Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Svar vísindanna um uppruna mannsins er skýrt og afdráttarlaust: Tegundin Homo sapiens, hinn viti borni maður, varð til með þróun eins og aðrar tegundir í lífríkinu, og menn og apar hafa þróast út frá sömu forfeðrum eða fyrirrennurum. Vísindin láta hins vegar hitt liggja milli hluta hvort eða að hvaða leyti þessi niðurstaða stangast á við sköpunarsögu Biblíunnar. Svör manna við þess konar spurningum eru einstaklingsbundin og sjálfsagt mundu svör vísindamanna verða eins mörg og misjöfn og mennirnir eru margir.
Vísindamenn á okkar dögum, að meðtöldum guðfræðingum, eru ekki vanir að þurfa að svara spurningum sem settar eru fram með svona beinskeyttum hætti. Spyrjandi virðist til dæmis telja að annarhvor kosturinn hljóti að eiga við og enginn þriðji kostur sé til, þar á meðal að hvorttveggja geti verið rétt í einhverjum skilningi.
Raunvísindin rannsaka það sem fyrir ber og reyna að svara spurningum með vísun í orsakir og afleiðingar sem er að finna í heiminum sjálfum, í sama veruleika og viðfangsefnin sjálf. Samkvæmt raunvísindunum má ætla að hver hlutur í heiminum eigi sér orsök í heiminum. Þannig er þyngdarafl jarðar orsök þess að epli detta niður og upplýsingar í erfðaefni hluti af orsök þess að heilt tré getur vaxið af litlu fræi. Samkvæmt trúarbrögðum eiga hlutir sér hins vegar orsök utan heimsins - Guð kristinna manna og fleiri trúarbragða er ekki í heiminum eins og ég og þú og blóm og bílar.
Þróunarkenningin skýrir fjölbreytileika lífs og tilurð mannsins með hætti raunvísindanna með rakhníf Ockhams að vopni. (Rakhnífur Ockhams er regla sem segir mönnum að leita alltaf að sem einföldustum skýringum). Þróunarkenningin sýnir hvernig mögulegt er að margar tegundir lífvera verði til, án þess að nokkurt afl utan heimsins sé þar að verki. Hún hefur sjálf breyst nokkuð, þróast, frá því hún kom fyrst fram um miðja 19. öld, en kjarninn í hugmyndinni er þessi: Breytingar verða á einstökum lífverum, sumar gera lífveruna hæfari til að lifa og fjölga sér en aðrar gera hana vanhæfari. Þær lífverur sem eru hæfari eignast þá fleiri afkomendur sem erfa yfirleitt jákvæðu eiginleikana, en vanhæfar lífverur deyja út því þær verða útundan í samkeppni um fæðu og mökun. Á löngum tíma, milljónum ára, þróast lífheimurinn stórkostlega með þessum hætti og nú erum við stödd á skeiði þar sem til eru menn, það er að segja lífverur af tegundinni Homo sapiens, sem hreykja sér af því að geta rannsakað heiminn og sjálfar sig. Fjölmargar rannsóknir á steingervingum eldri lífvera og eiginleikum núlifandi lífvera virðast styðja kenninguna.
Þegar leið vísindanna er farin og leitað að orsök sérhvers hlutar í heiminum sjálfum kemur þó að því að menn spyrja: Hver er fyrsta orsökin? Því annaðhvort virðist nauðsynlegt að einhverja frumorsök sé að finna, sem er ekki sprottin af öðru, eða að orsakatengslin séu endalaus vítaruna en því er erfitt að kyngja.
En það sem liggur utan heimsins og ekki í honum, líkt og orsök heimsins, liggur jafnframt utan sviðs raunvísindanna (þó að þau leitist að vísu við að einfalda sem mest allar hugmyndir okkar um slíkt og fylgi þá fyrrnefndri rakhnífsreglu Ockhams). Þannig geta vísindin ekkert endilega sagt neitt um það sem hratt heiminum af stað, og þar með þeirri atburðarás sem leiddi til mannlegrar tilvistar.
Viðhorf manna til sambúðar vísinda og trúarbragða hafa verið að þróast og breytast allar götur síðan Galíleó háði hina frægu baráttu sína fyrir því að kaþólska kirkjan féllist á sólmiðjukenninguna. Baráttan hélt áfram eftir daga Galíleós, meðal annars með þeim styr sem varð um þróunarkenningu Darwins á síðari hluta nítjándu aldar, og smám saman lét kirkjan undan síga. Vísindi og trúarbrögð fundu sér farveg (modus vivendi) á þá leið að hvorugur truflaði hinn meira en nauðsynlegt væri. Þegar orð Biblíunnar, til dæmis í sköpunarsögunni, virðast stangast á við niðurstöður vísinda líta margir svo á að um líkingamál sé að ræða í Biblíunni.
Margt hefur verið skrifað og skrafað um trú og vísindi í aldanna rás. Hér skal bent á bók Þorsteins Vilhjálmssonar, Heimsmynd á hverfanda hveli I-II (Reykjavík: Mál og menning, 1986-1986) einkum síðara bindið þar sem rækilega er fjallað um deilu Galíleós og kirkjunnar.
Nokkur svör sem hafa þegar birst á Vísindavefnum tengjast þessari spurningu:
Hvað gerist ef vísindin sanna að Guð er ekki til? (Hjalti Hugason)
Samrýmist það vísindalegri hugsun að lífverur hafi þróast úr dauðum efnum án sköpunar? (Guðmundur Eggertsson)
Hvað eru til margar tegundir af þróunarkenningunni og hvað kallast þær? (Einar Árnason)
Hvers vegna er ekki hægt að búa til lífveru úr súpu lífrænna efna eins og talið er hafa gerst við upphaf lífsins? (Guðmundur Eggertsson)
Hvenær kviknaði líf og hvers vegna? (Guðmundur Eggertsson)
Hvernig getur lífsbarátta og náttúruval leitt til þess sem við köllum óeigingirni hjá einstökum lífverum? (Páll Hersteinsson)
Haukur Már Helgason og Þorsteinn Vilhjálmsson. „Skapaði Guð mennina eða urðu þeir til af öpum?“ Vísindavefurinn, 30. maí 2000, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=477.
Haukur Már Helgason og Þorsteinn Vilhjálmsson. (2000, 30. maí). Skapaði Guð mennina eða urðu þeir til af öpum? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=477
Haukur Már Helgason og Þorsteinn Vilhjálmsson. „Skapaði Guð mennina eða urðu þeir til af öpum?“ Vísindavefurinn. 30. maí. 2000. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=477>.