Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Ef líf þróast á annarri plánetu er þá rökrétt að gáfaðasta eða þróaðasta lífveran verði á endanum svipuð mönnum?

Valur Brynjar Antonsson

Nei, það er ekki rökrétt að þróun stefni að slíku marki. Til þess að sama útgáfa fáist eftir milljón ára þróun á aðskildum stöðum þyrftu ótal mörg skilyrði að vera hin sömu. Og jafnvel þó að slík skilyrði væru til staðar gera flestir ráð fyrir að tilviljanir séu innbyggðar í þróunina. Þannig telur mikill meirihluti vísindamanna að öll líffræðileg nauðhyggja – hugmyndir um að þróun sé fyrirfram ákveðin – sé í raun ósamrýmanleg þróunarkenningu Darwins.

Það á einnig við um hugmyndir um að þróuninni sé stýrt, það sem kallast heimshönnunarkenningin (e. intelligent design). Þessi hugmynd er ekki viðtekin meðal vísindamanna en hefur öðlast nokkra hylli meðal trúaðra manna sem vilja sætta vísindalega heimsmynd og trúarsetningar kirkjunnar.

Þannig má áætla að þótt til væri önnur pláneta þar sem líf fyrirfyndist væri það harla ólíklegt að lífverur myndu þróast með algjörlega sambærilegum hætti og menn á jörðinni. Hins vegar skiptist fólk í hópa eftir því hvort það telur að sumir mannlegir eiginleikar, svo sem meðvitund hans, auki með afgerandi hætti líkur fólks á að lifa af. Frá sjónarhorni náttúrunnar er þó ekki hægt að segja að maðurinn sé neitt betur heppnuð lífvera en mörg önnur dýr, svo sem ýmis skordýr.


Heimshönnunarkenningin gengur í berhögg við þróunarkenningu Darwins og er ekki viðtekin meðal vísindamanna. Samkvæmt einni útgáfu hennar eru lífverur of flóknar til að þær hafi getað þróast fyrir tilviljun og að því hljóti einhver vitiborin vera, svo sem Guð, að hafa stýrt þróun þeirra.

Samkvæmt þróunarkenningunni er þróunin blind; hún stefnir ekki að tilteknu marki heldur er hún háð tilviljunum. Þessi hugmynd hefur ekki skilað sér að fullu í huga almennings. Ástæðan fyrir því er sú að slíkar hugmyndir ganga í berhögg við margt sem brjóstvit okkar segir. Þróunarkenning Darwins (1809-1882) krefst, eins og afstæðiskenning Einsteins (1879-1955), róttækrar endurskoðunar á þeirri heimsmynd sem hefur myndast á þúsundum ára í menningu okkar. Það er því full ástæða til að rannsaka nánar af hvaða tagi þessi endurskoðun er og hvert sé eðli þeirra heimsmyndar sem hún leysir af hólmi.

Hversdagslega gerum við ráð fyrir að allt sem gerist hafi markmið. Til að mynda eru setningar í tungumáli okkar tengdar saman á rökrænan hátt með samtengingum eins og „til þess að“, „vegna þess“, „því að“ og svo framvegis. Í huga okkar er fræ verðandi blóm eða tré, egg verðandi hæna og svo framvegis. Við tengjum þetta við það hvernig við sjálf förum að. Áður en ég smíða stól hef ég nokkra hugmynd um hvernig stóll er í laginu og áður en ég legg af stað í ferðalag ákveð ég einhvern leiðarenda. Þessi hugsun okkar einkennist af markhyggju (e. teleology) sem felur í sér að sérhvert ferli stefni að fyrirfram ákveðnum punkti. Það er því ósköp skiljanlegt að hversdagslegur skilningur margra á þróun sé að allar skepnur jarðarinnar séu gerðar samkvæmt einhverskonar fyrirætlun. Þessi hugsunarháttur er þó með villandi hætti yfirfærður á þróun lífvera, því þá er gert ráð fyrir því að þróunin hafi tilgang (e. functional), sem hún hefur einmitt ekki (sjá þó ítarefni um umræður í dag um hlutverk markhyggju og tilviljana í skýringum á þróun).


Einstaklingar innan hverrar tegundar hafa örlítið mismunandi erfðaþætti, sem aftur valda oft eiginleikum sem passa misvel við umhverfið. Til dæmis kemur sér vel fyrir gíraffa að hafa langan háls því án hans ná þeir ekki til efstu laufa trjánna. Hálsstuttir forverar gíraffanna hafa því væntanlega orðið undir í baráttunni um fæðu, en hinir hálslengri komið genum sínum áfram.

Staðreyndin er sú að háls gíraffans lengdist ekki í þeim tilgangi að geta betur náð upp í efstu laufblöð trjánna, heldur vildi svo til að einmitt við þessi ákveðnu skilyrði lifðu þeir gíraffar af sem voru með lengri háls. Hin fræga setning „þeir hæfustu lifa af“, sem komin er frá heimspekingnum Herbert Spencer (1820-1903) en ekki Darwin, er því villandi. Hæfnin er afstæð og ræðst af umhverfisskilyrðum hverju sinni. Betra er því að tala um náttúruval eins og Darwin gerði sjálfur – og í dag hallast flestir að því að valið sé ekki á milli einstaklinga heldur erfðaþátta eða gena. Sumir erfðaþættir stuðla að tilteknum eiginleikum lífvera sem gera þeim kleift að koma genum sínum áfram til næstu kynslóðar. Þar af leiðandi verða þessir erfðaþættir smám saman algengari – þeir lifa af á kostnað annarra.

Til að náttúruval geti orðið þarf náttúran, eðli málsins samkvæmt, að hafa um eitthvað að velja. Þess vegna þarf maður að skilja hvernig breytileiki og frávik eru möguleg í erfðaefni lífveranna. Þessi breytileiki er forsenda þess að sumar lífverur lifa af en aðrar ekki. Hann verður aðallega til vegna stökkbreytinga í erfðaefninu, en stökkbreytingar eru yfirleitt tilviljanakenndar og því ófyrirsjáanlegar. Útkoman úr þróun lífvera getur því tekið á sig ærið fjölbreytta mynd.

Af öllu þessu leiðir að lífveran maður (Homo sapiens) er eins og hann er sökum atburða og aðstæðna fyrir óralöngu og vegna tilviljanakenndra stökkbreytinga sem gerðu sumum einstaklingum kleift að bregðast við þeim aðstæðum og auka kyn sitt. Með þessa vissu í farteskinu er mjög erfitt að ímynda sér hvers vegna þróun mannsins ætti að vera óhjákvæmilegt ferli. Eða eins og bandaríski rithöfundurinn Mark Twain sagði, það er jafn fáránlegt að halda að milljóna ára þróun hafi átt sér stað svo maðurinn gæti orðið til, og að halda að Eiffelturninn í París hafi verið byggður svo títuprjónninn efst á turninum fengi að njóta útsýnisins.

Frekara lesefni á Vísindavefnum

Þróun almennt

Þróun og trú

Þróun dýra

Þróun mannsins

Heimildir og ítarefni

  • Darwinism. Stanford Encyclopedia of Philosophy.
  • Evolution. Wikipedia, frjálsa alfræðiorðabókin.
  • Darwin, Charles. The origin of species by means of natural selection or the preservation of favored races in the struggle for life and The decent of man and selection in relation to sex. [Ýmsar útgáfur].
  • Dawkins, Richard. The selfish gene. Oxford: Oxford University Press, 1999.
  • Dennett, Daniel Clement. Darwin's dangerous idea: Evolution and the meanings of life. New York: Simon and Schuster, 1995.
  • Gould, Stephen Jay. The structure of evolutionary theory. Cambridge, MA: Belknap Press of Harvard University Press, 2002.

Myndir

Höfundur

Útgáfudagur

12.9.2005

Spyrjandi

Jóhann Ólafsson

Tilvísun

Valur Brynjar Antonsson. „Ef líf þróast á annarri plánetu er þá rökrétt að gáfaðasta eða þróaðasta lífveran verði á endanum svipuð mönnum?“ Vísindavefurinn, 12. september 2005, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=5257.

Valur Brynjar Antonsson. (2005, 12. september). Ef líf þróast á annarri plánetu er þá rökrétt að gáfaðasta eða þróaðasta lífveran verði á endanum svipuð mönnum? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=5257

Valur Brynjar Antonsson. „Ef líf þróast á annarri plánetu er þá rökrétt að gáfaðasta eða þróaðasta lífveran verði á endanum svipuð mönnum?“ Vísindavefurinn. 12. sep. 2005. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=5257>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Ef líf þróast á annarri plánetu er þá rökrétt að gáfaðasta eða þróaðasta lífveran verði á endanum svipuð mönnum?
Nei, það er ekki rökrétt að þróun stefni að slíku marki. Til þess að sama útgáfa fáist eftir milljón ára þróun á aðskildum stöðum þyrftu ótal mörg skilyrði að vera hin sömu. Og jafnvel þó að slík skilyrði væru til staðar gera flestir ráð fyrir að tilviljanir séu innbyggðar í þróunina. Þannig telur mikill meirihluti vísindamanna að öll líffræðileg nauðhyggja – hugmyndir um að þróun sé fyrirfram ákveðin – sé í raun ósamrýmanleg þróunarkenningu Darwins.

Það á einnig við um hugmyndir um að þróuninni sé stýrt, það sem kallast heimshönnunarkenningin (e. intelligent design). Þessi hugmynd er ekki viðtekin meðal vísindamanna en hefur öðlast nokkra hylli meðal trúaðra manna sem vilja sætta vísindalega heimsmynd og trúarsetningar kirkjunnar.

Þannig má áætla að þótt til væri önnur pláneta þar sem líf fyrirfyndist væri það harla ólíklegt að lífverur myndu þróast með algjörlega sambærilegum hætti og menn á jörðinni. Hins vegar skiptist fólk í hópa eftir því hvort það telur að sumir mannlegir eiginleikar, svo sem meðvitund hans, auki með afgerandi hætti líkur fólks á að lifa af. Frá sjónarhorni náttúrunnar er þó ekki hægt að segja að maðurinn sé neitt betur heppnuð lífvera en mörg önnur dýr, svo sem ýmis skordýr.


Heimshönnunarkenningin gengur í berhögg við þróunarkenningu Darwins og er ekki viðtekin meðal vísindamanna. Samkvæmt einni útgáfu hennar eru lífverur of flóknar til að þær hafi getað þróast fyrir tilviljun og að því hljóti einhver vitiborin vera, svo sem Guð, að hafa stýrt þróun þeirra.

Samkvæmt þróunarkenningunni er þróunin blind; hún stefnir ekki að tilteknu marki heldur er hún háð tilviljunum. Þessi hugmynd hefur ekki skilað sér að fullu í huga almennings. Ástæðan fyrir því er sú að slíkar hugmyndir ganga í berhögg við margt sem brjóstvit okkar segir. Þróunarkenning Darwins (1809-1882) krefst, eins og afstæðiskenning Einsteins (1879-1955), róttækrar endurskoðunar á þeirri heimsmynd sem hefur myndast á þúsundum ára í menningu okkar. Það er því full ástæða til að rannsaka nánar af hvaða tagi þessi endurskoðun er og hvert sé eðli þeirra heimsmyndar sem hún leysir af hólmi.

Hversdagslega gerum við ráð fyrir að allt sem gerist hafi markmið. Til að mynda eru setningar í tungumáli okkar tengdar saman á rökrænan hátt með samtengingum eins og „til þess að“, „vegna þess“, „því að“ og svo framvegis. Í huga okkar er fræ verðandi blóm eða tré, egg verðandi hæna og svo framvegis. Við tengjum þetta við það hvernig við sjálf förum að. Áður en ég smíða stól hef ég nokkra hugmynd um hvernig stóll er í laginu og áður en ég legg af stað í ferðalag ákveð ég einhvern leiðarenda. Þessi hugsun okkar einkennist af markhyggju (e. teleology) sem felur í sér að sérhvert ferli stefni að fyrirfram ákveðnum punkti. Það er því ósköp skiljanlegt að hversdagslegur skilningur margra á þróun sé að allar skepnur jarðarinnar séu gerðar samkvæmt einhverskonar fyrirætlun. Þessi hugsunarháttur er þó með villandi hætti yfirfærður á þróun lífvera, því þá er gert ráð fyrir því að þróunin hafi tilgang (e. functional), sem hún hefur einmitt ekki (sjá þó ítarefni um umræður í dag um hlutverk markhyggju og tilviljana í skýringum á þróun).


Einstaklingar innan hverrar tegundar hafa örlítið mismunandi erfðaþætti, sem aftur valda oft eiginleikum sem passa misvel við umhverfið. Til dæmis kemur sér vel fyrir gíraffa að hafa langan háls því án hans ná þeir ekki til efstu laufa trjánna. Hálsstuttir forverar gíraffanna hafa því væntanlega orðið undir í baráttunni um fæðu, en hinir hálslengri komið genum sínum áfram.

Staðreyndin er sú að háls gíraffans lengdist ekki í þeim tilgangi að geta betur náð upp í efstu laufblöð trjánna, heldur vildi svo til að einmitt við þessi ákveðnu skilyrði lifðu þeir gíraffar af sem voru með lengri háls. Hin fræga setning „þeir hæfustu lifa af“, sem komin er frá heimspekingnum Herbert Spencer (1820-1903) en ekki Darwin, er því villandi. Hæfnin er afstæð og ræðst af umhverfisskilyrðum hverju sinni. Betra er því að tala um náttúruval eins og Darwin gerði sjálfur – og í dag hallast flestir að því að valið sé ekki á milli einstaklinga heldur erfðaþátta eða gena. Sumir erfðaþættir stuðla að tilteknum eiginleikum lífvera sem gera þeim kleift að koma genum sínum áfram til næstu kynslóðar. Þar af leiðandi verða þessir erfðaþættir smám saman algengari – þeir lifa af á kostnað annarra.

Til að náttúruval geti orðið þarf náttúran, eðli málsins samkvæmt, að hafa um eitthvað að velja. Þess vegna þarf maður að skilja hvernig breytileiki og frávik eru möguleg í erfðaefni lífveranna. Þessi breytileiki er forsenda þess að sumar lífverur lifa af en aðrar ekki. Hann verður aðallega til vegna stökkbreytinga í erfðaefninu, en stökkbreytingar eru yfirleitt tilviljanakenndar og því ófyrirsjáanlegar. Útkoman úr þróun lífvera getur því tekið á sig ærið fjölbreytta mynd.

Af öllu þessu leiðir að lífveran maður (Homo sapiens) er eins og hann er sökum atburða og aðstæðna fyrir óralöngu og vegna tilviljanakenndra stökkbreytinga sem gerðu sumum einstaklingum kleift að bregðast við þeim aðstæðum og auka kyn sitt. Með þessa vissu í farteskinu er mjög erfitt að ímynda sér hvers vegna þróun mannsins ætti að vera óhjákvæmilegt ferli. Eða eins og bandaríski rithöfundurinn Mark Twain sagði, það er jafn fáránlegt að halda að milljóna ára þróun hafi átt sér stað svo maðurinn gæti orðið til, og að halda að Eiffelturninn í París hafi verið byggður svo títuprjónninn efst á turninum fengi að njóta útsýnisins.

Frekara lesefni á Vísindavefnum

Þróun almennt

Þróun og trú

Þróun dýra

Þróun mannsins

Heimildir og ítarefni

  • Darwinism. Stanford Encyclopedia of Philosophy.
  • Evolution. Wikipedia, frjálsa alfræðiorðabókin.
  • Darwin, Charles. The origin of species by means of natural selection or the preservation of favored races in the struggle for life and The decent of man and selection in relation to sex. [Ýmsar útgáfur].
  • Dawkins, Richard. The selfish gene. Oxford: Oxford University Press, 1999.
  • Dennett, Daniel Clement. Darwin's dangerous idea: Evolution and the meanings of life. New York: Simon and Schuster, 1995.
  • Gould, Stephen Jay. The structure of evolutionary theory. Cambridge, MA: Belknap Press of Harvard University Press, 2002.

Myndir

...