Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
ForsíðaHugvísindiVísindasagaHvað snýr upp og hvað niður í veröldinni
samkvæmt Biblíunni annars vegar og raunvísindum hins vegar?
Í þessu svari verður hins vegar leitast við að gefa einhvers konar heildarmynd þó að auðvitað verði þessu efni aldrei gerð tæmandi skil.
Nútímamönnum er ljóst að Biblían stangast samkvæmt orðanna hljóðan á við ýmsar niðurstöður raunvísinda, – og þarf reyndar ekki raunvísindi til heldur dugir að horfa kringum sig með berum augum. Að því er varðar efni máls eru þrjú dæmi um þetta líklega mikilvægust, það er að segja hvort jörðin sé flöt eða kúla, hvort hún eða sólin sé miðja alheimsins eða sólkerfisins og hvort lífið á jörðinni hafi orðið til samkvæmt sköpunarsögunni eða með þróun samkvæmt kenningu Darwins og líffræðinnar.
Engum blöðum er um það að fletta að þeir sem stýra penna í Biblíunni telja að jörðin sé flöt. Það var líka yfirleitt viðtekin skoðun flestra á þeim tíma sem Biblían var skrifuð, að því marki sem menn hugsuðu út í það. Einnig má segja að landlukt þjóð sem hefur lítil afskipti af sjó og stundar ekki mikil ferðalög hafi enga ástæðu til að ætla annað en að jörðin sé marflöt eins og pönnukakan á pönnunni.
En á þessum sama tíma voru menn að komast að annarri niðurstöðu annars staðar í heiminum. Frá því um 500 fyrir Krist eða svo má segja að náttúruspekingum Forngrikkja hafi komið saman um að jörðin væri ekki flöt heldur kúla. Þeir gripu þá hugmynd ekki úr lausu lofti heldur studdust þeir við ýmsar athuganir sem þeir gátu gert með berum augum og tengdust nábýli Grikkja við sjó, sjóferðum þeirra og öðrum ferðalögum. Þegar fram liðu stundir gátu þeir meira að segja mælt stærð kúlunnar, sbr. svar Stefáns Inga Valdimarssonar við spurningunni Hvernig fann Eratosþenes ummál jarðar svo nákvæmlega meira en 200 árum fyrir Krist?
Þessi rök eru sterk og gegnsæ eftir að menn hafa gert sér grein fyrir þeim. Flestir upplýstir menn gerðu sér þess vegna ljóst frá því nokkrum öldum fyrir Krist að jörðin er kúla. Sú þekking týndist aldrei á ferðalagi hugmyndanna frá Grikklandi hinu forna til annarra Austurlanda og síðar til Vestur-Evrópu.
Margir nútímamenn virðast halda að fyrri tíðar menn hafi talið jörðina flata lengi fram eftir öldum. Ein ástæða þess er líklega sú að kirkjufeðurnir börðust hatrammlega gegn jarðkúluhugmyndinni. Þeir mótuðu kennisetningar kirkjunnar á fyrstu þúsöldinni eftir Krist og töldu sig jafnvel hafa efni á að gera gys að hugmyndinni með því að benda á andfætlinga sem ættu að vera til samkvæmt henni.
Þetta breytir hins vegar engu um það að þeir sem þurftu á þessu að halda, einkum sjómenn og ferðamenn, höfðu lögun jarðarinnar á hreinu enda hefði þeim ella orðið býsna villugjarnt. Forfeður Norðurlandabúa á víkingaöld voru í þeim hópi. Þeir komust einfaldlega ekki hjá því að taka eftir kúlulöguninni á ferðalögum sínum um hálfan hnöttinn og notuðu sér það líka til að rata og átta sig. Og ekki hefði Kólumbus farið langt ef hann hefði talið jörðina flata.
Svo virðist hins vegar sem kirkjan hafi kosið að leiða þetta mál hjá sér í kyrrþey þegar ferðalög færðust í vöxt á síðmiðöldum, án þess að þá kæmi til sérstakra átaka út af því í hugmyndaheiminum.
Öðru máli gegnir um sólmiðjukenninguna sem kunnugt er. Þar lét katólska kirkjan sverfa til stáls, einkum þó í málarekstri sínum gegn Galíleó. Sú saga öll var afar mikilvæg í þessu samhengi og mótaði nær allt sem gerst hefur síðan í samskiptum og samanburði (kristinnar) trúar og vísinda. Þrátt fyrir að katólska kirkjan hefði á að skipa sumum færustu stjörnufræðingum þess tíma hélt hún fast við sinn keip og sat að lokum uppi með málstað sem engan veginn varð stætt á gagnvart vaxandi styrk sólmiðjukenningarinnar.
Það er algert lykilatriði í deilu páfastóls og Galíleós að Galíleó var sanntrúaður katólikki sem vildi kirkjunni vel alla tíð. Hann sat því í rauninni báðum megin borðsins og hafði að margra mati bæði víðari sýn og sá lengra fram í tímann en andstæðingar hans, enda má segja að nú aðhyllist nær allir aðilar þá afstöðu sem hann tók varðandi samskipti trúar og vísinda.
Hún fólst í sem stystu máli í því að kirkja og vísindi ættu að skipta með sér búi og jafnvel skilja að skiptum. Kirkjan ætti að hætta að skipta sér af pælingum og niðurstöðum vísindanna sem væru fengnar með þeim skynfærum sem Guð hefði gefið manninum. Bækurnar sem menn þyrftu að lesa væru tvær og bók náttúrunnar tæki Biblíunni fram í þeim efnum sem þar getur á annað borð að lesa.
Deilan um þróunarkenningu Darwins er í rauninni eins konar bergmál af deilu Galíleós. Þróunarkenningin varðar enn miðlægara atriði í hugmyndum Biblíunnar, sjálfa sköpunarsöguna, en á hinn bóginn höfðu ábyrg yfirvöld kirkjunnar ríkt í huga hvernig farið hafði í deilunni um sólmiðjukenninguna. Þess vegna hafa þau ekki beitt sér á sama hátt enda var Darwin til dæmis ekki þegn katólsku kirkjunnar eins og Galíleó. Í staðinn hefur andstaðan við þróunarkenninguna af hálfu trúarinnar orðið miklu dreifðari. Hún hefur þó orðið furðu langvinn, til dæmis af hálfu ákveðinna kirkjudeilda og áhangenda þeirra í svokölluðu Biblíubelti í suðurrríkjum Bandaríkjanna. (Sjá svar við Er rétt að Darwin hafi dregið kenningu sína til baka vegna eigin trúarskoðana?)
Spyrjandi virðist hafa mestan áhuga á meginlínum málsins. Að mínu mati eru þær þannig að nær allir sem að þessum málum koma hafa lært mikið af deilu Galíleós. Ábyrgum kirkjunnar mönnum, sem eru ekki úr hófi bókstafstrúar, er greinilega umhugað um að láta hana ekki endurtaka sig. Þeir fara því gætilega gagnvart nýjum gögnum eða staðreyndum sem vísindin bera á borð en láta samt nokkuð til sín taka í siðfræðilegum álitamálum sem tengjast vísindum. Vísindamenn reyna hins vegar yfirleitt að leiða trúmál sem mest hjá sér í störfum sínum, hvort sem þeir eru trúaðir eða iðka trú í einkalífi sínu eða ekki.
Kannski má líkja kirkju og vísindum við hjón sem erjuðu í upphafi sameiginlega jörð. Þau skildu síðan fyrir margt löngu og skiptu með sér búi. Meðal annars skiptu þau landareigninni eftir litlum læk sem rennur um hana miðja og skiptir mjög landslagi eins og lækir gera stundum. Sumir telja að landareignin í heild sé öll önnur og jafnvel rýrari eftir þessi skipti en það er umdeilt.
Hjónunum eru átök fortíðarinnar í fersku minni og þau reyna því að hafa sem minnst saman að sælda. Þau vilja ekki láta skerast í odda, þó að gráa svæðið við landamerkin geri þeim erfitt fyrir í því. Meðal annars er lækurinn á landamerkjum að færa sig sífellt í sömu átt. Sumum sem fylgjast með búskap þeirra hjóna þykir það miður en það er misskilin tillitsemi því að þeim finnst það ekki endilega sjálfum, heldur má líta á það sem eðlilega framvindu.
Stundum koma gestir í heimsókn til þeirra hjóna og vilja ræða við þau bæði í senn þar sem þau búa hvort sínum megin við lækinn. Einn þeirra heitir Kjarni, annar Kári, sá þriðji Menga, fjórði Ósa, fimmti Fíkn og svo framvegis. Hjónin fyrrverandi reyna að taka sameiginlega á erindum þessara gesta enda halda sumir þeirra því fram að úr þeim verði ekki leyst öðruvísi. Hjónin kalla þá stundum börn sín til hjálpar en sum þeirra eru enn að reyna að sætta foreldra sína eða brúa bilið milli þeirra og telja sér verða nokkuð ágengt í seinni tíð þrátt fyrir allt.
Höfundur þakkar Eyju Margréti Brynjarsdóttur ágætar athugasemdir við fyrri drög að svarinu.
Þorsteinn Vilhjálmsson. „Hvað snýr upp og hvað niður í veröldinni
samkvæmt Biblíunni annars vegar og raunvísindum hins vegar?“ Vísindavefurinn, 5. júní 2001, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=1675.
Þorsteinn Vilhjálmsson. (2001, 5. júní). Hvað snýr upp og hvað niður í veröldinni
samkvæmt Biblíunni annars vegar og raunvísindum hins vegar? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=1675
Þorsteinn Vilhjálmsson. „Hvað snýr upp og hvað niður í veröldinni
samkvæmt Biblíunni annars vegar og raunvísindum hins vegar?“ Vísindavefurinn. 5. jún. 2001. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=1675>.