en eins og við öll vitum geta börn verið miklir þrákálfar. Og hvað ef við vitum ekki hverjar óskir foreldranna eru og hvað þeir hafa sagt barninu? Hvað gerum við ef við erum með hóp af börnum og vitum að sum þeirra trúa á jólasveina og önnur ekki? Viljum við að börnin sem trúa ekki á jólasveina standi okkur að því að fara með ósannindi? Hér eins og annars staðar er hinn gullni meðalvegur vandrataður og fátt annað að gera en höfða til dómgreindar hvers og eins. En líklega verða foreldrar að hafa það í huga að ef þeir búa í samfélagi við annað fólk sem hefur mismunandi skoðanir á hlutunum hafa þeir ekki fulla stjórn á því hvaða upplýsingar börnum þeirra eru veittar.

Mynd af Heilugum Nikulási: St.Nicholas The Wonder Worker

Mynd af jólasveini: art.com

Teikning af jólasveinum eftir Tryggva Magnússon: Vefsetur um Jóhannes úr Kötlum...